Fjáraukalög 1991

112. fundur
Föstudaginn 18. mars 1994, kl. 14:18:52 (5334)


[14:18]

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Mér finnst hv. þm. seilast nokkuð langt í að skýra ræðu þess sem hér stendur.
    Ég sagði það eitt að þessir ágætu embættismenn sem ég vitnaði til hefðu sagt að það væri affarasælast fyrir málið að það yrði afgreitt sem fyrst. Ég vek athygli hv. þm. á því, hafi það farið fram hjá honum, að fjáraukalög eru lög og það er Alþingi sem verður að samþykkja fjáraukalagafrv. Þegar það hefur verið samþykkt er það orðið að lögum. Þess vegna er niðurstaðan lög. Það sem er slæmt fyrir þetta mál er það að hér er verið að fara í gegnum fjáraukalög fyrir árið 1991, það er verið að ræða um heimildir sem er löngu, löngu búið að vinna eftir og það eru nokkur ár liðin síðan. Þess vegna skiptir það mestu máli nú að halda ekki áfram þrætum sem ekki er hægt að ná niðurstöðu um samhljóða. Það er samhljóða samt sem áður álit okkar sem um þessi mál fjalla að við fáum niðurstöðu í málið. Og þegar fyrir liggur álit ríkisreikningsnefndar, sem mun verða innan tíðar, þá geta menn rætt þessi mál aftur, farið yfir þau, skoðað og athugað um breytingar. En ég hef lofað hv. þm. því að sú niðurstaða rænir okkur ekki möguleikanum á því að halda áfram að rífast um bókhaldsmál ríkisins því þau eru þannig vaxin að það er hægt að rífast um þau eins og bókhald yfirleitt. ( Gripið fram í: Þetta er . . .  ) Nei.