Forvarnir gegn bjórdrykkju

108. fundur
Mánudaginn 14. mars 1994, kl. 15:41:26 (5046)


[15:41]
     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir þessa fyrirspurn sem er vissulega þörf. Öll höfum við áhyggjur af áfengisneyslu unglinga og ungmenna en ég vil leyfa mér að benda á eina leið til þess að auka forvarnastarfið og gera það enn virkara en það er í dag og það er sú leið að veita aukið fjármagn til íþróttahreyfingarinnar því að þar fer fram

hið mesta og besta forvarnastarf sem til er gegn neyslu vímuefni hvaða nafni sem ber að nefna.
    Þetta vildi ég að kæmi fram. En mig langar einnig að bæta við einni spurningu til hæstv. ráðherra. Ég hlustaði á þær tölur sem hann fór með áðan og kannast reyndar við þær flestar. Ég hef aldrei skilið það hvers vegna ÁTVR tekur saman sölutölur á grundvelli þess að neyslan sé frá aldrinum 15 ára og upp úr. Þar sem menn þurfa að vera orðnir tvítugir til að mega kaupa áfengi þá hef ég aldrei skilið þessa úttekt þar sem gert er ráð fyrir 5 ára bili undir lögaldri í neyslu og vildi gjarnan, ef ráðherra hefur þau svör hvers vegna er svona staðið að upplýsingaöfluninni, fá það fram.