Hafnalög

103. fundur
Þriðjudaginn 08. mars 1994, kl. 14:04:13 (4818)


[14:04]
     Guðni Ágústsson (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Ég fyrirgef hæstv. forseta að misskilja hlutina svona öðru hverju. Það verður að sætta sig við það. En hitt er annað mál að ég geri kröfu til þess að sá hluti þingsins sem heitir stjórnarandstaða og gegnir hér ákveðnu hlutverki eigi einhvern rétt bæði til að tala og fá sín mál afgreidd af hálfu hæstv. forseta. Þeirri beiðni frá einum sem situr í minni hlutanum um að þessu máli verði frestað, það fái á nýjan leik að koma inn í nefndina, hefur ekki verið svarað. Ég sit í samgn. Ég fer fram á nákvæmlega sama hlutinn. Við erum búnir að sitja yfir þessu máli í tvo vetur og það hefur gengið með endemum eins og hér hefur komið fram. Nú liggur allt í einu fyrir ný og mikil brtt. frá hæstv. samgrh. og mér finnst eðlilegt, hæstv. forseti, að við fáum að fjalla um þessa brtt. í nefndinni. Ég sé nú ekki hvað einn dagur skiptir sköpum í þessu margra mánaða þrefi sem staðið hefur yfir. Ég vænti þess að hæstv. forseti verði við þessari beiðni því að samgn. á sinn löglega fundardag í fyrramálið og okkur þætti vænt um, hæstv. forseti, ef málið mætti koma inn í nefndina á nýjan leik áður en umræðu er lokið hér í þinginu. Ég bið því hæstv. forseta um að virða þessar óskir stjórnarandstöðunnar og verða við því að málinu verði frestað. Ég sé að hæstv. samgrh. ærist svona í stólnum undir þessum beiðnum. En hvaða máli skiptir einn dagur fyrir mann sem er búinn að vera að burðast með þetta mál í tvo vetur? Ég get ekki séð að hæstv. ráðherra eigi neitt að ærast yfir því, hæstv. ráðherra.