Þingsköp Alþingis

104. fundur
Miðvikudaginn 09. mars 1994, kl. 16:00:22 (4902)


[16:00]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þegar ég sagði að þetta væri ekki mín tillaga þá átti ég við upphaflegu tillöguna sem fram kom. Það er hárrétt hjá hv. þm. að ég flutti að sjálfsögðu það frv. inn í þingið en mín upphaflega tillaga kom fram í fjárlagafrv. og þar var gert ráð fyrir því að leggja 0,5% gjald á launamassann sem er um 200 milljarðar. Það verður hins vegar að rifja það upp að í kjarasamningum um vorið hafði verið gengist inn á það að lækka virðisaukaskattinn um rúma 3 milljarða á ársgrundvelli en jafnframt var það tekið fram í fullu samkomulagi við þá aðila að það yrði að ná í tekjur til þess að vega að einhverju leyti upp á móti þessu tekjutapi. Sú var ástæðan, eins og reyndar hv. þm. gat um. Þetta var meginskýringin á því hvernig þetta mál æxlaðist.
    Ég vil hins vegar að lokum segja að það kann að vera að það sé skynsamlegt, einmitt á tímum eins og við lifum nú, að grípa til þess ráðs að hreyfa til skattalögin. Þó að markmiðið hljóti að vera að hafa sem mestan stöðugleika í tekjumálum ríkisins og í sköttum og fólk eigi rétt á því að vita hvernig skattar séu frá ári til árs, þá kann að vera sá tími að það þurfi að gera undanþágur á þessu ef við erum að sækjast eftir enn eftirsóknarverðari markmiðum. Það varð niðurstaðan. Stöðugleiki á vinnumarkaði, lítil sem engin verðbólga og betri afkoma fyrir þjóðarbúið. Það var það sem menn sögðu, því viljum við ná fram, það er markmiðið, þess vegna skulum við víkja til skattalögum til þess að ná fram þessu samkomulagi jafnvel þó að það hafi verið gert með tiltölulega litlum fyrirvara en sá fyrirvari var reyndar rúmir sex mánuðir.