Hlutafélög

112. fundur
Föstudaginn 18. mars 1994, kl. 16:50:17 (5365)


[16:50]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er greinilega hreyft mjög stóru máli og nauðsynlegu. Þó að hér sé tilgreint í athugasemdum með frv. að þetta sé vegna EES-samningsins, þá sýnist mér nú að þarna sé líka verið að taka á heilmiklu af réttarbótum sem nauðsynlegt er að koma á hvað varðar hlutafélög og breytingar á þeim. Ég ætla ekki heldur að fara neitt efnislega í allt þetta frv., til þess er það allt of viðamikið og þarf að skoða það, enda er ég í raun og veru hlynnt þeirri skipan mála ef hún væri upp tekin hér í þinginu að menn væru ekki með mjög langa umræðu í 1. umr. um frv. heldur væri það í 2. umr. fyrst og fremst og þar kæmu þá fram þær athugasemdir sem þingmenn hefðu fram að færa eftir að hafa skoðað frv., bæði í nefnd og að öðru leyti.
    En ég vildi spyrja að nokkrum atriðum og þá í framhaldi af því sem hv. 6. þm. Norðurl. e. var með áðan, þessu almenna ákvæði varðandi lágmarkshlutafé þeirra hlutafélaga sem verða áfram hlutafélög en eru ekki umskráð. Nú vitum við að það að skrá hlutafélög kostar allmikla peninga í dag, var hækkað mjög mikið fyrir held ég tveimur árum síðan og ég vil þá spyrja hæstv. ráðherra, nú hef ég ekki kynnt mér það, það getur vel verið að þetta sé einhvers staðar tiltekið hér, en er það þá full skráning sem þar kæmi til þannig að öll þau hlutafélög sem eftir þessa lagasetningu ekki uppfylla þau skilyrði og hafa ekki látið skrá sig sem eignarhlutafélög en verða sem sagt að gera það, þurfa þau að borga fulla skráningu eins og er um hlutafélög í dag?
    Í öðru lagi tel ég það gott mál það sem segir um III. kafla að það skuli greiða hlutafé að fullu í síðasta lagi innan eins árs frá skráningu í stað þriggja ára því að það held ég að sé eitt af því sem hefur jafnvel gert hlutafélögum erfitt um vik hversu erfiðlega hefur oft gengið að innheimta hlutafé sem lofað er og það má kannski minna á í því sambandi að það hefur einnig verið reiknað út sem meðaltal að ný fyrirtæki sem sett eru á fót lifi kannski í tvö ár en séu jafnvel farin á hausinn innan tveggja ára og kannski hefur það verið í og með vegna þess að það hafa verið þrjú ár sem menn hafa haft til þess að greiða inn sitt hlutafé og félagið átt erfitt um vik með sinn rekstur einmitt vegna þess. Ég tel því að þetta sé fyllilega til bóta og gæti e.t.v. hjálpað til að þau félög sem stofnuð eru hafi lengri líftíma og eins hitt að það dregur þá úr gjaldþrotum og skapar þeim betri stöðu við eigin fjárútvegun.
    Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra um X. kaflann. Það segir hér þar sem eru nefndar helstu breytingar á lögunum:
    ,,Stjórn félags er skylt að gera vissar ráðstafanir þegar félag hefur tapað helmingnum af hlutafé sínu.``
    Er þá átt við nafnvirði hlutafélaga og hvenær nákvæmlega tiltekið er hægt að gera einhverja frekari grein fyrir þessu ákvæði hvað hér er átt við?
    Að öðru leyti tel ég það til bóta að það verði um þessi tvö form að ræða svona í fljótu bragði. Með öllum fyrirvara sýnist mér að það sé til bóta að hafa tvö form á hlutafélögum og það má einnig minna á það að sameignarfélög hafa ekki haft sama réttaröryggi má segja eða gilt um það sömu reglur og hlutafélög og hefur fólk talað um það og fundist að sameiginarfélög hefðu skertar heimildir til ýmissa nota í sambandi við skattafrádrátt og fleira sem tekur til sameignarfélaga. Það hefur aftur á móti oft og tíðum verið þrautalendingin að stofna ekki hlutafélög heldur sameignarfélög þegar kannski eru tveir aðilar um að stofna með sér félag um einhvern rekstur.
    Mér dettur einnig í hug og kannski í framhaldi af því sem hv. 6. þm. Norðurl. e. sagði áðan um bændur og kannski getur hann svarað því hér á eftir ef hann þekkir þau mál betur að félagsbú hef ég oft heyrt um að bændur reki með sér, hvort það sé þá ekki hugsanlegt að þeir mundu breyta þessum félagsbúum í eignarhlutafélög og hvort það gæti kannski verið betri lausn fyrir bændur en þau félagsbú sem þeir reka

í dag.
    Eitt hnaut ég einnig um í almennum athugaesemdum með þessu frv. Ég tek það fram að ég hef ekki kynnt mér það nægilega vel, enda er hér um stóran lagabálk að ræða. Hér segir að fordæmi fyrir tvennum lögum, þ.e. sem hér er nú verið að leggja til að verði um hlutafélög, fordæmi fyrir tvennum lögum um mismunandi stór hlutafélög sé að finna í Danmörku og öðrum ríkjum EB. Þyki það heppilegra að hafa sama hátt á hér, þ.e. að megináhersla verði lögð á það í EB að samræma reglur fyrir stærri félögin og má ætla að sama muni gilda á Evrópska efnahagssvæðinu. Er það þá svo að hér séum við að aðlaga þessi mál alveg sérstaklega að reglum EB án þess í raun og veru að vita hvort nauðsynlegt er að aðlaga þau nákvæmlega að EB-reglum vegna þess að við séum aðilar að Evrópsku efnahagssvæði?
    Ég vildi einnig minna á það að mörg þessi ákvæði sem hér er verið að taka til sýnist mér að komi einnig inn á lög um bókhald og það er orðið mjög nauðsynlegt að endurskoða lög um bókhald. Þau eru frá árinu 1966, held ég að sé rétt hjá mér og einhverjar breytingar hafa þó verið gerðar síðan en þau hafa ekki verið endurskoðuð nægilega vel síðan og ekki komið ný lög. Það hefur verið rætt um það hér á síðustu tveimur þingum að það væri nauðsynlegt að endurskoða lögin um bókhald og ég hygg að ef breytingar yrðu gerðar á lögunum um bókhald í þá veru sem nauðsynlegt er orðið að gera hér því að þetta eru orðin gömul lög þá muni ýmsar lagagreinar í þessu frv. taka breytingum.
    Að öðru leyti, virðulegur forseti, ætla ég ekki að tjá mig um þetta en geri ráð fyrir að efh.- og viðskn. muni fjalla að einhverju leyti um það og ég er ánægð að heyra það að hæstv. ráðherra leggur enga sérstaka áherslu á að svo stórum málaflokkum verði lokið á þessum 20 dögum sem við eigum eftir af þingtímanum fram til vors en er nánast frekar að setja þetta hér inn til kynningar og vinnslu áfram.