Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

111. fundur
Fimmtudaginn 17. mars 1994, kl. 18:56:36 (5284)


[18:56]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. 14. þm. Reykv. að þessi umræða hefur um margt verið fróðleg, mestan part málefnaleg og á köflum bráðskemmtileg og ekki síst þótti mér eftirtektarvert framlag Jóns

Ólafssonar fréttaritara í Moskvu sem fram kom í ræðu hv. þm. vera athyglisvert. Svo að ég gleymi því ekki, þá má ég til með að leiðrétta ranghermi sem gengur aftur æ ofan í æ á þann veg að utanrrh. Íslands hafi þóst of góður til að hitta að máli flokksbróður sinn, friðardúfuna Shimon Peres á sinni tíð. Það er ekki rétt eins og reynt var nú að bera til baka á þeim tíma, enda gegndi Sighvatur Björgvinsson hæstv. viðskrh. og iðnrh. þá starfi utanrrh. og tók þátt í bæði fundum og mannfagnaði með Shimoni Peresi.
    Það eru einkum þrjár spurningar sem mér finnst ástæða til að staldra við að lokinni þessari umræðu. Hin fyrsta er þessi: Hvernig hugsa menn sér að framfylgja ályktun Alþingis frá 5. maí og er efnislega um það hvernig við getum tryggt með varanlegum hætti ávinning okkar af EES-samningnum? Í annan stað er sú spurning: Hafa samningsniðurstöður bandalagsþjóða okkar í EFTA og þá ekki síst Norðmanna engin áhrif, skipta þær engu máli, geta Íslendingar kært sig kollótta um þær eða eru þær með einhverjum hætti þannig að það sé ástæða til þess að kanna þær rækilega og íhuga hvort þær breyti einhverju um stöðu Íslands í samskiptum við Evrópubandalagið? Ég nefni sérstaklega til samningsniðurstöður EFTA-ríkjanna og þá sérstaklega Noregs. Ég nefni líka til þá þróun sem um margt er afar líkleg að frekari stækkun Evrópubandalagsins gæti orðið fyrr, alveg eins og stækkun þess nú hefur orðið með skjótari hætti en flesta óraði fyrir, gæti orðið fyrr og þá einkum og sér í lagi að því er varðaði Mið- og Austur-Evrópuþjóðirnar. Skiptir það okkur engu máli ef þróunin verður á þann veg að Evrópubandalagið þróist frá því að verða sammiðjað sambandsríki og frekar í þá átt að verða allsherjarsamtök lýðræðisríkja í Evrópu og taki bæði til efnahags- og öryggismála? Og ég nefni til í fjórða lagi: Er það okkur ekki umhugsunarefni ef þannig fer að aðild okkar að norrænu samstarfi breytist, að inntak þess minnki ef Norðurlöndin öll sameinast innan Evrópusambandsins sem undir svæði þess? Þá á ég einfaldlega við að samkvæmt grundvallarreglum sameiginlegrar utanríkis- og varnarstefnu bandalagsins þá koma ríki sambandsins fram sem einn hópur, tala einum rómi, undirbúa málflutning sinn á alþjóðlegum vettvangi sameiginlega, en þetta mundi óhjákvæmilega hafa verulegar breytingar í för með sér á eðli og vinnubrögðum í norrænu samstarfi eins og við höfum kynnst því hingað til.
    Meðan ég man, norrænt samstarf, af því að hv. þm. Páll Pétursson með sínu orðbragði taldi að ég legði lítið upp úr því, þá er það ekki svo. Ég hef að vísu oftar en einu sinni látið í ljós þá skoðun mína að málskrafsþing væru hvorki mjög skemmtileg né mjög uppbyggileg út af fyrir sig en að ég hafi vanmetið gildi norrænnar samvinnu fyrir Íslendinga er af og frá. Gildi hennar er mikið, við njótum hennar ríkulega og kannski umfram aðrar Norðurlandaþjóðir, hún nýtur mikils stuðnings með okkar þjóð og menn geta rakið það af ræðum mínum langan tíma aftur að ég hef ævinlega talið norrænt samstarf vera okkur hagkvæmt og vera ein af helstu stoðum íslenskrar utanríkisstefnu.
