THORP-endurvinnslustöðin fyrir geislavirkan úrgang

101. fundur
Miðvikudaginn 02. mars 1994, kl. 13:51:09 (4704)


[13:51]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. utanrrh. Tilefnið er það að eins og menn þekkja hefur staðið yfir málarekstur í Bretlandi vegna starfsleyfis fyrir endurvinnslustöðina fyrir geislavirkan úrgang, kennd við THORP hjá Sellafield og málflutningi lauk 17. febr. í máli sem höfðað var af Lancashire County Council og Greenpeace-samtökunum gegn breskum stjórnvöldum og nú er dóms að vænta í þessu máli á föstudaginn.
    Alþingi fjallaði um þetta mál tveim dögum eftir eða degi eftir að ákvörðun breskra stjórnvalda var tekin 15. des. sl. og ályktaði einróma 17. des. að tillögu umhverfis- og utanríkisnefnda þingsins og þar segir orðrétt: ,,Alþingi væntir þess að ríkisstjórnin grípi til skjótra viðbragða í tilefni þessarar ákvörðunar sem ógnar lífshagsmunum íslensku þjóðarinnar vegna áhrifa á lífríki hafsins og nýtingu auðlinda þess.``
    Nú skal ósagt látið hvernig dómur fellur. En ég spyr: Hafa íslensk stjórnvöld, hefur hæstv. utanrrh. skoðað þetta mál í ljósi þess að þarna er væntanlegur dómur? Hefur ríkisstjórnin borið sig saman um það, ráðherra utanríkismála, við aðra í ríkisstjórn, þar á meðal hæstv. umhvrh. hvernig taka eigi á þessu máli af Íslands hálfu þegar og ef þessi endurvinnsla hefst nú mjög innan skamms?

    Ég tel að hér sé slíkt alvörumál á ferðinni að ekkert annað en mjög ákveðin og einörð viðbrögð af hálfu íslenskra stjórnvalda geti verið svarið strax og þessi starfsemi færi af stað.