Rannsóknarráð Íslands

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 11:30:54 (5229)


[11:30]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er hárrétt til getið hjá hv. þm. Svavari Gestssyni að ég er feginn öllu því sem fleytir áfram rannsóknum og vísindum á Íslandi og þar hygg ég að ég deili áhuga mínum með hv. þm. Það er hins vegar mikilvægt að fá fram þá afstöðu sem birtist í þessu svari hv. þm. Svavars Gestssonar vegna þess að ég tek mark á honum, ekki bara vegna þess að hann er ágætur þingmaður og á sæti í menntmn. heldur líka vegna þess að hann hefur áður haft forustu á þessu sviði. Hann er fyrrv. menntmrh. og það er horft til hans afstöðu í þessum málum, umfram afstöðu annarra manna. Og ég tel, virðulegi forseti, að það sé afskaplega mikilvægt að fá það fram eins og birtist í svari hv. þm. Svavars Gestssonar (Gripið fram í.) að hann er í rauninni samþykkur grundvallaratriðunum í þessu frv. sem birtir stefnu ríkisstjórnarinnar í þessu máli. Og vegna frammíkalla hv. þm., m.a. hv. þm. Kristínar Einarsdóttur, þá vil ég segja það að þessi afstaða kom ekki fram í máli hv. þm. Svavars Gestssonar áðan. Það er rétt að hann drap lítillega á það í sinni fyrstu ræðu að það væri gott að sameina þessi tvö ráð. En það voru ýmis önnur atriði sem líka brjóta í blað í frv. sem ég a.m.k. tel nokkuð mikilvægt að fá afstöðu hv. þm. Svavars Gestssonar til.