Heilbrigðisþjónusta

112. fundur
Föstudaginn 18. mars 1994, kl. 15:30:25 (5350)


[15:30]
     Lára Margrét Ragnarsdóttir :
    Hæstv. forseti. Mér er vel kunnugt um það vandamál sem oft hefur gerst á sjúkrahúsum og öðrum heilbrigðisstofnunum að sjúklingar og aðstandendur þeirra hafi átt í erfiðleikum með að fá fram upplýsingar um líðan, um læknismeðferð og jafnvel hvort batahorfur séu í vændum og ýmislegt annað sem tengist umönnun sjúklings. Þetta vandamál má ýmist telja til samskiptaerfiðleika vegna þess að sjúklingurinn er hlédrægur og aðstandendur jafnvel líka en einnig vegna skipulags innan stofnana þar sem sjúklingurinn hefur stundum ekki verið sjúklingur eins læknis eða eins hjúkrunarfræðings heldur hafa fleiri með hann að gera og samskipti milli þessara aðila ekki jafngóð eða jafnvirk og æskilegt væri. Ég tel hins vegar að mikil bót hafi verið ráðin á þessum vanda á undanförnum árum með meiri og betri teymisvinnu, ef við getum kallað það svo, lækna og hjúkrunarfræðinga og ekki síst félagsráðgjafa og presta sem tengjast mjög vel slíkri vinnu. Þessi jákvæða þróun hefur verið mjög ör og þótt segja megi að enn vanti nokkuð á þá tel ég að þessi góða þróun leiði til þess að innan tíðar verði ráðin bót á þessum vanda.
    Ég vil leyfa mér að vísa til umsagnar hjúkrunarfélaganna sem nú hafa sameinast í Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga og læknasamtakanna um fyrra frv. um þetta mál sem, eins og kom fram hjá hv. flm., er nokkuð frábrugðið því frv. sem við erum að ræða en ég tel þó samt sem áður að þessar umsagnir eigi fullan rétt á sér í dag. En það segir í umsögn hjúkrunarfélaganna:
    ,,Eigi trúnaðarmaðurinn að gegna öðrum störfum mundi hann þurfa að vinna á vöktum. Það hefði í för með sér að erfitt gæti orðið að samræma störf hans sem hjúkrunarfræðings og trúnaðarmanns. Ef um skipulagðar vaktir sem trúnaðarmaður yrði að ræða allan sólarhringinn á öllum deildum sjúkrahúsanna krefst það mikils mannafla sem erfitt gæti orðið að uppfylla. Við viljum benda á þá staðreynd að hjúkrunarfræðingar, samkvæmt eðli síns starfs, eru trúnaðarmenn og talsmenn sjúklinga og aðstandendur þeirra þegar þeir eru við störf sín. Jafnframt eru þeir samhæfingaraðili í þeirri meðferð og þjónustu sem veitt er á sjúkrastofnunum. Aðrar stéttir, svo sem læknar, prestar og fleiri, telja sig einnig trúnaðarmenn og talsmenn sjúklinga.
    Skipan sérstaks trúnaðarmanns sjúklinga gæti því valdið óþarfa ágreiningi í annars ágætu samstarfi aðila.
    Störf heilbrigðisstétta miða að því að líta á manneskjuna sem eina heild með andlegar, líkamlegar og félagslegar þarfir. Á sjúkrahúsum er unnið markvisst að því að þjónustan við sjúklinginn og hans aðstandendur taki mið að því.
    Eitt gleðilegasta dæmi þess að beina sjónum að andlegri líðan fólks við erfiðar aðstæður er myndun þverfaglegra stuðningsteyma sem nú eru að skjóta rótum á sjúkrahúsum. Ekki er vafi á því að þar er vettvangur sem í framtíðinni mundi koma til móts við þá hugmynd sem frv. byggist á.``
    Þetta er einmitt það sem ég vildi leggja fyrst og fremst áherslu á að það er þarna sem þróunin er að verða á sjúkrahúsunum.
    Enn fremur segir í umsögn hjúkrunarfélaganna: ,, . . .  en slíkt krefst aukinna fjárveitinga.``
    Ef ég vísa til umsagnar Læknafélags Íslands um þetta fyrra frv. þá segir þar:
    ,,Starfsmenn heilbrigðisþjónustunnar telja sig fyrst og síðast vera trúnaðarmenn sjúklinga og aðstandenda þeirra og talsmenn þeirra inn á við og út á við. Verði ráðinn sérstakur trúnaðarmaður á heilbrigðisstofnanir þær sem um ræðir kynni það með tímanum að hafa í för með sér minnkandi upplýsingamiðlun til sjúklinga og aðstandenda almennt frá öðrum heilbrigðisstarfsmönnum.
    Í læknalögum eru ákvæði um að lækni beri að upplýsa sjúklinga og aðstandendur um ástand, meðferð og horfur. Litið er svo á að með lögjöfnun gildi ákvæðið einnig fyrir aðrar heilbrigðisstéttir.
    Flm. frv. hafa sennilega ekki gert sér grein fyrir því að eigi trúnaðarmaður að vera til taks allan sólarhringinn samsvarar það þremur starfsmönnum á sólarhring eða u.þ.b. fimm stöðugildum á hverjum stað miðað við 40 klukkustunda vinnuviku. Leiða hugmyndir frv. þannig til allnokkurrar aukningar í mannahaldi sjúkrahúsa ef framkvæmdar verða.``
    Eins og fram kom hjá flm. þá hefur orðið töluverð breyting á núverandi frv. með tilliti til þessarar framsetningar sem hér kemur fram hjá Læknafélaginu. En að lokum segir í umsögn Læknafélagsins:
    ,,Ef til kæmi eru engin rök fyrir því skilyrði að trúnaðarmaður sé hjúkrunarfræðingur að mennt. Ljóst er að starfsmenn úr öðrum heilbrigðisstéttum kunna að vera jafn vel til starfsins fallnir.``
    Enn fremur veit ég að hv. flm. hefur tekið tillit til þessara ummæla.

    Hæstv. forseti. Ég tel að þetta frv. sé alls góðs maklegt. Að baki því liggur vilji til að bæta andlega, félagslega og líkamlega líðan sjúklinga sem ekki veitir af því ég tel að vellíðan sjúklings, bæði andleg og félagsleg, sé ekki síður mikilvæg fyrir hann og að mínu mati dágóður hluti af batahorfum sjúklings. Ég mun því gera mitt til þess að skoða þetta frv. á jákvæðan hátt í heilbr.- og trn. en ég á sæti í henni.