Afnám tvísköttunar af lífeyrisgreiðslum

103. fundur
Þriðjudaginn 08. mars 1994, kl. 18:01:55 (4858)


[18:01]
     Flm. (Guðmundur Hallvarðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég flyt hér till. til þál. um afnám tvísköttunar af lífeyrisgreiðslum. Meðflutningsmenn mínir eru Sólveig Pétursdóttir og Vilhjálmur Egilsson.
    Tillagan hljóðar svo:
    ,,Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að leggja fyrir Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sem leiði til afnáms tvísköttunar af lífeyrisgreiðslum og jafnræðis í skattalegri meðferð vaxtahluta lífeyrisins.``
    Í greinargerð segir, m.a.:
    Þegar staðgreiðslu skatta var komið á var um leið tekin upp tvísköttun lífeyrisgreiðslna. Þær höfðu áður verið undanþegnar tekjuskatti. Eftir breytinguna var tekjuskattur lagður á þær tekjur sem launþegi greiddi sem iðgjald í lífeyrissjóð (4%) og síðan er lífeyririnn skattlagður á nýjan leik þegar hann er greiddur út. Eins kom upp skattaleg mismunun hvað varðar ávöxtun launþegahluta lífeyrisiðgjaldsins þar sem tekinn er tekjuskattur af lífeyrisgreiðslunum á sama tíma og ávöxtun annars sparifjár er skattfrjáls. Hér er um óviðunandi ástand að ræða. Tvísköttun tekna af þessu tagi er óþolandi og sömuleiðis mismunun í skattlagningu fjármagnstekna með þeim hætti sem hér er bent á.
    Það skal áréttað að hér er eingöngu farið fram á breytta skattalega meðferð iðgjaldshluta launþega í lífeyrissjóði.
    Á 113. löggjafarþingi var samþykkt tillaga frá Guðmundi H. Garðarssyni svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að gera könnun á skattalegri meðferð lífeyrissparnaðar og undirbúa nauðsynlegar lagabreytingar til að slíkur sparnaður njóti ekki lakari kjara en annar sparnaður í landinu.``
    Í greinargerð með þingsályktunartillögu Guðmundar H. Garðarssonar er vakin athygli á margsköttun iðgjalda sjóðfélaga til lífeyrissjóðanna. Iðgjaldið er skattlagt sem tekjur þegar launþeginn vinnur til þeirra, í annað skiptið þegar lífeyrir er greiddur til sjóðfélaga og síðan má segja að þessar tekjur séu skattlagðar í þriðja sinn þegar þær valda skerðingu á tekjutryggingu frá Tryggingastofnun ríkisins.
    Mikið hefur um þetta mál verið rætt og ritað og vil ég vitna til þess sem sá flutningsmaður sem flutti þetta mál fyrst á Alþingi, Guðmundur H. Garðarsson, skrifaði í blaðagrein í mars 1991, með leyfi forseta. Þar segir hann m.a. um mikilvægi lífeyrissjóða:
    ,,Það er augljóst að við óbreyttar aðstæður grefur ríkisvaldið undan starfsemi þeirra lífeyrissjóða sem það hefur skyldað með lögum til aðildar að. Þessu verður að breyta. Lífeyrissjóðir eru grundvallarforsenda nútíma ellilífeyristryggingakerfis samhliða örorkutryggingum og maka- og barnalífeyristryggingum þar sem það á við. Í lýðfrjálsum þjóðfélögum eru lífeyrissjóðir jafnframt mikilvægasti peningasparnaðurinn í peninga- og fjármálakerfum viðkomandi þjóða. Þessi sparnaður er nýttur í þágu atvinnulífs og þess fólks sem myndar sjóðina, þ.e. sjóðfélaganna. Gott dæmi þess á Íslandi eru framlög lífeyrissjóðanna í þágu