    Þriðja ábendingin sem fram kom í þessum umræðum var af hálfu talsmanna þingmanna Samtaka um kvennalista á þá leið að Íslendingar ættu í vaxandi mæli að leggja á það áherslu í málflutningi sínum og stefnumörkun á alþjóðlegum vettvangi að gerast talsmenn mannréttinda, leggja rækt við mannúðarsjónarmið og að Íslendingar ættu að láta sinn hlut ekki eftir liggja að því er það varðar að gerast griðland flóttamanna. Ég tek heilshugar undir það og þetta er þörf og rétt ábending.
    Virðulegi forseti. Má ég þá fara fyrst örfáum orðum um ályktun Alþingis um það að taka upp viðræður við Evrópusambandið til að festa í sessi EES-samninginn. Mér skilst að í danskri tungu sé til orðskviður sem er eitthvað á þá leið að eftirhermun séu stærstu gullhamrarnir og það fer ekkert fram hjá mér að það eru einkum og sér í lagi talsmenn þeirra hér á hinu háa Alþingi sem greiddu atkvæði gegn EES-samningnum sem nú fara fremstir í flokki til þess að árétta það hvílík lífsnauðsyn íslensku þjóðinni er að staðfesta EES-samninginn þannig að við förum ekki á mis við hann. Batnandi mönnum er best að lifa. Það er að sjálfsögðu réttmæt skoðun.
    Nú er það svo að EES-samningurinn var gerður af hálfu hvers einstaks EFTA-ríkis við Evrópusambandið og þótt einstök ríki áður í EFTA hafi vistaskipti og gangi í Evrópusambandið, sem þannig stækkar, þá breytir það engu um það að EES-samningurinn heldur gildi sínu. Hann stenst. Honum þarf ekki að segja upp. Það er nauðsynlegt að leggja áherslu á þetta vegna þess að þær hugmyndir hafa birst af hálfu talsmanna ýmissa EFTA-ríkja að þeir standi í þeirri trú að við vistaskiptin muni þeir segja upp EES-samningnum. Það er rétt skoðun sem fram hefur komið hjá Leon Brittan, framkvæmdastjóra Evrópusambandsins, að lögformlega eru engar forsendur fyrir því, samningurinn með öðrum orðum heldur gildi sínu, réttindi og skuldbindingar haldast og það er í samræmi við það sem við höfum verið fullvissaðir um af hálfu utanríkisráðherra framkvæmdastjórnar bandalagsins á sl. tveimur árum, þ.e. bæði af hálfu Andriessens, fyrrv. utanríkisráðherra, og Hans van den Broek sem sem nú gegnir því embætti.
    Verkefnið er með öðrum orðum það eitt að tryggja framkvæmd samningsins eftir að þessar miklu breytingar hafa átt sér stað sem verður vandasamt ef niðurstaðan verður sú að Ísland verður eitt samningsaðilinn.
    Vandinn er í því fólginn að við sömdum um stofnanalausn sem var fjölþjóðleg í eðli sínu og bundum þannig um hnútana, ekki síst að frumkvæði Íslendinga sjálfra, að eftirlitsstofnun og EFTA-dómstóll brytu með engu móti í bága við íslenska stjórnarskrá og fælu ekki í sér neitt framsal á framkvæmdar- eða dómsvaldi. Það hefur ekki verið gert ráð fyrir því að þessi þáttur starfseminnar, þ.e. eftirlit og lausn deilumála geti orðið með einhliða hætti af hálfu þeirrar þjóðar sem í hlut á. Hins vegar var það svo að Íslendingar gátu ekki fallist á það að framkvæmdastjórn bandalags sem við erum ekki í taki að sér slíkt hlutverk. Þetta

er þess vegna vandmeðfarið mál. Hins vegar, af því að menn hafa líka spurt hvers vegna slíkar viðræður eru ekki hafnar þá er svarið þetta: Evrópusambandið gefur ekki kost á því að taka upp formlegar samningaviðræður um slíka hluti fyrr en fyrir liggur að forsendur samninganna liggi fyrir sem eru að EFTA-ríkin nái ekki aðeins óstaðfestum samningum heldur ljúki þeim samningum sínum þannig að þeir séu orðinn hlutur. Því ferli lýkur ekki fyrr en með þjóðaratkvæðagreiðslu og fullgildingarskjölum. Að sjálfsögðu hefur þetta mál verið rætt í millitíðinni, ályktun Alþingis komið á framfæri og málið rætt við ýmis tækifæri en af formlegum samningum getur væntanlega ekki orðið fyrr.
