Heilbrigðisátak á ári fjölskyldunnar

105. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 12:21:58 (4936)


[12:21]
     Flm. (Guðni Ágústsson) :
    Hæstv. forseti. Ég hef ásamt hv. þingmönnum Finni Ingólfssyni og Ingibjörgu Pálmadóttur lagt fram till. til þál. svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að beita sér fyrir sérstöku heilbrigðisátaki í samráði við heilsugæslustöðvar, sveitarstjórnir og íþrótta- og ungmennafélög um allt land í tilefni af ári fjölskyldunnar.``
    Í greinargerð segir svo:
    ,,Flutningsmenn hreyfa hér þeirri hugmynd að á ári fjölskyldunnar verði gert sérstakt heilbrigðisátak og einkum hugað að ýmsum innri málefnum fjölskyldunnar, svo sem heilsufari, frítíma og tómstundum, aðbúnaði barna og ungmenna svo eitthvað sé nefnt.
    Gert er ráð fyrir að ríkisstjórnin beiti sér fyrir myndun starfshópa með fulltrúum heilsugæslustöðva, sveitarstjórna, íþrótta- og ungmennafélaga um allt land sem skipuleggi og leiði átakið. Þeim sem taka þátt í heilsuátakinu verði jafnframt boðið upp á læknisskoðun á heilsugæslustöð og hljóti fræðslu um mikilvægi hreyfingar og útivistar, kjörþyngd og hollt mataræði. Eðlilegt er að vinnuhóparnir gegni því hlutverki að skipuleggja og hvetja fjölskyldurnar til samveru og tómstundaiðju á íþrótta- og útivistarsvæðum, að ganga, skokka, hlaupa, synda o.s.frv. Einn liður af hálfu sveitarfélaganna gæti t.d. verið að allir fengju frítt í sundlaugar landsins á sunnudögum`` --- á þessu ári fjölskyldunnar. --- ,,Slíkur hvati mundi skila sér í stóraukinni aðsókn að sundlaugum á næstu missirum. Vellíðan hvers manns fer mjög eftir líkamlegu atgervi og heilsufari. Forvarnarstarf er verkefni sem heilbrigðiskerfið þarf að sinna í ríkari mæli. Fólk, sem temur sér þá reglu frá ungum aldri að stunda einhverja íþrótt, er í miklu minni áhættu en hinn og lifir jafnframt reglusamara lífi.
    Staðreyndin er sú að þrátt fyrir langlífi Íslendinga deyja margir eða verða fyrir alvarlegum áföllum í blóma lífsins vegna menningarsjúkdóma nútímans sem rekja má til hreyfingarleysis og tóbaksreykinga.`` --- Svo ekki sé nú talað um þá vá sem margt ungt fólk stendur frammi fyrir og hefur tamið sér, áfengi og eiturlyf. --- ,,Ríkisvaldið má kosta nokkru til í svona átaki því að sparnaðurinn kemur til baka í færri aðgerðum á sjúkrahúsum og betra heilsufari. En þessi tillaga gengur ekki síst út á það að með samstilltu átaki verði fjölskyldan sameinuð í leik og starfi.``
    Flm. er þeirrar skoðunar að svona tilefni, ár fjölskyldunnar, eigi einmitt að nýta til að skapa samstöðu á milli kynslóða og taka upp breytta lifnaðarhætti sem stuðla að heilbrigði og hamingju fólksins í landinu.
    Ég ætla ekki við þessa umræðu að hafa þessi orð fleiri, hæstv. forseti, en legg til að málinu verði vísað til síðari umr. og heilbr.- og trn.