Heilbrigðisþjónusta

112. fundur
Föstudaginn 18. mars 1994, kl. 15:36:36 (5351)


[15:36]
     Flm. (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka þær undirtektir sem ég fékk hjá hv. síðasta ræðumanni, hv. 13. þm. Reykv., en eins og fram kom í máli hennar þá er verið að vinna mjög gott starf víða á sjúkrahúsum og það hefur töluvert breyst frá því að þetta frv. var í samningu og kom fyrst fram þannig að hafi umsögn hjúkrunarfræðinga og lækna átt við þá þá á það jafnvel enn frekar við nú þegar þessi mál eru að þróast. Það er raunar tvennt sem ég held að sé vert að hafa í huga varðandi þá útfærslu sem hér er lögð til. Það er í fyrsta lagi að það er ekki verið að tala um að trúnaðarmenn gegni einungis þessum stöðum heldur séu fyrst og síðast valdir úr hópi starfsfólks og eigi náin tengsl og samstarf við allt starfsfólk. Það er ekkert sem mælir gegn því heldur að annað starfsfólk sjúkrahúsa gegni sínum trúnaðarskyldum eftir sem áður. Þetta er hins vegar leið til þess að gefa óframfærnum sjúklingum möguleika á að nálgast einn öðrum fremur. Þetta er í rauninni sú sama líking og á við um trúnaðarmenn á vinnustöðum, þeir sinna sínum starfsskyldum eftir sem áður. Komi hins vegar eitthvað upp á þá eiga starfsmenn rétt á að leita til eins aðila sem á að hafa ákveðna þjálfun í slíkum samskiptum umfram aðra. Það er einungis þessi hugsun sem mér finnst skipta máli en ég geri mér grein fyrir því að andstætt því sem gerist með trúnaðarmenn á vinnustöðum sem hafa yfirleitt ekki aukið starfshlutfall vegna sinna skyldna þá tel ég að það sé nauðsynlegt að bæta við mannskap sem svarar þessum skyldum vegna þess að meðal þess sem trúnaðarmanni er ætlað á sjúkrahúsi er að hafa sérstaklega samband í upphafi sjúkrahússdvalar við sjúklinga og aðstandendur og jafnvel á öðrum tímum til þess hreinlega að láta vita af því að hann sé við. En að öðru leyti er ekki ætlast til þess að trúnaðarmaður grípi með nokkrum hætti inn í þá jákvæðu þróun sem er að verða heldur sé hluti af henni. Þetta held ég að sé hið stærsta mál og í þessu skyni gerði ég nokkrar breytingar á frv. frá upphafi og mig langar að vísa til greinargerðar um það, með leyfi hæstv. forseta.
    ,,Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á frumvarpinu eins og það lá fyrir í upprunalegri mynd. Þær miðast við að tryggja að trúnaðarmaður sé í nánum tengslum við annað starf sem fram fer á viðkomandi sjúkrastofnun og gegni starfi trúnaðarmanns samhliða öðrum skyldustörfum á stofnuninni. Einnig er gefið svigrúm til þess að trúnaðarmenn á stærri sjúkrahúsum komi úr fleiri heilbrigðisstéttum en hjúkrunarfræðinga og hafi þá með sér náið samstarf. Þessi háttur er hafður á til þess að hægt sé að mynda teymi trúnaðarmanna sem hafi góða yfirsýn yfir starfsemi sjúkrahússins og bein tengsl við sem flestar heilbrigðisstéttir.``
    Varðandi vaktavinnu er ekki gert ráð fyrir að það þurfi að vera tiltækur trúnaðarmaður starfandi allan sólarhringinn. Hins vegar gæti þurft að vera einhvers konar bakvaktakerfi í gangi. En það er fyrst og fremst miðað við að trúnaðarmaður hafi góð tengsl við starfssystkini sín á sjúkrahúsum og leiðbeini þeim eða tilkynni þeim ef einhver vafamál eru í gangi og haldi þannig samfellu en ekki að þarna þurfi að að bæta við svo að það sé alltaf einhver á vakt til taks. Það kann að þurfa að útfæra þetta nánar með einhvers konar bakvaktakerfi en ég held að það skipti í flestum tilvikum fyrst og fremst máli að trúnaðarmaður geti leiðbeint ef einhver áföll koma upp um það hvernig sjúklingur og aðstandandi geta sem best unnið með því teymi sem er til staðar og er að vinna að þessum erfiðu málum.
    Ég legg sérstaka áherslu á að þarna er kannski ekki verið að hugsa um það sem fyrirsjáanlegt er og það sem fólk sem hefur unnið í slíkri teymisvinnu sér fyrir og veit vegna þess kannski að batahorfur versna eða það er einhver aðgerð fyrirsjáanleg eða eitt eða annað þar sem starfsfólk sjúkrahúsa hefur frumkvæði að því að hafa samband við sjúklinga. Ég hef rætt við fólk sem hefur starfað í slíkri teymisvinnu og ég tel slíkt frumkvæði eftir sem áður mjög nauðsynlegt og brýnt.
    Ég tel það líka mjög nauðsynlegt og brýnt sem gert hefur verið alla vega á einni sjúkrastofnun sem ég veit um þar sem geðhjúkrunarfræðingar hafa sérstaklega reynt að leita uppi fólk bæði úr hópi sjúklinga og aðstandenda sem þeir telja að þurfi á hjálp að halda. Þessi þjónusta er eftir sem áður nauðsynleg. Það sem ég er sérstaklega að tala um er að það sé þarna ákveðin verkaskipting út frá sjónarmiði þeirra sjúklinga sem hafa kannski spurningar sem enginn sér fyrir að séu þarna. Viti að það er einhver ákveðinn úr hópi starfsfólks sjúkrahússins sem hefur það hlutverk og þá skyldu sérstaklega að svara spurningum og hefur ákveðna þjálfun í því líka.
    Ég þakka þeim hv. þm. sem hér hafa tekið til máls og eru í andsvörum og í ræðu og eru í heilbr.- og trn. Ég hef trú á því að með góðri umræðu þá sé hægt að komast niður á lausn sem tekur tillit til allra þessara atriða sem ég hef nefnt og sem fram komu í þeirra ábendingum og ræðum.
    Ég trúi því að hér sé viðbót, þörf viðbót, við það starf sem verið er að vinna og að það sé hægt að leggja þessa viðbót inn í kerfið án þess að til vandræða eða tortryggni komi og þá sérstaklega með því að leyfa þessu að þróast á eðlilegan hátt en skapa þetta svigrúm sérstaklega með þá sjúklinga í huga og aðstandendur sem þessi þjónusta nær ekki til sem þegar er fyrir hendi.