Vernd Breiðafjarðar

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 18:04:22 (4604)


[18:04]
     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir það að hann hefur opnað það rækilega að nefnd þingsins fari yfir þetta mál og geri breytingar. Það væri ekki dónalegt fyrir einstaka þingmenn að mega vera formenn í svona nefnd, svo ekki sé meira sagt, þar sem ráðherra sýnir þá víðsýni að lagasetningarstarfið sé unnið í sölum þingsins.
    Ég tel einnig mjög gott að það er upplýst frá hvaða tíma ákvæði 8. gr. eru. Þau eru frá þeim tíma sem menn settu lög um Mývatn. Satt best að segja er búið að umturna íslenska réttarkerfinu frá þeim tíma. Það er búið að umturna því. Þá voru sýslumenn bæði rannsóknaraðilar og dómarar eins og allir vita. Í dag er þetta orðið á þann veg að það eru komnir dómarar sem dæma í málum og framkvæmdarvaldið situr uppi með sín mál aftur á móti, þ.e. eftirlitsþáttinn. Hér þarf einnig að aðgreina það hver er með eftirlitsþáttinn og hver er með dómsþáttinn. Það er ekki í takt við nýju stjórnsýslulögin að ætla að hafa það á sömu hendi.
    Ég vil að lokum geta þess að mér fannst það lofa góðu um þekkingu hæstv. ráðherra á menningu Breiðafjarðar hvað honum varð hugsað stíft til Sturlu Þórðarsonar.