Framleiðsla og sala á búvörum

106. fundur
Fimmtudaginn 10. mars 1994, kl. 19:00:19 (5015)


[19:00]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég vil minna hv. 2. þm. Suðurl., Jón Helgason, á það að sú ríkisstjórn sem var á undan þessari var í miðjum klíðum varðandi GATT-samninga og sömuleiðis samninga um Evrópska efnahagssvæðið. Ég man ekki eftir því að það álitaefni sem við erum nú að tala um hafi komið mjög upp á borðið fyrir síðustu kosningar. Ég minnist þess sérstaklega úr mínu kjördæmi, Norðurlandskjördæmi eystra, að þegar hv. þm. Tómas Ingi Olrich kom inn á þessa sálma þá þótti það vera af ýmsum óþarft mál. (Gripið fram í.) Ég sé að hv. þm. Jóhannes Geir talar um að Tómas Ingi hafi ekki nefnt cohesion-listann, ég minnist þess ekki að þessi hv. þm. hafi heldur gert það. Það voru því ýmsir sem gleymdu grænmetisbændum þá um stundir.