Rannsóknarráð Íslands

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 11:07:17 (5226)


[11:07]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni eitt af stærstu málum þingsins að mínu mati, þ.e. lög um rannsóknir og tækniþróun hér á land og hefði auðvitað verið ástæða til að taka alllangan tíma í að ræða þetta mál. Ég neyðist til að gagnrýna hversu seint frv. er fram komið miðað við það að á síðasta þingi lágu fyrir þau drög að stefnumótun sem eru undirstaða þessa frv., en þau drög komu hér fram í skýrsluformi frá menntmrh. sem svar við skýrslubeiðni frá mér og öðrum þingmönnum Alþb. á því þingi.
    Ríkisstjórnin samþykkti hins vegar þær tillögur menntmrh. sem ég hygg að hafi verið tilbúnar í febrúar í fyrra, febrúar 1993 eða svo, voru ekki samþykktar í ríkisstjórninni fyrr en að mig minnir í september 1993. Þannig að bersýnilegt er að það tók langan tíma að koma þessu máli áleiðis en enn þá lengri tíma virðist hafa tekið að koma saman frv. um þessi efni. Hæstv. ráðherra greindi frá því í lok ræðu sinnar áðan að það hefði verið haft mjög ítarlegt samráð við vísindasamfélagið á Íslandi um málið og það er rétt. Ég kannast við það og veit það. Hitt er hins vegar ljóst að frv. í þeim búningi sem það er hér er ekki að öllu leyti í samræmi við þær niðurstöður sem ýmsir þeir sem tóku þátt í þessu samráði af hálfu hins íslenska vísindasamfélags bjuggust við að sjá. Á frv. hafa verið gerðar allt til síðustu stundar sýnist mér talsvert miklar breytingar frá því sem menn gerðu ráð fyrir.
    Það er svo sérstakt umhugsunarefni, virðulegi forseti, að núv. ríkisstjórn tók við stefnumótun í vísinda- og rannsóknarmálum frá fyrri ríkisstjórn sem var afgreidd í henni árið 1990 og tekin fyrir hér á Alþingi 1991. Meginþráðurinn í þeirri stefnumótun var aukið fjármagn til vísinda- og rannsóknastarfsemi sem m.a. birtist í fjárlögum ársins 1991. Þegar núv. ríkisstjórn tók við kaus hún a.m.k. á sviði menntamála og ég hygg á fleiri sviðum að ýta til hliðar allri þeirri stefnumótun sem unnin hafði verið af fagaðilum í aðdraganda stjórnarskiptanna. Það var flokkspólitísk ákvörðun sem þá var tekin af Sjálfstfl. að hafna þeirri stefnumótun sem unnin hafði verið af fyrri ríkisstjórn, en þar áttu sæti eins og kunnugt er fulltrúar Alþb., Alþfl., Framsfl. og Borgaraflokks.
    Það er í raun og veru dálítið umhugsunarefni fyrir vísindamenn á Íslandi og þá sem starfa að rannsóknum að hver einasta ný ríkisstjórn skuli ævinlega byrja á því að finna upp hjólið, svo að segja. Að menn skuli aldrei geta tekið þá stefnumótun og þá faglegu vinnu sem unnin hefur verið með skynsamlegum hætti og flutt hana inn í nýja ríkisstjórn á eðlilegan hátt. (Gripið fram í.) Ég vil hins vegar segja varðandi þessa tillögu sem hér er uppi að ég tel að hún sé að mörgu leyti skynsamleg og ég er þeirrar skoðunar að það sé að mörgu leyti hægt að nýta þá vinnu sem unnin hefur verið á undanförnum síðustu missirum áfram eftir stjórnarskipti. Ég tel með öðrum orðum að menn eigi ekki að sýna þann flokkspólitíska nánasarskap og þröngsýni að þurfa ævinlega að henda öllu því sem vel er gert af fyrri stjórnum þegar þeir

taka við verkum í Stjórnarráði Íslands.
    Ég vil síðan, virðulegi forseti, í tengslum við málið segja það almennt að ég tel að sú hugsun, stefnumótunarhugsun, að sameina í einum lögum grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir, sé út af fyrir sig skynsamleg. Ég tel að í sjálfu sér sé eðlilegt að menn staldri við það. Ég verð hins vegar að segja það sem mína skoðun að það er vandmeðfarið í framkvæmd vegna þess að það er auðvitað alltaf hætta á því að grunnrannsóknirnar séu bornar ofurliði af hinni hörðu frekju augnabliksins til fjár á hverjum tíma. Þess vegna verður að útbúa lög um Vísinda- og tækniráð ef þau verða sett þannig að það sé tryggt að grunnrannsóknirnar og hagsmunir þeirra verði af þörfum augnabliksins, ekki síst á niðurskurðartímum, aldrei bornar ofurliði.
