Náttúruvernd

102. fundur
Fimmtudaginn 03. mars 1994, kl. 17:06:47 (4791)


[17:06]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Af því að hér hefur borist í tal Mahatma Gandhi þá er rétt að rifja það upp að hann var líka frægur fyrir að ganga í síðum kufli með rokk og spinna örmjóan þráð. Og ég verð að segja það eftir þær lýsingar sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson gefur á þessu frv., sem hann fjallar þó nær ekkert efnislega um, þá finnst mér hans málflutningur líka líkastur örmjóum þræði.
    Nú er það svo að umræður um endurskoðun þessara náttúruverndarlaga hafa staðið alllengi. Eins og ég gat um í minni ræðu þá var lagt hér fram frv. á þinginu 1984--1985. Það frv. var ekki afgreitt, það var ekki endurflutt. Síðan hafa staðið yfir umræður um nauðsyn þess að endurskoða náttúruverndarlög. Það gerist síðan að umhvrn. er stofnað og í kjölfar þess er auðvitað ljóst að það er miklu ríkari nauðsyn heldur en áður að endurskoða lögin með tilliti til þess. Jafnframt er það svo að ýmis önnur lög eru samþykkt sem gera þetta verkefni enn þá brýnna. Það var svo, eins og hér hefur borist í tal, að umhvrh. skipaði nefnd. Sú nefnd átti að starfa að því einkum, eins og segir í erindisbréfi hennar, ,,að koma með tillögur að breyttri stjórnun náttúruverndarmála í landinu``. Hv. þm., Árni M. Mathiesen, átti sæti í þeirri nefnd. Hann hefur lýst því hvernig hann mat starf nefndarinnar. Hann hefur, maðurinn sem var á vettvangi, lýst því að það hafi verið rétt hjá umhvrh. að grípa til þess bragðs að leysa þessa nefnd frá störfum eftir að hún hafði verið meira en ári lengur heldur en henni var gert til að skila sinni vinnu. Það er líka rétt að geta þess að þegar ég kom í ráðuneytið þá var mér afhent af formanni þeirrar nefndar frv. sem tók til, ef ég man rétt, fyrstu 15. gr. núgildandi laga. Ég las það frv. og komst auðvitað að því að ef það speglaði rétt vinnuna í nefndinni þá hafi hún verið að gera allt aðra hluti heldur en lögð var mest áhersla á í hennar erindisbréfi.
    Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að umhvrn. er lítið ráðuneyti. Það er ekkert óeðlilegt við það. Það er langyngsta ráðuneytið, en mjór er mikils vísir. Ráðuneytið hefur verið að eflast, m.a. vegna góðs skilnings þingheims. Auðvitað er það alltaf svo að það eru sumir sem skilja ekki nauðsyn nýrra hluta. Nauðsyn þess til að mynda að setja á stofn ráðuneyti eins og þetta. Við vitum það líka

og ég þarf ekkert að fjalla neitt djúpt um það að einnig hér í þessum sölum ríkir vanskilningur á gildi þessa ráðuneytis. Það er svo, það á enn erfitt uppdráttar. En ég vænti þess að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson leggi okkur lið við að efla það og ég veit að það mun ekki standa á hans stuðningi.
    En ég vil samt sem áður minna á það að á sínum skamma líftíma hefur það þó eflst töluvert. Það hafa verið færðar undir það stofnanir og það hafa verið sett ný lög. Ég minni á lög um umhverfismat sem skipta verulega miklu máli. Ég minni á það að einmitt núna er verið að flytja til þess nýja stofnun --- það liggur fyrir frv. hér í þinginu um það --- Hollustuvernd. Ég hlýt í framhaldi af málflutningi hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar að álykta sem svo að hann sé ákafur stuðningsmaður þess flutnings.
