Efling náttúrufræðikennslu í grunnskólum

105. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 13:35:41 (4954)


[13:35]
     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Málið er ákaflega einfalt þó hæstv. umhvrh. reyni að þyrla upp moldviðri. Það segir í tillögugreininni að það eigi að fela menntmrh. að efla náttúrufræðikennslu í 4.--6. bekk grunnskóla. Auðvitað heyra þessi málefni undir menntmrh., þau geta ekki heyrt undir neinn annan. ( Umhvrh.: Lestu . . . ) Hins vegar er það svo sjálfsagt að það ráðuneyti leiti álits og umsagnar annarra ráðuneyti sem málið kann að varða. Það á ekki að þurfa að hafa um það deilur hér á Alþingi nema það sé vegna þess eins og ég var að giska á að það væru samstarfsörðugleikar á milli umhvrh. og menntmrn. Það er eina skynsamlega skýringin á því hvers vegna hæstv. umhvrh. er svona hvumpinn og vill fá inn í textann að það eigi að hafa samráð við hann. Af því að hann treystir ekki menntmrh. ( Gripið fram í: Þetta er níð . . .  ) til að hafa nauðsynleg samráð og eðlilegt við sig í þessu máli.