Stöðvun verkfalls fiskimanna

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 19:17:44 (4624)


[19:17]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Vriðulegi forseti. Það eru mjög margvíslegar umræður sem hér fara fram þegar verið er að ræða um þetta frv. til laga um stöðvun verkfalls fiskimanna. Ég ræddi það allmjög í 1. umr. hvernig staðið var að þessu máli með bráðabirgðalögum en vil nú ræða frekar um efnisatriði þessa frv.
    Ég tel að ekki þurfi að hafa um það langt mál. Ég vil fyrst og fremst minna hæstv. forsrh. --- sem raunar er nú ekki í þessum sal þessa stundina en ég vil óska eftir að hann heyrði mitt mál --- á það að þegar þessi lög voru sett þá var það eitt aðalmarkmiðið að leysa þá deilu sem ríkisstjórnin taldi að væri komin í óleysanlegan hnút og jafnframt var tilkynnt að það mundu verða undirbúnar tillögur sem yrðu lagðar fram í Alþingi og ættu að miða að því að koma í veg fyrir að viðskipti með aflaheimildir innan árs hefðu óeðlileg áhrif á skiptakjör eins og það var orðað. Í 1. gr. þessa frv. sem við erum að ræða og hlýtur að vera fyrst og fremst tilgangur laganna, þá segir í 2. málslið: ,,Nefndin skal gera tillögur um hvernig koma megi í veg fyrir að viðskipti með aflaheimildir hafi óeðlileg áhrif á skiptakjör og undirbúa nauðsynlega löggjöf í þeim efnum.``
    Nú er hins vegar svo komið að með þessu frv. er ekki neitt sem segir að það sé tekið á þessu máli. Það er ekkert hér lagt fram sem lofað var samkvæmt þessari 1. gr. Nefndin sem átti að fjalla um þetta átti að skila tillögum fyrir 1. febrúar, það er kominn 1. mars. Nefndin skilaði inn tillögum sem reyndust ónothæfar og samkvæmt bréfi frá hæstv. sjútvrh. þá hefur sú tillaga verið metin ónothæf eða verið dregin til baka og sjútvn. þingsins falið að sleppa því algerlega að fjalla um það að framfylgja eða ræða þær tillögur neitt frekar. Þar á ég við tillögurnar um kvótaþing.

    Það liggur sem sagt fyrir að með því að setja þetta frv. nú til 2. umr. og í framhaldi af því trúlega til atkvæðagreiðslu þá er ríkisstjórnin í raun og veru að samþykkja að brjóta eigin lög. Ríkisstjórnin er að brjóta eigin lög. Hún er búin að setja bráðabirgðalög sem hljóða eins og ég var að lesa upp hér áðan og ef það á að samþykkja þessi lög án þess að framfylgt sé þessari 1. gr. þá hlýtur ríkisstjórnin að vera að brjóta eigin lög. Það verður ekkert tekið á þessu, það verður ekki tekið á þessu samkvæmt þessari 1. gr. Það liggur alveg fyrir. Það er auðvitað alveg fáránlegt að koma nú og leggja fram þetta frv. til 2. umr. án þess að það sé búið að framfylgja því sem segir í 1. gr. þess.
    Hvernig skyldi þá eiga að leysa úr þessu verkfalli sem ríkisstjórnin er búin að banna? Hverning skyldi eiga að leysa úr ágreiningi sem var orsök verkfallsins? Er það eðlilegt að það komi ríkisstjórn og Alþingi ekkert við hvernig tekið verður á því máli? Hafa menn ekki séð alveg nægilegt fyrir sér jafnvel bara síðustu daga í sambandi við kvótabrask sem sjómennirnir voru að gagnrýna? Hafa menn ekki séð síðustu dagana fréttina sem var í Morgunblaðinu fyrir nokkrum dögum, nánar tiltekið laugardaginn 27. febr., þar sem fyrirsögnin var, með leyfi forseta: ,,Skráðir í Grindavík í einn dag vegna kvótakaupa.`` Þar var verið að færa kvóta á milli skipa og til þess að Grindvíkingar og sveitarfélagið fengi nú ekkert um það að segja þá var viðkomandi bátur úr Hafnarfirði skráður einn dag í Grindavík og þar færðar yfir á hann aflaheimildir af öðrum bát. Verkalýðsfélagið og sveitarfélagið gátu ekkert gert. Er þetta nokkuð annað en kvótabrask? Þetta er aðeins eitt dæmi. Þetta er aðeins eitt dæmi um það kvótabrask sem viðgengst samkvæmt þessum lögum sem gilda í dag um stjórn fiskveiða.
    Það liggur auðvitað fyrir ef svo fer að þetta frv. fer í gegnum þingið sem ég vona þó innilega að ekki verði, það liggur fyrir að þá er ekki hægt að taka neitt á þessu máli nema þá hugsanlega í gegnum frv. um stjórn fiskveiða. En samkvæmt því sem það liggur fyrir núna þá er þar ekkert fyrir sem bendir til þess að þar eigi að taka á því. Það verður þá fróðlegt að vita hvort hæstv. sjútvrh. muni beita sér fyrir því að það verði þar inni einhverjar brtt. sem taki á þessu kvótabraski.
    Sjómannasamtökin lögðu fram ákveðnar tillögur um að leysa þetta mál og hefðu sjálfsagt getað leyst það ef þau hefðu haft frið til þess og ekki hefðu verið sett lög á verkfall þeirra. Þau voru búin að leggja fram ýmsar hugmyndir. En útgerðarmenn tóku ekki í mál að ræða þær vegna þess að yfirvofandi var að lög yrðu sett á verkfallið.
    Það er illt til þess að vita að svo mörg mál skuli liggja óafgreidd hér í þinginu og að það skuli ekki vera tekið á því með vitrænum hætti að afgreiða þau mál sem liggja fyrir, rétt eins og þetta frv. sem hér liggur fyrir, það er ekki tekið á því að afgreiða það sem stendur í 1. gr. Það er heldur ekki tekið á því að ræða frekar um stjórn fiskveiða. Ég efast satt að segja um að það mál komi nokkurn tímann aftur út úr sjútvn. Þyrlukaupamálið er eitt málið sem ekki er afgreitt hér. Hæstv. forsrh. lofaði í janúar að það yrði afgreitt eftir nokkra daga. Hæstv. sjútvrh. sagði að það yrði afgreitt í lok febrúar. Það er ekki enn farið að afgreiða það. Og fleiri og fleiri mál liggja hér til afgreiðslu og hæstv. ríkisstjórn rífst um innflutning skinku og kalkúnalæra.
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins ljúka þessum orðum hér við 2. umr. um þetta frv. til laga um stöðvun verkfalls fiskimanna með þeirri ósk að ríkisstjórnin dragi þetta frv. til baka. Því að verði þetta frv. samþykkt svona eins og það er þá er ríkisstjórnin um leið að brjóta eigin lög.