Endurskoðun laga um síldarútvegsnefnd

105. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 11:36:06 (4920)


[11:36]
     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Við eigum það sameiginlegt ég og hæstv. umhvrh. að við komum frá Englandi með mjög ákveðnar skoðanir á fornri tíð. En það hefur ýmislegt breyst síðan og líka í skoðunum okkar hæstv. umhvrh. sem betur fer því ekki byði ég í okkur tvo, okkur hæstv. umhvrh., ef við á 20 árum hefðum enn þá nákvæmlega sömu skoðanir, ekkert breyst nema allt í kringum okkur. Ég byði ekki í það háttalag frjálsborinna manna, svo ég noti orðalag hæstv. umhvrh., ef við værum með sömu skoðanir og við vorum með fyrir 20 árum. En ég man ekki eftir því sérstaklega að ég hafi haft mjög stríðar skoðanir um síldarútvegsnefnd þegar ég kom frá Bretlandi, enda man ég ekki eftir því að við höfum mikið verið að ræða um málefni síldarútvegsnefndar úti í Bretlandi en það hefur kannski verið þannig aðeins norðar í Englandi þar sem hæstv. umhvrh. var að þar hafi menn verið að ræða um framtíð síldarútvegsnefndar.
    Aðalatriði þessa máls er nákvæmlega það sem ég sagði hér áðan. Um skipulag þessara mála er afskaplega góð sátt. Ég nefndi að vísu þá undantekningu sem fælist í þessari þáltill. en að öðru leyti væri um þetta mál afar góð sátt. Og ég vakti á því athygli að þegar eftir því hefur verið leitað meðal framleiðenda, útflytjenda, sjómanna og útvegsmanna, þá er niðurstaðan alltaf sú sama. Það er þetta kerfi, það er þetta skipulag, sem er réttara orðafar, þetta skipulag útflutningsmála sem menn vilja viðhalda í frjálsum samningum sín á milli. Það er þess vegna ekki einokun þegar þeir aðilar sem eiga að búa við tiltekið skipulag komast að tiltekinni niðurstöðu í óþvinguðum samningum sín á milli, þá er ekki verið að tala um einokun. Það hefur líka verið vakin á því athygli og það kom rækilega fram í umræðum hér í nóvember 1992 að það er nákvæmlega þetta kerfi og þetta skipulag sem menn vilja hafa og þess vegna er engin ástæða til að vera að taka það upp og breyta því.