Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 16:47:29 (5435)


[16:47]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er ekki einungis afar sérkennilegt mál á ferð heldur hefur verið sýnt fram á það af síðasta hv. ræðumanni að lagatextinn er illskiljanlegur og má teygja hann og toga á ýmsa vegu. En mig langar til að byrja mál mitt á því að rifja upp kafla úr viðtali sem Morgunblaðið átti við hæstv. forsrh., Davíð Oddsson, undir yfirskriftinni ,,Hlaupumst ekki undan merkjum`` og birtist í Morgunblaðinu 1. nóv. 1992. Þar segir hæstv. forsrh., með leyfi forseta:
    ,,En hlutverk yfirreddarans hér í Stjórnarráðinu á ekki lengur að vera fyrir hendi. Ég finn ekki fyrir öðru en því að það sé vaxandi skilningur á þessu í þjóðfélaginu. Sumir, sem tala um að aðgerðarleysi stjórnvalda sé algert, þeir eru að fiska eftir þessari gömlu aðferð að við breytum Stjórnarráðinu aftur í félagsmálastofnun atvinnulífsins og nánast hverju sem er verði haldið uppi með styrkjum og reikningurinn verði sendur börnum okkur og barnabörnum. Það ætlum við okkur alls ekki að gera. Það er færeyska leiðin.``
    Þetta sagði hæstv. forsrh. í viðtali en auðvitað vaknar sú spurning hvað ríkisstjórnin er að gera með þessu frv. Er hún ekki að gera nákvæmlega það að gera Stjórnarráðið aftur að félagsmálastofnun atvinnulífsins? Þá er ég í rauninni alls ekki að tala um það í neikvæðri merkingu heldur er raunveruleikinn einfaldlega sá að okkar atvinnulíf á í svo miklum erfiðleikum að það verður að grípa til samhæfðra aðgerða til þess að styðja atvinnulífið. Sú stefna sem ríkisstjórnin boðaði í upphafi kjörtímabils hefur einfaldlega beðið skipbrot. Þetta gengur ekki. Það gengur ekki að sleppa frjálshyggjunni lausri á atvinnulífið og láta markaðslögmálin ráða algjörlega ferðinni. Þegar ástandið er eins og raun ber vitni með samdrætti, mikilli skuldasöfnun og erfiðleikum á erlendum mörkuðum þurfa allir að leggjast á árarnar og það þarf að grípa til samræmdra aðgerða. Það sem ég les út úr þessu er því það að efnahags- og atvinnustefna ríkisstjórnarinnar hefur beðið skipbrot.
    En það er ekki þar fyrir að þær aðgerðir sem hér er gripið til hljóta að vekja margar spurningar. Ég dreg ekki í efa að Vestfirðingar standa frammi fyrir miklum erfiðleikum. Ég hef farið þar um með hv. 6. þm. Vestf. og við höfum heimsótt þar ýmis þorp og vorum nýlega á fundi með kvennalistakonum þar vestra þar sem kom mjög greinilega í ljós hve miklar áhyggjur Vestfirðingar hafa af framtíðinni. Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að Vestfirðir hafa orðið fyrir mikilli aflaskerðingu, hlutfallslega meiri en aðrir landshlutar. En við hljótum þó að spyrja: Hvaða greining hefur farið fram á vandanum? Hverjar eru orsakir vandans? Er þar eingöngu um að ræða þennan samdrátt eða kemur fleira til?
    Útgerðarmenn víðs vegar af landinu sem hafa tjáð sig um þessi mál hafa bent á það að Vestfirðingar hafa kannski ekki haldið nægilega vel á sínum málum, þeir hafa ekki stjórnað sínum veiðum nægilega vel. Ég ætla ekki að dæma um það hvort það er slælegri stjórnun að kenna að Vestfirðingar eru að verða búnir með sinn kvóta en það hlýtur að þurfa að fara ofan í orsakir og sjá til þess að þessi aðstoð komi að raunverulegum notum, að hún verði þá til þess að fleyta fyrirtækjum yfir erfiðleikana.
    Það er ekki síður vert að setja spurningarmerki við það hvort hér er rétt að verki staðið. Eins og fram hefur komið í þeim upplýsingum sem við höfum er staðreyndin sú að meðaltekjur eru hæstar á landinu á Vestfjörðum og þar er atvinnuleysi minna en nokkurs staðar annars staðar á landinu. Samkvæmt nýjustu tölum frá vinnumálaskrifstofu félmrn. er atvinnuleysi á Vestfjörðum 3,5% í röðum kvenna og 2,8% í röðum karla, eða að meðaltali 3,1%. Þetta eru mun lægri tölur en annars staðar á landinu. Og ef við horfum á þetta í því samhengi að vera að tryggja áframhaldandi atvinnu þá hljótum við að spyrja: Eru erfiðleikarnir mestir þarna? Eru þeir raunverulega mestir þarna?
