Stöðvun verkfalls fiskimanna

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 19:05:45 (4618)


[19:05]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er dálítið gaman að því að sjá að það er þó ákveðinn myndarbragur á því hjá hæstv. sjútvrh. að reyna að taka þátt í umræðunni með þeim hætti sem hann gerir. En það er dálítið sögulega fyndið að hæstv. forsrh., Davíð Oddsson, skuli vera svo illa á sig kominn í þessu máli að það er hæstv. sjútvrh., Þorsteinn Pálsson, sem ver þau verk sem eru þó forsætisráðherrans fyrsta verk, að ræða í þinginu um samskipti sín við forseta lýðveldisins við setningu bráðabirgðalaganna. Það sýnir kannski enn á ný hvað málið er viðkvæmt, að það skuli vera Þorsteinn Pálsson sem kemur hér og reynir að slá skildi fyrir hæstv. forsrh. Davíð Oddsson. En það er hins vegar jafnathyglivert í þeirri vörn að þrátt fyrir að ég hafi bent á það áðan þá kom hæstv. ráðherra ekki heldur nú til að segja það að hann teldi þá aðferð hæstv. forsrh. að ræða bara við tvo þingmenn Sjálfstfl. eðlilega. Hann fjallaði um að matið kynni að vera rétt. Þessi umræða hefur ekkert snúist um það. Þessi umræða hefur snúist um þær stjórnskipunarhefðir sem hafa gilt á Íslandi við setningu bráðabirgðalaga. Nú vil ég spyrja hæstv. sjútvrh., Þorstein Pálsson: Þegar hann var formaður Sjálfstfl. fylgdi hann þá þeirri aðferð sem Steingrímur Hermannsson og ég höfum lýst, og hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson lýsti að Alþfl. hefði fylgt, að gera sitt ýtrasta til að ræða við alla þingmenn síns flokks áður en lögin voru sett, eða fylgdi hann þeirri nýju aðferð sem hæstv. forsrh. hefur verið að taka hér upp að tala bara við tvo þingmenn? Vill ekki hæstv. sjútvrh. gjöra svo vel að segja þinginu frá því hvaða siðvenju fylgdi hann þegar hann var formaður Sjálfstfl.