Stöðvun verkfalls fiskimanna

100. fundur
Þriðjudaginn 01. mars 1994, kl. 21:36:10 (4649)


[21:36]
     Páll Pétursson (andsvar) :
    Herra forseti. Ég held að það hefði verið hægt að stöðva þessa kjaradeilu áður en hún varð alvarleg ef hæstv. sjútvrh. hefði ekki setið með hendur í skauti, ef hann hefði ekki látið málið afskiptalaust, ef hann hefði mátt vera að því að tala við menn, m.a. að tala við formann Farmanna- og fiskimannasambands Íslands. Þá hefði formaður Farmanna- og fiskimannasambands Íslands e.t.v. haldið sig við það sem upphaflega var ásetningur þeirra að koma í veg fyrir kvótabrask, þ.e. að sjómenn væru látnir taka þátt í kvótakaupum. Og ég trúi nú ekki öðru en jafnmikill fortölumeistari og hæstv. sjútvrh. er hefði getað fengið þennan varaþm. Sjálfstfl. til þess að taka öðruvísi á málinu. Það sem varaþm. var að gera var það að hann reiddi til höggs og hann ætlaði að láta það lenda á öllu kvótakerfinu, hann ætlaði að kollvarpa kvótakerfinu. Og ég á eftir að sjá það að hæstv. sjútvrh. fái stuðning hans við kvótakerfið hér á komandi mánuðum. Ég horfi til þess með nokkurri eftirvæntingu hvernig hv. stjórnarflokkar fara að lenda því máli.