Fjáraukalög 1993

104. fundur
Miðvikudaginn 09. mars 1994, kl. 15:22:16 (4893)


[15:22]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Fyrir skömmu var fundur í fjmrn. með fulltrúum Alþýðusambandsins þar sem farið var yfir þessi mál. Það kann vel að vera að menn séu ekki nákvæmlega sammála um það hvort staðið hafi verið við samningana eða ekki. Ég hef margoft sagt að ég tel að svo hafi verið. Ég hef einnig látið það koma fram margoft í mínu máli að það hefur orðið töf á vissum framkvæmdum og þá er það yfirlýst að því verður mætt með þeim hætti að framkvæmdirnar færast til, færast yfir á þetta ár, af því að ég held að það sé óskynsamlegt sem stundum heyrist að taka fjármuni til bygginga, til samgöngumannvirkja, sem geta komið að gagni og setja þá í eitthvað sem skapar vinnu um tímabundið skeið. Þannig megum við ekki hugsa. Og ég vil nú bara segja að ég held að það hafi á margan hátt verið heppilegt að það fluttist af sl. ári yfir á þetta ár því ég býst við að þetta ár verði erfiðara hvað atvinnuleysi snertir.
    Þetta vil ég að komi fram. Ég vil einnig að það komi fram að það var rætt ítarlega um það hvernig átti að skilja þetta samkomulag. Þá var tekið tillit til nokkurra þátta sem ég ætla ekki að tala um hér sérstaklega.
    Það sem ég sagði opinberlega og hv. þm. eru að gera hér athugasemdir við var það að ég gerði ekki kröfu til þess að skrifa handrit verkalýðsforingjanna þegar þeir stigu á fjalirnar í leikritum Alþb. Ég orðaði þetta svona og ég sagði það m.a. vegna þess að forseti Alþýðusambandsins sagði það mjög skýrlega í útvarpi þegar hann var spurður um tillöguflutning Alþb. að hann hefði talað þar sem alþýðubandalagsmaður. Og ég var spurður af fréttamanninum hvort ég hefði athugasemd að gera um það og ég var að svara því með mínum hætti að ég gerði það að sjálfsögðu ekki vegna þess að forseti Alþýðusambandsins tók það sérstaklega fram að hann talaði þar sem alþýðubandalagsmaður.