Hæstiréttur Íslands

109. fundur
Þriðjudaginn 15. mars 1994, kl. 14:07:00 (5063)


[14:07]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég hef ekki miklu við að bæta í þessari umræðu. Ég tel að það sem fyrst og fremst skiptir máli hafi komið fram í máli hv. formanns allshn. og að hún hafi gert mjög góða grein fyrir þeim breytingum sem þessi þrjú mál tóku í meðförum nefndarinnar, en þær breytingar eru allar settar fram eftir ítarlega skoðun og að fengnum umsögnum og ábendingum. En þó er ástæða að geta þess að í upphafi ársins var haldin ráðstefna um þessi frumvörp hjá Lögmannafélagi og tveir fulltrúar allshn. sóttu

þá ráðstefnu. Hún var mjög fróðleg og ég held að það hafi verið til hjálpar við vinnslu málsins að fá þær ábendingar sem þar komu fram og þann rökstuðning sem fylgdi enda var tekið tillit til einnar mjög veigamikillar ábendingar sem ég held að hafi átt nokkurn rétt á sér en það er varðandi áfrýjunarfjárhæðina. Það er nokkuð stórt stökk að fara frá 150 þús. í 500 þús. þegar verið er að athuga hvaða mál eiga sjálfkrafa rétt á að vera tekin fyrir ef áfrýjað er til Hæstaréttar, en ég vil einnig taka undir með hv. síðasta ræðumanni og frsm. nefndarinnar að vissulega segir áfrýjunarfjárhæðin ekki allt ein og sér. Það geta verið mikilsverðir hagsmunir sem varða e.t.v. aðeins lága upphæð og til eru dæmi um mál sem hafa fengið meðferð fyrir Hæstarétti sem hafa e.t.v ekki varðað nema eina krónu en mikilvæga almannahagsmuni. Og þetta á ekki síður við einkahagsmuni eða einstaklingshagsmuni. Ég vil vekja athygli á því að 500 þús. kr. geta verið býsna stór fjárhæð fyrir einstakling þótt stór fyrirtæki muni ekki mikið um slíka upphæð þannig að hér held ég að hafi verið rétt að gera ákveðna breytingu eða réttara sagt að fara varlega í sakirnar. Eftir sem áður, og það ber að ítreka, þá er að sjálfsögðu mögulegt að fá tekin upp mál ef rökstuðningur fylgir og Hæstiréttur getur fallist á að taka mál þótt áfrýjunarfjárhæð sé lægri eða upphæð málsins sem áfrýjað er vegna.
    Hér held ég að hafi verið gerð breyting sem rök voru fyrir að þyrfti að gera. Jafnframt vona ég að sú breyting sem verður nú á óformlegri deildaskiptingu innan Hæstaréttar verði til góðs. Það hefur komið upp á liðnum árum ákveðið misræmi milli deilda í Hæstarétti og sú breyting sem allshn. flytur tillögu um er til þess ætluð að reyna að draga úr hættunni á því að slíkt muni gerast því það skapar engum réttaröryggi ef slíkt kemur upp. Það er jafnframt gert ráð fyrir að þeir sem hafa lengstan starfsaldur innan Hæstaréttar fjalli um viðamestu og flóknustu málin þar og ég held að það eigi að geta merkt að eins vel sé vandað til mála og hægt er. En vissulega var allshn. nokkur vandi á höndum að finna lausn á þessu máli og þeim ábendingum sem komu að vera fjölga annars vegar og hins vegar að reyna að koma ákveðinni festu á þá deildaskiptingu sem er.
    Ég vona að þetta nýmæli, sem mun vera nýmæli ekki bara á Íslandi heldur einnig í nágrannalöndum, reynist vel og henti vel við þær aðstæður sem eru á Íslandi og ég hef þá trú að svo muni verða. Að svo mæltu vona ég að þessi þrjú frv. fái greiða ferð hér í gegnum þingið þar sem ég tel að hér sé um mikilsverða almanna- og einkahagsmuni að ræða og lögin geti stytt þann málahala sem nú er fyrir hendi og tryggt málsmeðferð eins vandaða og hægt er fyrir Hæstarétti.