    Mig langar aðeins, virðulegur forseti, vegna þess að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur hér í dag og raunar líka í umræðum fyrir tveimur dögum farið nokkuð harkalegum orðum um þátt umhvrh. til að reyna að efna til þjóðgarðs á utanverðu Snæfellsnesi og talið að þar hafi verið um handahófskennd vinnubrögð að ræða sem voru bara hrist fram úr erminni. Og ekki var hægt að skilja hv. þm. öðruvísi en svo en að þar hafi verið um fullkomna geðþóttaákvörðun að ræða hjá ráðherra sem vaknaði einn morguninn og þótti góð hugmynd að leggja fram tillögu um þjóðgarð á utanverðu Snæfellsnesi. (Gripið fram í.)
    Nú er það svo að ég hafði verið nákvæmlega 28 klst. í embætti þegar ég færði þetta fyrst í tal við þáv. framkvæmdastjóra Náttúruverndarráðs á hans eigin skrifstofu. Á þjóðhátíðardaginn 17. júní þá skrifaði ég Náttúruverndarráði bréf, bað um áætlanir þess í friðlýsingarmálum og um þjóðgarða, og ég bað sérstaklega um að kannaður væri ítarlega kosturinn að stofna þjóðgarð á utanverðu Snæfellsnesi. Ég fékk síðan svarbréf þann 28. júní þar sem lýst var yfir að ráðið mundi gera áætlun um undirbúing að þjóðgarði á Snæfellsnesi eins fljótt og tími ynnist til. Það er allt í lagi að greina frá því að sökum mikilla anna var sú áætlun aldrei gerð og ekki heldur fékk ég í hendur áætlanir um framkvæmdir í friðlýsingarmálum og er þá rétt að geta þess líka að forveri minn hafði tvisvar sinnum yfir eins árs bil beðið um slíkt hið sama. Þegar kom fram í ágúst þá fól ég starfsmönnum mínum í ráðuneytinu að fara í undirbúningsvinnu sem tengdist þessari þjóðgarðshugmynd. Ég ræddi það nokkrum sinnum við formann Náttúruverndarráðs og það var á slíkum fundum sem sú hugmynd varð til sem ég lagði síðar fram í ríkisstjórn, þ.e. nefnd þriggja ráðuneyta með heimamönnum til að undirbúa þetta.
    Ég fól líka Náttúrufræðistofnun Íslands það hlutverk að vinna greinargerð um náttúrufar á svæðinu alveg eins og þeir höfðu unnið fyrir mig greinargerð sem hér í umræðunum fyrir nokkrum dögum hlaut mjög góða dóma og varðaði Breiðafjörð. Ég taldi síðan að það væri betra að í staðinn fyrir að umhvrh. sjálfur skipaði þessa nefnd þá væri betra að fara með málið í gegnum ríkisstjórnina og fá þar aukið vægi vegna þess að eins og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson bendir á þá er við ramman reip að draga þar sem eru fjárveitingar. Ég veit það alveg jafnvel og aðrir og kannski ekki síður en aðrir vegna þess að ég hef att kappi við þennan ramma í ríkisstjórninni. Ég er ekkert feimin við að lýsa því yfir eins og ég hef gert hér áður að það er ekki nægilega mikill skilningur á umhverfismálum og það gildir um ríkisstjórn og Alþingi eins og aðra aðila. Og ég taldi líka að í stöðunni væri það mjög mikill áfangasigur að fá ríkisstjórnina til að fallast á þetta og tengja það afmæli lýðveldisins. Þá taldi ég að þarna væri komið verulegt vægi á bak við.