    Þetta vil ég segja almennt um frv. og þess vegna finnst mér að það þurfi að skoða mjög vandlega í nefnd hvort grunnrannsóknirnar eru nægilega vel tryggðar og hlutur þeirra í því stjórnkerfi sem hér er verið að tala um.
    Í öðru lagi varðandi almenn atriði kringum frv. vil ég segja að ég tel að það hefði þurft að felast í því stefnumörkun um fjármögnun rannsóknanna, fjármögnun vísinda- og tækniþróunar hér á komandi árum, skýrari stefnumótun en í frv. felst eins og það er.
    Í þriðja lagi verð ég að segja að ég tel einstök atriði í frv., sérstaklega stjórnunarþátt þess, þ.e. 3. gr., ótrúlega flækju, alveg ótrúlega flækju og ég hef aldrei séð svona hugmyndir að stjórn nokkurrar stofnunar í frv. hér í þinginu fyrr eða síðar. Þá er ég ekki að segja að þetta sé endilega ómögulegt en ég held að það taki dálítinn tíma allavega fyrir einhverja að átta sig á því hvernig þetta er hugsað.
    Ég vil einnig, áður en ég fer yfir einstök atriði, nefna það að ég vil boða brtt. af minni hálfu við þetta frv. sem gengur út á að það verði unnt fyrir fyrirtæki að draga frá fjármuni sem þau verja til rannsókna- og þróunarstarfsemi þannig að það verði ekki bara dregið frá sem venjulegur kostnaður heldur verði dregið frá í rekstrarkostnaði fyrirtækja eða jafnvel beint frá sköttum, fjármunir sem þau hyggjast leggja til rannsókna- og þróunarstarfsemi umfram hinn beina kostnað sem liggur í verkefninu hverju sinni.
    Ég held að það sé alveg nauðsynlegt fyrir Íslendinga, ef við ætlum mér liggur við að segja að lifa af sem sjálfstæð þjóð hér inn í næstu ár og áratugi, að þá verðum við að stórauka framlög okkar til rannsókna- og þróunarstarfsemi og til menntunar hvers konar. Og þó að bætt hafi verið við nokkrum fjármunum, t.d. 8 millj. kr. á síðasta ári, í Rannsóknanámssjóð, þá hrekkur það skammt á móti þeim mikla niðurskurði sem hefur orðið til menntamála á síðasta ári og síðustu árum og mun að sjálfsögðu koma okkur í koll, þjóðinni, í versnandi lífskjörum þegar fram í sækir ef menn taka ekki í taumana tafarlaust.
    Ég ætla næst, virðulegi forseti, að víkja að einstökum greinum og þá fyrst að 3. gr. Þar er gert ráð fyrir því að það verði níu einstaklingar í Vísinda- og tækniráði Íslands. Það verði þrír frá skólum á háskólastigi, þrír að tillögum Rannsóknastofnunar atvinnuveganna og þrír aðrir aðilar.
    Ég ætla fyrst að segja um þessa grein sjálfa. Hér stendur í c-lið: ,,Þrjá sem tilnefndir eru af ríkisstjórn . . .  ``
    Þetta hefur aldrei staðið í lögum á Íslandi áður. Ríkisstjórn er ekki til sem fjölskipað stjórnvald. Ríkisstjórn í þessum texta er menntmrh. Menntmrh. er ríkisstjórnin í mennta- og rannsóknamálum. Þess vegna getur þessi texti ekki staðið svona.
    Í öðru lagi stendur í þessari grein, með leyfi forseta:
    ,,Aðilar er tilnefna menn til setu í Vísinda- og tækniráði Íslands, samkvæmt liðum a) og b) hér að ofan, skulu hver tilnefna tiltekinn fjölda einstaklinga samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.``
    Þetta verður að vera nákvæmar í lagatexta heldur en þarna er gert ráð fyrir.