húsnæðismála. Það er eigi ofsagt þótt sagt sé að nú standi lífeyrissjóðirnir svo til 100% undir fjárframlögum til húsnæðismála á Íslandi. Hlutverk sjóðanna í uppbyggingu atvinnulífsins er að verða stöðugt þýðingarmeira á Íslandi. Er það sambærilegt við það sem nú þekkist og á sér stað í háiðnvæddum þjóðfélögum, svo sem í Vestur-Evrópu, Norður-Ameríku og í Japan.
    Hlutverk Alþingis er að tryggja réttlæti. Aðförinni að sjóðfélögum lífeyrissjóðanna, lífeyrisþegum, verður að linna ef ekki á illa að fara fyrir viðkomandi aðilum og þjóðfélaginu í heild.``
    Þetta var tilvitnun í Morgunblaðsgrein frá því í mars 1991 sem Guðmundur H. Garðarsson, fyrrv. alþm., ritaði varðandi þetta mál.
    Virðulegur forseti. Með sama hætti hafa komið fram athugasemdir frá Samtökum aldraðra. Með leyfi forseta, vildi ég grípa niður í grein eftir Ingvar Hallgrímsson, sem, ef ég fer með rétt mál, er varaformaður Landssambands aldraðra. Þar segir hann m.a.:
    ,,Lífeyrissjóðirnir eru viðamesta sparnaðarform Íslendinga. Greiðendur eru nánast þeir einu sem standa undir sparnaði í þessu eyðslunnar samfélagi en eru samt grátt leiknir af landsfeðrunum, bókstaflega blóðmjólkaðir.
    Við greiðslu af launum í lífeyrissjóð eru greiðslurnar skattaðar eins og hver önnur laun. Mætti nú halda að menn væru lausir allra skattamála og ættu fé, þann sparnað sem eftir stæði. En það er nú eitthvað annað. Þegar menn eru orðnir aldraðir og fá þennan sparnað sinn, lífeyri, greiddan sér til lífsviðurværis er hann skattaður á nýjan leik.
    En hér láta landsfeðurnir ekki staðar numið. Hinum öldruðu er refsað fyrir sparnað sinn á þann veg að sparnaðurinn verður til þess að skerða stórlega eða jafnvel afnema ýmsar bætur almannatrygginga og er það í raun þriðja skattlagningin sem lífeyrisþegar verða að sæta vegna sparnaðar síns.``
    Enn fremur talar hann um sparnað og lífeyrissjóðinn. Þar er hann að vitna til þess sem Hrafn Magnússon, forstjóri Sambands almennra lífeyrissjóða, sagði á fundi sem hann hélt með félögum aldraðra:
    ,,Hann tók dæmi um einhleypan mann sem hættur er vinnu og fær eftirtaldar mánaðarlegar bætur:
    Frá lífeyrissjóði 25.300 kr., frá almannatryggingum 42.700 kr. eða samtals 68.000 kr. Að frádregnum sköttum fær hann útborgað 63.500 kr. Annar einstaklingur sem fær helmingi meira greitt úr lífeyrissjóði eða 50.600 kr., fær frá almannatryggingum 27.700 kr. eða samtals 78.300 kr. Að frádregnum sköttum og skerðingu á tekjutryggingu, sem er dulbúinn skattur, fær hann útborgað 69.500 kr. Þannig fær hinn síðarnefndi aðeins 6.000 kr. hærri nettólífeyri samtals frá lífeyrissjóði og almannatryggingum þótt greiðslur úr lífeyrissjóði hans séu 25.300 kr. hærri en hjá hinum fyrrnefnda
    Hinn mikli sparnaður hins síðarnefnda skilar sér ekki til baka. Sparnaður hans telst refsiverður og er nær allur tekinn upp í skatta.
    Hrafn Magnússon telur að svona tryggingakerfi gangi ekki og taki reyndar út yfir allan þjófabálk.``
    Þetta var tilvitnun í greinar Ingvars Hallgrímssonar í Morgunblaðinu frá 27. okt. 1993.
    Landssamband aldraðra hefur sent frá sér minnispunkta vegna þáltill. þeirrar sem hér er til umræðu. Með leyfi forseta, segja þeir m.a. um þetta mál:
    ,,Fyrir daga hins nýja skattgreiðslukerfis voru inngreiðslur launþega í lífeyrissjóði tekjuskattsfrjálsar. Mönnum hefur nú dottið í hug að taka það form upp að nýju en það er ótækt og allsendis óviðunandi af tveimur ástæðum.
    Í fyrsta lagi: Núverandi ellilífeyrisþegar greiða ekki lengur inngreiðslur, iðgjöld, til lífeyrissjóðs og yrði því engin breyting á þeirra högum þótt inngreiðslur yrðu skattfrjálsar. Tvísköttun sparifjár núverandi lífeyrisþega stæði óbreytt.
    Í öðru lagi: Með því að gera inngreiðslur, eða iðgjöld, í lífeyrissjóði skattfrjálsar næðist ekki það jafnræði í skattalegri meðferð vaxtahluta lífeyris eins og þáltill. gerir ráð fyrir þar sem ávöxtun alls annars sparifjár er skattfrjáls. Til þess að ná því jafnræði sem rætt er um í tillögunni er því nauðsynlegt að útgreiðsla lífeyrissjóðanna, þ.e. lífeyririnn sjálfur, sé skattfrjáls á sama hátt og önnur sparnaðarform í landinu.``
    Hér er, eins og tillagan segir til um, eingöngu átt við iðgjaldshlut launþega, þ.e. 4 / 10 hluta eða 40% af útborguðum lífeyrisgreiðslum.
    Þetta telja þeir nauðsynlegt þeir heiðursmenn í Landssambandi aldraðra að taka fram varðandi þetta mál. Og við flm. erum sammála þeim að því leytinu til að eins og málum er nú háttað með þessa tví- eða þrísköttun, sem margoft hefur verið rædd á Alþingi, er heldur að síga á ógæfuhlið hvað áhrærir lífeyrissjóðina. Menn sjá að það er eðlilegt að fara yfir í annað form sparnaðar, t.d. með skuldabréfakaupum og öðru því um líku, og spyrja eðlilega: Er það sjálfsagt og eðlilegt í lýðfrjálsu landi að við séum skikkaðir til þess að greiða í einhverja ákveðna tiltekna lífeyrissjóði þegar málum er þannig komið, eins og ég gat um áðan, að nánast er um þrísköttun að ræða.
    Ég trúi því, virðulegur forseti, að þetta mál fái þá umfjöllun sem þarf til þess að skattálögum á hina öldruðu linni eins og greinargerðin gefur tilefni til, svo og með þeim tilvitnunum sem ég hef verið með í blaðaskrif og einkum skrif þess sem ýtti þessu máli úr vör, Guðmundar H. Garðarssonar, og var það vel að þetta mál komst inn í sali Alþingis.

    Miðað við það sem almennt gengur og gerist í landinu hvað áhrærir sparifjáreign og vaxtamál er nánast óeðlilegt að Alþingi skuli láta þetta mál við svo búið vera miklu lengur en orðið er.
    Virðulegi forseti. Ég legg þetta mál fram til 2. umr. og legg til að það fari til efh.- og viðskn.