Áfengis- og vímuefnavarnir

99. fundur
Mánudaginn 28. febrúar 1994, kl. 17:59:43 (4559)


[17:59]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegur forseti. Rétt skal vera rétt. Hér var fyrirspyrjandi að ræða um forvarnamál áðan, ekki meðferðarmál. Og ég vil árétta það að þar hafa upphæðir hækkað milli ára og árétta enn fremur að á því er stigsmunur hvort menn eru að ræða um meðferð á sjúku fólki, stundum mjög sjúku fólki, eða forvörnum sem miða að heilbrigðum og koma í veg fyrir að sjúkdómurinn nái tökum á viðkomandi. Þessi hugtök verða að vera á hreinu þegar þessi mikilvægi málaflokkur er ræddur. Á hinn bóginn er hv. fyrirspyrjandi ekki sá fyrsti og kannski ekki sá síðasti sem ruglar þessu saman.
    Hitt vil ég árétta að þau álitamál sem uppi eru í þessu efni eru langt í frá flokkspólitísk, þau eru þverpólitísk eins og ég kom inn á og lúta að efnislegum, faglegum þáttum. Þannig að ég held að það sé af og frá, þótt hv. fyrirspyrjandi vilji leggja þetta mál út á þann veg, að hér sé um mál ríkisstjórnar að ræða annars vegar og stjórnarandstöðu hins vegar, þá er það bara ekki þannig. Þetta mál hefur yfir sér allt annan blæ.
    Ég vil líka láta það koma hér fram, þannig að við höfum það á hendi sem sannast reynist í þessum efnum, að þó að þessi vágestur, áfengismisnotkun, sé stóralvarlegur og aldrei megi sofna á verðinum þá er það þó þannig að alkóhóllítri á mann 15 ára og eldri hefur farið lækkandi umliðin fjögur ár, frá og með 1990 til ársins í ár, frá því að vera í 5,24 lítrum á mann 15 ára og eldri niður í 4,45 lítra. Það þýðir í raun að menn eru að komast niður á svipað stig og var í kringum 1984--1985, þ.e. á árunum á undan bjórnum. Þannig að við erum að komast á svipað ról eins og var fyrir þann tíma. Það er út af fyrir sig fagnaðarefni þó auðvitað megi aldrei slaka á klónni eitt andartak.