Fjárskortur sjúkrastofnana 1994

110. fundur
Miðvikudaginn 16. mars 1994, kl. 13:54:59 (5188)


[13:54]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég skora á hæstv. heilbr.- og trmrh. að kynna sér fjárhagsvanda Ríkisspítalanna. Samkvæmt blaðafréttum hefur hann möguleika til þess og sérstakan aðgang að formanni stjórnarnefndar Ríkisspítalanna. Ég tel að þar sé um að ræða margfalt meiri vanda en hefur verið á undanförnum árum. Það er ekki hægt að bera því við að vandinn sé svipaður og verið hefur á undanförnum árum.
    Okkur þingmönnum hefur hins vegar borist frá landlæknisembættinu listi yfir aðgerðir sem hugsanlega eigi að grípa til í heilbrigðismálum. Það er kannski það sem menn eru með hugmyndir um þar sem talað er um að fækka hjartaaðgerðum um 15%, láta reykingafólk borga fyrir kransæðaaðgerðir, fækka mjaðmaliðaaðgerðum, minnka framlög til skólaheilsugæslu, hætta rekstri vinnuheimilis fyrir ólæknandi alkóhólista, láta fólk sjálft borga ungbarnavernd, láta greiða fast komugjald fyrir skammtímalegu, láta það borga mat á sjúkrastofnunum, hætta við áform um framlög til byggingar barnaspítala, leggja niður réttargeðdeild á Sogni, láta konur greiða að fullu leit að legháls- og brjóstakrabbameini, láta konur greiða fullt gjald fyrir glasafrjóvgun. Þetta eru þær tillögur sem hv. þingmönnum hafa borist og við erum beðnir um af landlæknisembættinu að taka afstöðu til. Kannski eru svörin þarna, hæstv. ráðherra.