Fráveitumál sveitarfélaga

99. fundur
Mánudaginn 28. febrúar 1994, kl. 17:13:09 (4541)

[17:13]
     Fyrirspyrjandi (Gísli S. Einarsson) :
    Virðulegur forseti. Ég ber hér fram spurningar á þskj. 596 til hæstv. umhvrh. varðandi fráveitumál sveitarfélaga. Tvær þáltill. voru sendar sameiginlega til umfjöllunar til virðulegrar umhvn. haustið 1991.

Umhvn. skilaði málum frá sér með þál. 10. mars 1992. Ég vil þakka fyrir hönd okkar flm. fyrir góða afgreiðslu að ég tel nefndarinnar. Sigurður Hlöðvesson hv. varaþm. Norðurlandskjördæmis vestra flutti aðra tillöguna en ég hina ásamt meðflutningsmönnum. Nýlega hefur komið fram frá umhvrn. að það telji að það þurfi að setja sérstök fjárframlög frá ríkinu til þess að kraftur verði settur í þessi mál. Ég vil taka undir þetta sjónarmið og hvetja til aðgerða.
    Mínar spurningar eru eftirfarandi:
    Hvað líður úttekt á ástandi fráveitumála sveitarfélaga sem Alþingi ályktaði um 10. mars 1992? Hvað líður vinnslu málsins í ráðuneytinu? Hefur verið unnið í samráði við Samtök sveitarfélaga að framgangi þess? Hefur verið leitað eftir tilnefningu um fulltrúa annarra ráðuneyta í nefnd hvað varðar hönnun búnaðar sem hentar við íslenskar aðstæður?
    Ég fylgi þessum spurningum ekki frekar eftir en vona að málið sé á góðri hreyfingu.