    Í greinargerðartextanum er mjög sérkennilega farið í þetta mál, verð ég að segja, eins og fram kemur í greinargerðinni um 3. gr. þar sem segir að í fyrsta lagi eigi að tilnefna tíu aðila frá háskólum og slíkum stofnunum, tíu aðila. Menntmrh. velur svo þrjá af þessum tíu í stjórnina, alveg án þess að það séu settar um það neinar sérstakar reglur. Þó er allra kostulegast að þegar á að velja einn af þessum níu þá eru það aðilar sem eru fulltrúar Þjóðarbókhlöðu, Þjóðskjalasafns, Stofnunar Árna Magnússonar, Þjóðminjasafns og Listasafns Íslands. Þessir aðilar eiga að velja einn af þessum níu í þennan níu manna hóp. Og hvernig á það að gerast? Það á að gerast á fundi með menntmrh., eins og stendur hér í greinargerðinni.
    Þetta er ekki hægt að búa stjórn nokkurrar stofnunar, það gengur ekki neitt. Ég held að það sé líka nauðsynlegt að átta sig á orðalaginu á bls. 11 í grg. frv., síðustu málsgrein um 3. gr., þar sem stendur:
    ,,Tilnefning fleiri einstaklinga en geta átt sæti í ráðinu gefur menntamálaráðherra svigrúm til þess að skipa í ráðið þannig að sem flest sjónarmið eigi þar málsvara.`` --- Hvaða sjónarmið? Ekki eru það flokkspólitísk sjónarmið eða hvað? Nei. Eru það sjónarmið úr rannsóknasamfélaginu eða hvað? Kannski. En það þarf að skýra nánar.
    Síðan segir áfram, með leyfi forseta, um 3. gr.: ,,Skýrt er tekið fram að þeir sem taka sæti í Vísinda- og tækniráði Íslands eru ekki sérstakir fulltrúar þeirra sem hafa tilnefnt þá.`` --- Hvar er það tekið fram? Það er hvergi tekið fram. Það er ekki tekið fram í greininni eins og hún lítur hér út. --- ,,Jafnframt er sú skylda lögð á menntamálaráðherra að gæta þess við val á meðlimum að jafnvægi sé á milli vísinda og tækni.`` --- Hvar er það tekið fram? Það er hvergi tekið fram. Þannig að ég sé ekki betur en að greinargerðin eigi við grein sem ekki er lengur í frv. Mér sýnist að fljótaskriftin á pappírnum, svo ótrúlegt sem það er miðað við hvað þetta kemur ofboðslega seint hér inn, sé þannig að menn hafi verið að semja frv.

til síðustu stundar og gleymt að breyta greinargerðinni jafnóðum og þeir breyttu lagafrv. Ég sé ekki betur en það sé þannig. ( KÁ: Þetta er bara eins og í búvörlögunum.) Eins og í búvörulögunum segir hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir sem hefur reynslu á öllu þessu litla sviði, alveg frá menntun og yfir í búvörur.
    Ég verð að segja alveg eins og er, hæstv. forseti, ég tel þetta ekki ganga. Það þarf að útskýra þessa grein miklu betur.
    Í öðru lagi vil ég síðan gera sérstaka athugasemd við fjárveitingagreinarnar og þó kannski í fyrsta lagi við 9. gr. sem er um Vísindasjóð. Þar segir í greinargerðinni, með leyfi forseta: ,,Í undirbúningi er að styrkja þennan tekjustofn og auka þannig ráðstöfunarfé sjóðsins`` --- þ.e. Vísindasjóðs --- ,,án þess að útgjöld ríkissjóðs aukist að sama skapi.``
    Þetta á að gera hvernig? Með því að breyta reglum um arðgreiðslur Seðlabankans og reglum um arðsjóð Seðlabankans. Hvað þýðir það ef reglum um arðsjóð Seðlabankans er breytt? Það þýðir lægri skatttekjur ríkissjóðs. Það er augljóslega verið að tala um, en reyna að fara í kringum það og án þess að ræða það við fjmrh., að gert er ráð fyrir að auka greiðslur úr ríkissjóði ef þetta fer svona. Þetta er óljóst, þetta er óskýrt og ég spyr: Hvað þýðir þetta í raun og veru?