    Virðulegi forseti. Til mín hefur verið beint ýmsum spurningum. Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir kvað í sinni ræðu ekki rétt af sinni hálfu að lýsa stuðningi eða andstöðu við þetta frv. en fór ýmsum lofsamlegum orðum um einstaka þætti þess. Hún kvaðst óttast ofstjórn með því kerfi sem þar er byggt upp, þ.e. Náttúruverndarráð með sinn neikvæða tón í umræðunni eins og hún kaus að orða það þó ég sé því nú ekki sammála og síðan Landvarsla ríkisins og umhvrn. Og hún taldi að það gæti verið að landeigendur og aðrir lentu í því að það væri eins konar þrígildur aðili sem væri að hafa eftirlit með þeim, margfalt eftirlit orðaði hún það. Það er alls ekki svo. Það sem þarna er í rauninni verið að gera er að Náttúruverndarráð er tekið út úr ríkiskerfinu, það er gert að vettvangi frjálsra félagasamtaka. Verkaskipting samkvæmt þessu frv., hvað sem líður þeim aðfinnslum sem hér hafa komið og sumar báru þess vitni að viðkomandi hefði ekki lesið frv. nógu rækilega, er miklu skýrari en áður. Þannig að þetta ætti að draga úr hættunni á ofstjórn. Ég þekki það af reynslunni og veit að stjórnunin sjálf verður miklu liprari. Það verður betra að sækja undir yfirvald sem til að mynda getur tekið ákvarðanir hratt heldur en undir Náttúruverndarráð sem heldur fundi einu sinni í mánuði svo ég nefni dæmi vegna þess að slík vandamál hafa komið upp nú á síðustu vikum.
    Hv. þm. tók undir það að í frv. væri með vissum hætti verið að færa vald meira í þessum efnum út í héruðin. Hún taldi það vera forsendur fyrir sínum stuðningi ef af honum yrði við frv. af þessum toga að vald yrði í ríkari mæli fært út í landshlutana. En það er nákvæmlega það sem er verið að gera í þessu frv. Náttúruverndarnefndum sem hafa verið afar veikar og hafa verið veikasti hlekkurinn í þeirri keðju sem kemur nálægt stjórnun náttúruverndarmála í landinu er fækkað og svæðin sem þau ná yfir eru stækkuð. Og það kemur líka fram í greinargerð að ætlunin er að reyna að þætta starf þeirra betur inn í náttúrustofur eftir því sem þær rísa í kjördæmum landsins. Þetta kemur fram í greinargerð með frv. og ég tel að það sé mjög gott vegna þess að þá fæst þar ákveðinn fræðilegur bakhjarl vegna þess að í náttúrufræðistofum verða starfandi náttúrufræðingar.
    Hv. þm. Auður Sveinsdóttir kvartaði yfir því að það væri ekki minnst á skipulagsþáttinn og ekki nýtt tækifæri sem hún þekkir manna best í gegnum skipulagslögin til þess að efla náttúruvernd. Hún kvartaði líka yfir því að það væru ekki nægilegar tengingar við Skógrækt ríkisins og Landgræðslu ríkisins en eins og ég hef getið um hér fyrr í dag þá lýtur þetta frv. fyrst og fremst að stjórnkerfinu sjálfu. Það á eftir að fara í viðameiri og flóknari úttekt þar sem fleiri aðilar þurfa að koma að því vegna þess að málið er einfaldlega miklu flóknara og þá geri ég ráð fyrir að nákvæmlega þessi atriði verði tekin til betri skoðunar.
    Hv. þm. Auður Sveinsdóttir vildi líka fá skilgreiningu á því hvað er náttúruverndarsvæði. Ég bendi henni á að lesa frv. Ég bendi henni á að lesa 4. gr. og niðurlag hennar á bls. 7. Þar segir:
    ,,Staðir og svæði sem búið er að friðlýsa samkvæmt ákvæðum þessara laga eða eru á náttúruminjaskrá nefnast náttúruverndarsvæði. Til náttúruverndarsvæða teljast einnig afmörkuð svæði á landi og sjó sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt öðrum lögum vegna náttúru eða landslags.``