    Ég þykist reyndar vita og hef það eftir Byggðastofnun að á Vestfjörðum eru fyrirtæki sem ramba á barmi gjaldþrots og við höfum horft þar upp á mikla erfiðleika en þegar gripið er til aðgerða eins og þeirra sem hér um ræðir hljótum við að þurfa að horfa á málið í samhengi. Raunin hefur orðið sú að eftir að þessir tveir þingmenn gengu til yfirreddarans í Stjórnarráðinu og báðu hann um aðstoð og fengu --- það reyndist vera sú félagsmálastofnun atvinnulífsins sem þeir þóttust geta leitað til --- hefur ríkisstjórnin orðið að bregðast við með þeim hætti að lofa frekari könnun á ástandinu og hugsanlega frekari aðstoð. Það er afar sérkennilegt að nálgast málin með þessum hætti. Einhverjir tveir þingmenn fara og biðja um aðstoð fyrir Vestfirðinga og hún er veitt án þess að fram fari könnun á ástandinu annars staðar á landinu. Það er rétt sem fram hefur komið að atvinnulíf er afar einhæft á Vestfjörðum og þarf þar virkilega að grípa til ráða til að auka fjölbreytnina en samkvæmt þessum tillögum, sem við erum hér með, á einungis að veita 15 millj. kr. til nýsköpunar í öðru en sjávarútvegi og 15 millj. kr. er ekki mikið. Það er meira atvinnuleysi í röðum kvenna á Vestfjörðum en karla og ég hygg að það sé ekki síst fyrir konurnar sem atvinnusköpun og nýjungar í atvinnumálum þurfa að koma fram. Ég held að það megi öllum vera ljóst að þó við förum að veiða meiri þorsk, sem vonandi verður bráðlega, þá stefnir öll tækni í þá átt að störfum fækki í fiskvinnslu í landi. Tæknin er að fækka störfunum og það eru jú konur sem vinna í miklum meiri hluta við úrvinnslu í fiskvinnslustöðvunum þannig að það er ástæða til að hafa verulegar áhyggjur af vaxandi atvinnuleysi kvenna í þeim byggðum landsins sem fyrst og fremst byggja á fiskvinnslu. Þess vegna duga engar 15 millj. til að ráða þar bót á. Mér finnst þetta sýna einmitt áherslur ríkisstjórnarinnar. Eins og ég les frv. er verið að múta bæði sveitarfélögum og fyrirtækjum. Þetta eru ekkert annað. Það er kannski ljótt orð að nota --- á ég að segja kannski gulrót? Það er verið að bjóða upp á gulrót til að sveitarfélög sameinist og til þess að fyrirtæki sameinist.
    Ég verð að taka undir það sem kom fram í máli síðasta ræðumanns að texti bæði 1. og 2. gr. er afar sérkennilegur. Í 1. gr. segir að þessar 300 millj. kr. megi veita til fyrirtækja sem ,,vilja sameinast``. Síðan á að veita aðstoð sveitarfélögum sem ,,verða sameinuð`` einhvern tíma. Sjávarútvegsfyrirtæki sem vilja sameinast, hvenær sem það verður. Þetta er lagatexti sem ekki gengur að hafa með þessum hætti.
    Það kemur fram í frv. að þessum peningum á að hluta til að verja til að létta á skuldum þeirra sveitarfélaga sem vilja sameinast. Það á sem sagt að gera þeim auðveldara að sameinast. Ég beini þeirri spurningu til hæstv. fjmrh. --- ég þurfti að víkja mér frá í umræðunum og kann að vera að spurningin hafi komið fram en ég spyr: Hverjar eru skuldir sveitarfélaganna á Vestfjörðum? Hvernig er staða sveitarfélaganna? Er hægt að ætla sem svo að þeir peningar sem hér um ræðir muni í raun breyta einhverju í stöðunni? Mér finnst þetta sannast að segja ekki vera neitt gríðarlega háar upphæðir. Hvað með skuldir sjávarútvegsfyrirtækjanna? Hversu miklar eru þær? Hvað má ætla að þessir peningar komi að miklu gagni þegar betur er að gáð? Hér er auðvitað um björgunaraðgerð að ræða en ég dreg sannast að segja mjög í efa að hún komi að tilætluðu gagni.
