Hafnalög

103. fundur
Þriðjudaginn 08. mars 1994, kl. 17:15:15 (4848)


[17:15]
     Frsm. minni hluta samgn. (Jóhann Ársælsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég held að það sé annaðhvort að treysta hæstv. ráðherra fyrir því að skipa þessa menn eða ekki og hann hlýtur þá að meta það hvort þessi stöðugleiki sem þarna er verið að tala um er nauðsynlegur og þess vegna tel ég að hann eigi þá að skipa sína þrjá menn, sem hann skipar þá hvort sem er, alla í einu. Hvort hann heldur áfram að hafa þá menn í nefndinni eða stjórninni sem voru fyrir er auðvitað hans val.
    Mig langar síðan vegna þessa tals um upptökumannvirkin að segja það að ég tel að hvort það eru sett 40 eða 60% í styrk til kaupa á upptökumannvirkjum skipti ekki höfuðmáli í þessu sambandi. Ég tel að það hafi komið fram það mikil mótmæli við öllum þessum breytingum sem verið er að gera á þátttöku ríkisins í hinum ýmsu hafnarframkvæmdum að við hefðum átt að gefa okkur tíma til að fara betur yfir það mál. En það var ekki gert og þess vegna leggjum við til að þetta verði óbreytt þangað til menn hafa skoðað málið betur.
    Síðan langar mig að segja vegna orða hv. þm. um það að hafnir geti verið hluthafar í fyrirtækjum að það er nánast óframkvæmanlegt að mínu viti vegna þess að um leið og hafnir fara að taka þátt í atvinnulífinu með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir, þá eru menn að skekkja samkeppnisaðstöðu við önnur fyrirtæki. Þarna er á ferðinni ríkisstyrkt fyrirtæki, þ.e. hafnirnar, sem hafa fengið gífurlega mikla peninga frá ríkinu til sín í framlögum og eru síðan að nota þennan styrk til þess að taka þátt í atvinnulífinu. Ég held að það sé ekki til góðs að fara svona fram eins og þetta er sett á blöð hér og ég tel að það hefði alla vega verið mjög nauðsynlegt að menn hefðu skilgreint nákvæmlega hvaða fyrirtæki það eru sem hafnirnar fá tækifæri til að taka þátt í.