Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 18:38:15 (5282)


[18:38]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hv. þm. Þetta er nú þannig að Alþb. mótaði strax á árinu 1992 þá skynsamlegu og framsýnu stefnu að við ættum að stefna að tvíhliða viðskipta- og samvinnusamningi við Evrópubandalagið. Staðreyndin er sú að okkur var þá þegar ljóst og á það hafði verið mikið bent að í raun og veru væri þessi tímamóta EES-gjörningur og þetta mikla ferðalag og þetta framtíðarríki, tveggja stoða lausnin, tveggja stoða höllin mikla í Evrópu framtíðarinnar, byggð á sandi vegna þess að það væri fyrirséð hver yrðu endalok þessa svæðis fyrr eða síðar. Það væri þess vegna tímasóun fyrir Íslendinga, sem ætluðu sér annan næturstað en hinar EFTA-þjóðirnar, að leggja alla þessa óskaplegu orku og ráða alla þessa ,,stationista`` inn í þetta EES-batterí því það væri að gufa upp og verða að engu. Kröftunum, peningunum og tímanum hefði auðvitað verið mikið betur varið í það að leggja strax grunninn að varanlegum tvíhliða viðskipta- og samvinnusamningi við Evrópubandalagið. Nú get ég ekki sagt neitt meira um það en aðrir hér hvort líklegt sé að hann væri þegar í höfn ef við hefðum t.d. á árinu 1992 eða 1993 eða 1991 ákveðið að velja bara þá leið, vera raunsæ og horfast í augu við það, eins og Alþb. gerði strax 1992, Alþingi gerði vorið 1993 og ég held að öll íslenska þjóðin sé núna auðvitað að átta sig á og sannfærast um, að við verðum að fara að vinna í hörðum höndum enda komið árið 1994. Framtíðarríki hæstv. utanrrh., EES, er að gufa upp um næstu áramót að öllum líkindum og þá er staða Íslands þessi. Þannig að ætla að fara að negla okkur sem

lögðumst gegn samningnum um EES, kannski einkum og sér í lagi vegna einmitt stofnanaþáttarins og valdaframsalsins sem í honum fólst, en ekki endilega viðskiptahlutans. Það er algerlega ófrjó íþrótt. Við skulum frekar í jákvæðum dúr ræða um framhaldið og beita kröftunum og hugsuninni þangað enda er það það sem okkar bíður í raun að gera.