Stöðvun verkfalls fiskimanna

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 19:13:33 (4622)


[19:13]
     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Það er vonlaust að hlífa fulltrúa Sjálfstfl. hæstv. dómsmrh. við að örlítið sé vitnað til sögunnar. Íhaldsmenn Breta og íhaldsmenn Íslands höfðu sama bakgrunn í skoðunum þar til Frjálslyndi flokkurinn og Íhaldsflokkurinn íslenski voru sameinaðir í Sjálfstfl. Og ég hygg að það sé rétt að einn fjórði hafi viljað halda gamla íhaldsnafninu --- ef ég man rétt hlutföllin í atkvæðagreiðslunni. Margrét Thatcher vildi leggja á nefskatt og hún vildi að hver einasti Breti borgaði þennan skatt. Og ef þeir ekki borguðu skattinn þá skyldi svipta þá atkvæðisrétti til þess að kjósa þingmenn fyrir Bretland. Hún braut engin stjórnskipunarlög en hún braut leikreglurnar, hún braut hinar hefðbundnu leikreglur.

Íhaldsmenn Breta risu upp og mótmæltu, kosningarrétturinn skyldi vera helgur þó að þeir byggju við Magna Carta en enga stjórnarskrá. Og þegar hæstv. dómsmrh., sem er mun fróðari um þessi mál en hæstv. sjútvrh. af skiljanlegum ástæðum, hafnar því að hugleiða hefðirnar og stöðuna út frá því en vill halda sig bara við túlkunina, bara við túlkunina að samkvæmt ýtrustu túlkun, þá er það rétt eins og fram hefur komið hjá honum að það er hvergi skráð að þessi skylda sé til staðar að tala við þingmenn. En hvers vegna var hann þá að geta þess að aðeins væri talað við tvo. ( Gripið fram í: Akkúrat.) Var hann að storka örlögunum? ( Gripið fram í: Akkúrat.) Var hann að espa upp umræðuna í þinginu eða var hann að senda skeyti til forsrh. um að hann kynni ekki sitt starf? ( Gripið fram í: Að sjálfsögðu var hann að því.)