    Virðulegi forseti. Hafa samningsniðurstöður Norðurlandaþjóðanna engin áhrif á hag eða viðhorf okkar Íslendinga? Er ekki sjálfsagt mál að rannsaka það vandlega? Það er að sjálfsögðu ákvörðun eitt út af fyrir sig og var á sínum tíma af hálfu íslenskra stjórnvalda að Ísland slóst ekki í hóp annarra Norðurlanda með því að leggja fram aðildarumsókn. Meginástæðurnar fyrir því sem menn höfðu mest að orði voru að okkur þótti og þykir auðlindastefna Evrópusambandsins óásættanleg. Við töldum engar líkur á að unnt væri að leita eftir undanþágum að því er varðaði fiskveiðistefnu sambandsins, fiskveiðistjórnunarstefnu, hinnar sameiginlegu fiskveiðistefnu og fleira var að sjálfsögðu tíundað í þeim efnum, svo sem eins og fullveldishugtakið og fleira. En við höfum ævinlega sagt af hálfu íslenskra stjórnvalda að við mundum fylgjast sérstaklega grannt með þessum samningum og sér í lagi mundum við fylgjast rækilega með fiskveiðisamningum Norðmanna.
    Nú er ekki tími til þess út af fyrir sig að gera því máli hér skil m.a. af þeirri ástæðu að allur texti þeirra samninga liggur ekki fyrir og verður ekki birtur að sögn Norðmanna fyrr en um miðja næstu viku. En af því að hingað hefur komið upp í ræðustól hver maðurinn á fætur öðrum með miklar fullyrðingar um þá samningsniðurstöðu þá þykir mér rétt, virðulegi forseti, að koma á framfæri hér sjónarmiðum norskra stjórnvalda sjálfra eins og þau birtust í ræðu norska forsætisráðherrans, Gro Harlem Brundtland, þegar hún gerði norska Stórþinginu grein fyrir niðurstöðu þessa máls í morgun. Þar sagði á þessa leið, með leyfi forseta:
    ,,Eins og búist var við kom til harðra samningaviðræðna um sjávarútvegsmálin. Það gilti ekki eingöngu um Noreg. Að lokum var það ljóst að við fengum góðan árangur einnig á þessu sviði. Ríkisstjórnin mun mæla með úrslitunum og telur að þau gefi áreiðanlegan og öruggan grundvöll og ríka möguleika fyrir sjávarútveg í Noregi. Með samningunum höfum við skapað nýja þróunarmöguleika fyrir sjávarútveg okkar. Við höfum tryggt réttinn til nýtingar auðlinda sjávar, við höfum fullvissu fyrir því að okkar stefnu í rekstri norðlægra hafsvæða verður fylgt áfram. Við fáum tollfrjálsan aðgang fyrir fisk og sjávarafurðir til mikilvægasta markaðar okkar. Ríkisstjórnin hafði að sjálfsögðu sett sér þann útgangspunkt í samningaviðræðum að ekki ætti að láta af hendi aðgang að fiskimiðum. Viðsemjendur okkar gerðu sér grein fyrir að þetta mál mundi hafa afgerandi þýðingu fyrir það hvort samningar gætu náðst. Sá árangur sem okkar stjórnun fiskimiða hefur náð gerði okkur kleift að sýna sveigjanleika undir lokin þar sem þróun þorskstofnsins er jákvæðari en gert var ráð fyrir þegar gengið var frá EES-samningunum. Munu einnig kvótar norskra sjómanna verða meiri á næstu árum en gert var ráð fyrir fyrir tveimur árum síðan. Þess vegna gátum við sýnt sveigjanleika varðandi EES-fisk með því að láta samninginn koma til framkvæmda heldur fyrr. Fiskurinn sem við látum af hendi rakna kemur af viðbót sem fyrst og fremst Noregur og Rússland njóta góðs af.`` --- Þetta segir forsætisráðherrann um það verð sem þeir greiddu fyrir þetta. --- ,,Grunnurinn er engu að síðu traustur, þ.e. að þau fiskveiðiréttindi sem við höfum í dag haldast. Báðir aðilar eru sammála um það að grundvallarreglan um hlutfallslegt jafnvægi liggi til grundvallar fyrir fast kerfi Evrópusambandsins um skiptingu fiskveiðiréttinda. Þetta þýðir að við tryggjum okkar eigin eignarrétt á okkar hluta auðlinda sjávar. Norskir sjómenn munu ekki mæta samkeppni á sínum fiskimiðum, enginn mun veiða fisk sem Noregur á rétt á í dag. Eins og áður munum við eiga 95% af þorski á norðurslóðum en það verður ekki svo að Spánverjar komi inn og ógni þeim auðlindum sem norskir sjómenn byggja líf sitt á.
    Sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins er allt önnur í dag en hún var 1972. Uppistöðureglur í okkar eigin stefnu endurspeglast í reglugerðum Evrópusambandsins. Engu að síður höfum við lagt áherslu á það að tryggja hagsmuni í strandlengju Noregs. Við höfum fengið nægilega tryggingu fyrir því að Evrópusambandið muni áfram halda fiskveiðum innan 12 mílna í höndum strandríkjanna. Enginn hefur rétt á því að koma upp í fjörusteina til okkar. Við höfum fengið nægilega tryggingu fyrir því að þetta haldi áfram, einnig eftir árið 2002 þegar fiskveiðistefna Evrópusambandsins verður endurskoðuð. Það hefur komið í ljós í pólitískum samskiptum við undirbúning samninganna að öll aðildarríkin vilja halda þessu kerfi einnig í framtíðinni.
    Samningurinn felur það í sér að sölusamtök okkar halda starfsemi sinni óbreyttri. Þetta á m.a. við mikilvæga þætti eins og skyldu til fyrstu sölu fisks og rétt sölusamtakanna til að fastsetja lágmarksverð. Með ströngum rekstrarákvörðunum og nánu samstarfi milli sjávarútvegssamtaka, rannsóknaraðila og stjórnvalda höfum við byggt upp rekstrarkerfi fyrir norðlæg mið. Við höfum notið verulegrar viðurkenningar fyrir þetta meðal Evrópusambandsins og framkvæmdastjórnar sem telja að norskar reglur henti best og á þessu sviði verður það svo að Evrópusambandið taki yfir reglur Noregs. Samningurinn gefur okkur nauðsynlega tryggingu fyrir því að við getum haldið áfram þeirri stefnu sem við sjálf höfum sett okkur og að núverandi rekstrarkerfi Noregs verði áfram rekið af sambandinu.``
    Þannig mætti lengi telja, virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Þetta er að sjálfsögðu eitt mikilvægasta málið sem hér ætti að vera til umræðu, þ.e. að leggja mat á það hvort samningsniðurstöður (Forseti hringir.) Norðmanna á sjávarútvegssviðinu eru slíkar að það breyti í einhverju mati okkar á þeim möguleikum sem við ættum í framtíðinni.
    Virðulegi forseti. Það er eins gott að taka það fram hér að það hefur ekkert verið á dagskrá að flytja neinar tillögur um aðild að Evrópusambandinu. (Forseti hringir.) Það sem ég hef verið að gera er að segja að það er hægt að færa (Forseti hringir.) veigamikil rök fyrir því að forsendur hafi breyst að því leyti að nú sé nauðsynlegt að við látum fara fram rannsókn á þeim kostum (Forseti hringir.) sem völ er á á framtíðarstöðu okkar í samfélagi Evrópuþjóðanna og það er að sjálfsögðu (Forseti hringir.) rétt að gera í ljósi breyttra aðstæðna.