    Síðan vil ég nefna sérstaklega Bygginga- og tækjasjóðinn en hann á að yfirtaka Byggingasjóð rannsóknastarfsemi í þágu atvinnuveganna. Hvaða peninga hefur hann haft? Hann hefur haft einkaleyfisgjald. Um það mál hefur verið rætt í þessari virðulegu stofnun einmitt í vetur um að fella niður einkaleyfisgjaldið. Ég bendi hér á frv. sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir flytur ásamt tveimur öðrum þingmönnum um að fella niður einkaleyfisgjaldið af augljósum ástæðum miðað við þær aðstæður sem nú eru í þessum happdrættismálum landsmanna. Ef við skoðum aðeins hvað um þetta er sagt í greinargerðinni, hæstv. forseti, þá er það mjög skrýtið. Það er í raun og veru annars vegar sagt: Sjóðurinn á að fá einkaleyfisgjaldið. Hins vegar er sagt: Það er auðvitað spurning hvort það er sanngjarnt að Happdrætti Háskólans sé að borga þetta gjald. Þannig að aftur kemur það fram í sambandi við þessa grein að það er eins og greinargerðin hefi verið samin á öðrum tíma eða kannski í öðru húsi en frv. sjálft.
    Ég held sem sagt að þetta þurfi að skýra aðeins betur og mér finnst vera alveg ótrúlega mikil fljótaskrift á þessu af hálfu hæstv. menntmrh.
    Þá vil ég einnig leyfa mér, virðulegi forseti, þar sem það saxast nokkuð á tímann, að spyrja um það hvað er gert ráð fyrir að verði um núverandi starfsmenn Rannsóknaráðs og Vísindasjóðs. Hvernig er hugsunin að fara í það? Í frv. er gert ráð fyrir því að það taki gildi 1. júlí. Núna er 17. mars. Frv. verður tæplega að lögum fyrr en eftir þó nokkurn tíma þannig að það er bersýnilegt að þessi gildistökutími er nokkuð knappur, m.a. með tilliti til starfsfólksins. Ég hlýt að spyrja: Hvað hyggst ráðherrann gera og hvernig hyggst hann taka á málum starfsfólksins?
    Í greinargerð Fjárlaga- og hagsýslustofnunar kemur fram að það er í raun ekki gert ráð fyrir neinum viðbótarútgjöldum vegna þessa frv. Það eru engir auknir fjármunir til rannsókna samkvæmt þessu frv. að mati Fjárlaga- og hagsýslustofnunar og er hún nú vön að finna það sem lítið er þannig að það virðist ekki vera neitt sem á að fara til aukningar á þessum framlögum.
    Að þessum töluðum orðum, með tilliti til þess knappa tíma sem við höfum, þá vil ég ljúka máli mínu með þessu, virðulegi forseti: Frv. er seint fram komið og það verður erfitt að ná á því málefnalegri meðferð á þeim stutta tíma sem eftir er af þinginu. Ríkisstjórnin hefur skorið stórkostlega niður fjármagn til menntamála á undanförnum árum. Það er ekki gert ráð fyrir því samkvæmt þessu frv. að bæta þar neinu við. Í frv. eru flókin, illskiljanleg ákvæði um stjórn verkefnisins og fjármögnun einstakra stofnana. Það er ekkert tekið á málum starfsmanna sem vinna hjá Vísindasjóði eða Rannsóknasjóði. Loks er það þannig að mér finnst að frá hlut grunnrannsóknanna þyrfti að ganga miklu betur heldur en gert er í frv. eins og það liggur hér fyrir.
    Þar sem ég á sæti í hv. menntmn. á ég kost á því að fjalla nánar um málið, hæstv. forseti, og mun þá láta máli mínu lokið að sinni. Ég hef komið á framfæri nokkrum athugasemdum en bendi á að síðustu daga hefur snjóað hér inn frv. frá hæstv. menntmrh. Við sem erum í menntmn. og þurfum að setja okkur inn í þau mál höfum fengið þau í bunkum alveg á síðustu sólarhringum. Okkur hefur ekki gefist mikið færi á því að fara yfir þau mál. Mér er sem ég sæi t.d. að Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu hefði unað því að menn hefðu tekið fyrir mál með þeim hraða sem stjórnarandstæðingar ætla að una hér virðist mér í dag. Það er slæmt vegna þess að umræðan verður þá kannski ekki eins góð og hún hefði ella orðið. Þau vandamál sem eru í þessu frv. liggja hins vegar í augum uppi, en ég vona að ég hafi tínt þau til og vona að seinagangurinn og handarbakavinnubrögðin við frágang á frv. verði ekki til þess að spilla mjög verulega fyrir vísindastarfsemi og þróunarverkefnum á Íslandi í framtíðinni.