Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 16:06:53 (5432)


[16:06]
     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég vænti þess að hv. 1. þm. Vestf., þó hann talaði ekki mjög skýrt, hafi verið að tala um Landsbanka Íslands og þau útlánatöp sem þar hafa verið. Þar hefur Kvennalistinn átt fulltrúa í bankaráði, það er rétt. Við horfum hins vegar ekkert á það þó að okkar fulltrúi hafi setið þarna og við ætlum ekkert að hlífa henni við rannsókn frekar en öðrum. Þessari nefnd sem ég talaði hér fyrir að sett yrði á laggirnar er ætlað að skoða öll þessi mál, líka Landsbanka Íslands. Okkur dettur ekki í hug annað en að okkar fulltrúi sé þar ábyrgur. Auðvitað eiga stjórnarmenn í stjórnum, nefndum og ráðum og í bankaráðum að vera ábyrgir gerða sinna og eiga að þola skoðun ef allt er með felldu.
    Ég reikna með því að í flestum tilvikum sé það svo en við höfum dæmi um það allt í kringum okkur á Norðurlöndunum að bankaráð t.d. stórra banka hafa verið gerð ábyrg fyrir þeim útlánatöpum sem þar hafa átt sér stað vegna þess að þau hafi ekki staðið nægilega vel að lánveitingum og ekki tryggt nógu vel að það væri forsenda fyrir þessum lánveitingum. Hver veit nema það sé einmitt að gerast hér í dag með þessar 300 millj., að það sé í rauninni verið að búa til afskriftavanda í framtíðinni þó að þetta sé ekki stór vandi miðað við þær tölur sem ég nefndi áðan. ( MB: Er þá þingmaðurinn á móti þessu frv.?) Það sagði ég ekki. ( Gripið fram : Það lá í orðunum.)