    Það sem ég les líka út úr þessu frv. og ég hef nefnt áður er að það er ákveðin stefnubreyting hjá ríkisstjórninni og mikil forræðishyggja á ferð. Það er verið að beita peningum til að fá fyrirtæki til að sameinast og til að fá sveitarfélög til að sameinast en íbúar sveitarfélaganna á Vestfjörðum eru því miður nýbúin að hafna sameiningu. Það sýnir okkur hvað við eigum mikið eftir í þessari umræðu. Ég held að það væri miklu eðlilegra að íbúarnir sjálfir tækju þá ákvörðun eftir ítarlega umræðu að sameina sveitarfélögin. Það er kannski svolítið erfitt fyrir okkur alla vega hér á suðvesturhorninu að skilja þá tregðu sem er á því að sameina sveitarfélög. Þó samgöngur séu erfiðar og þetta séu mismunandi svæði þá er svo augljós kostur að stækka einingarnar. Að mínum dómi er það augljós kostur en það þarf auðvitað að gerast í sátt við vilja íbúanna. Það er ekki rétt aðferð að þvinga fólk í þessu tilviki með því að lofa þeim peningum til að sameinast. Mér þykir því vera mikil forræðishyggja á ferð hjá ríkisstjórninni.
    Mín meginspurning er þessi: Hversu langt duga þessar aðgerðir og hvernig ætlar ríkisstjórnin að fylgja þeim eftir? Hvernig ætlar hún að fylgja því eftir að um raunverulega endurskipulagningu verði að ræða? Ef sjávarútvegur á Vestfjörðum, eins og svo sem víðar á landinu, á að ná sér upp úr þessum erfiðleikum þá þarf mikla endurskipulagningu. Hún hefur víða átt sér stað, sem betur fer, menn hafa mjög tekið sig á í rekstri. En við þurfum líka að spyrja um stjórnendur þessara fyrirtækja. Er verið að veita peninga til fyrirtækja sem hefur verið illa stjórnað og verður þeim eitthvað betur stjórnað með þessu sama fólki? Ég spyr. Hvað hefur verið farið djúpt ofan í orsakir þessara erfiðleika? Áður en við tökum almannafé eins og hér á að gera þarf að liggja fyrir nákvæm greining. Í fylgiskjali frv. er að vísu sagt frá helstu niðurstöðum starfshópsins sem fór ofan í þessi mál hjá Byggðastofnun en að mínum dómi þá eru þetta alls ekki nógu greinargóðar upplýsingar til að fara þess á leit við Alþingi að veita fé á þennan hátt. Við getum að vísu í efh.- og viðskn. kallað eftir frekari upplýsingum og það er alveg greinilegt að við þurfum að leggja töluverða vinnu í þetta frv. og gera textann þannig úr garði að hann sé ekki eins loðinn og nú er.
    Ég spyr að lokum, virðulegi forseti: Hver er stefna ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum? Er hún sú að grípa til neyðarráðstafana þegar allt er komið í óefni eða á að taka sig á og fara að veita fjármuni til raunverulegrar nýsköpunar? Hér gengur hæstv. iðnrh. um salinn og nýlega skilaði hópur á hans vegum frá sér skýrslu um nýsköpun í atvinnumálum. Ég hef ekki orðið vör við að þeirri skýrslu hafi verið fylgt eftir enn sem komið er en það á kannski eftir að koma í ljós. En við stöndum hérna frammi fyrir tvenns konar vandamálum. Annars vegar eru fyrirtæki landsins, því miður, flest hver í miklum erfiðleikum og hafa orðið að draga saman seglin og spurningin er hvernig hægt verður að fleyta þeim yfir erfiðleikana. Hins vegar stöndum við frammi fyrir því hvernig við ætlum að skapa vinnu í landinu til frambúðar. Hvernig við ætlum að mæta þörfum þess unga fólks og þeirra sem nú eru því miður búnir að missa atvinnuna eða í þann veginn að missa hana? Hvernig ætlum við að mæta þessum þörfum? Það eru engar patentlausnir til á þessu. Það þarf stefnumótun og stöðuga vinnu og sú vinna verður að eiga sér stað. Við verðum að taka á þessum málum en svona skammtímalausnir eins og hér er verið að bjóða ákveðnum hluta landsins upp á duga ákaflega skammt.