    Þar kemur það alveg skýrt fram. Hv. þm. kvartaði einnig yfir því að bændasamtök eða landeigendur ættu ekki sjálfkrafa aðild að Náttúruverndarráði eins og til að mynda ferðasamtök. Því er til að svara að landeigendur og bændasamtök eiga sína fulltrúa á náttúruverndarþingi. Það er hægt að fjölga fulltrúum þar, fjölga þeim félögum sem þar eiga aðild þannig að í gegnum þann vettvang hafa þau áhrif sín á Náttúruverndarráðið sjálft. Hv. þm. taldi líka að Náttúruverndarráð gæti alls ekki talist óháður aðili og sagði fullum fetum: Hvers vegna ekki að stíga skrefið til fulls og leggja af Náttúruverndarráð? Það er sjónarmið út af fyrir sig og hún hefur áður túlkað það í fjölmiðlum og ég hef ekkert annað um það að segja heldur en að ég tel ekki að það sé rétt. Ég tel að í gegnum Náttúruverndarráð eins og tengslin eru milli Náttúruverndarráðs og náttúruverndarþings þá sé það alveg ljóst að þar á þinginu er vettvangur hinna frjálsu félagasamtaka sem sinna náttúruvernd í landinu. Þau kjósa síðan í ráðið sína fulltrúa þannig að það er ómögulegt annað en að fallast á það að þar er um að ræða óháðan vettvang, óháðan vettvang frjálsra félag. Ríkið hins vegar samkvæmt þessu frv. leggur svo mikla áherslu á aðhaldshlutverk þessa vettvangs að það er reiðubúið til að tryggja skilvirkni í starfi, fjármagn til þess að þetta starf geti átt sér stað. Ég get því alls ekki fallist á það að ef ríkið veitir fjármagn til að styðja vettvang slíkra óháðra félagasamtaka þá séu þau orðin háð ríkinu um stefnumótun. Ég tel það algerlega fráleitt.
    Hv. þm. Karen Erla talaði hér snjallt mál og hennar ræða var einmitt þörf að því leyti til að þar talar fulltrúi ferðaþjónustunnar í landinu og sýndi það einmitt með sinni ræðu að þarna er ákveðin spenna á milli annars vegar náttúruverndarsinna og hins vegar þeirra sem starfa að ferðaþjónustu. Ég hef gert mér grein fyrir því á þeim stutta tíma sem ég hef verið umhvrh. að þarna þarf að gera eitthvað til að reyna að draga úr spennunni og það er einmitt þess vegna, til þess að tengja betur ferðaþjónustu og náttúruvernd, sem ég geri tillögu um það með þessu frv. að fulltrúi ferðamennskunnar eigi sæti í Náttúruverndarráði. Og ég geri mér grein fyrir því að það er andstaða við það.
    Hv. þm. spurði einnig hvers vegna og hvernig ætti að setja reglur um akstur snjósleða um snjó og jökla og hverjir ættu að framfylgja því. Því er til að svara, sem ég hefði e.t.v. átt að geta í upphafi minnar ræðu, að fjölmargt í þessu frv. er þar eftir samráð við Náttúruverndarráð. Þetta er einn af þeim liðum.
    Hv. þm. Kristín Einarsdóttir staðhæfði að með þessum lögum missti Náttúruverndarráð sitt hlutverk. Það er rétt að því leyti að það missir sitt núverandi hlutverk en það fær nýtt hlutverk sem ég hef lýst hér fyrr í dag, það verður vettvangur fyrir frjáls félagasamtök sem sinna náttúruvernd í landinu. Þannig að ég get fallist á það að hlutverkinu er breytt allverulega. Bæði hv. þm. Kristín Einarsdóttir og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson töldu óeðlilegt að umhvrh. væri að sýsla með friðlýsingar. Hvað er óeðlilegt við það? Í dag er það umhvrh. sem staðfestir þessar friðlýsingar. Hvað er óeðlilegt við það þegar komið er upp umhvrn. að þá verði það einnig umhvrh. sem fer með friðlýsingarvaldið? En það er alveg út í hött að halda því fram eins og hv. þm. Kristín Einarsdóttir gerði að einhver friðlýsingarglaður ráðherra gæti farið hér á sínum gæðingi um landið og friðlýst fullt af svæðum. Ja, guð léti gott á vita. Ég er friðlýsingarmaður í eðli mínu. Það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom í ráðuneytið, virðulegi forseti, var að óska eftir samstarfi við Náttúruverndarráð um það. Það hefur ekki verið friðlýst eitt einasta svæði á Íslandi árum saman. Hvers vegna? Vegna þess að það er svo erfitt. Jafnvel þungur og náttúruglaður ráðherra sem vildi friðlýsa hann gerir það ekki bara með því að smella fingrum.