Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 18:31:30 (5455)


[18:31]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Það væri freistandi undir þessari umræðu um sértækar aðgerðir í atvinnumálum á Vestfjörðum að rifja upp ummæli hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. varðandi sértækar aðgerðir í atvinnumálum. (Gripið fram í.) En ég læt það liggja milli hluta, hv. þm. Stefán Guðmundsson, af sérstökum ástæðum.
    Ég lít á þetta sem fortíðarvanda þessara aðila. Þeirra sem töldu sértækar aðgerðir heyra sögunni til og gerðu orðin sjóður og sértækar aðgerðir að sérstökum skammaryrðum í eyrum þjóðarinnar. Áróðurinn var svæsinn. En allt hefur sinn tíma.
    Nú er stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar endanlega til moldar borin og farið hefur fé betra. Enda er sú stefnuyfirlýsing löngu komin að fótum fram. Á kveðjustund þessarar stefnuyfirlýsingar skulu því engin leiðindi rifjuð upp. Það er ekki venja á slíkum kveðjustundum. Hér er aðeins verið að viðurkenna staðreyndir. Það þarf að grípa til sértækra aðgerða á Vestfjörðum og fyrir þeim aðgerðum er almennur skilningur. Vonandi koma þessar aðgerðir að gagni þó í litlum mæli sé. Sértækar aðgerðir hafa oft komið að gagni og minni ég þar á Atvinnutryggingarsjóð sem kom mörgum fyrirtækjum að gagni og mörg fyrirtæki sem voru í erfiðleikum áður en sá sjóður var settur á stofn eru blómleg í dag. Í dag var minnt á eitt þeirra fyrirtækja sem fyrst fékk fyrirgreiðslu úr Atvinnutryggingarsjóði en það er Grandi. Það má telja upp fleiri fyrirtæki sem hafa blómstrað eftir að hafa notið slíkra sértækra aðgerða sem þá voru ákveðnar.

    Í frv. sem hér er til umræðu eru mjög ströng skilyrði fyrir fyrirgreiðslu fyrirtækja og sveitarfélaga. Annars vegar er sveitarfélögum gert að sameinast og hins vegar er fyrirtækjum gert að sameinast, ef þessi fyrirgreiðsla á að fást. Ekki er að efa að sú nefnd sem skipuð var til að kanna þessi atvinnumál á Vestfjörðum hefur farið mjög ofan í saumana á þessum málum og skoðað þá möguleika sem eru varðandi sameiningu bæði fyrirtækja og sveitarfélaga. En við hljótum að spyrja okkur: Skekkir þetta ekki samkeppnisstöðu þeirra fyrirtækja sem ekki hafa möguleika á að sameinast? Ég býst við að það verði mjög erfitt að fullnægja þeim skilyrðum sem sett eru í þessu frv., þannig að þetta kemur afar fáum fyrirtækjum til góða.
    Því miður eru Vestfirðir ekki einir um þá erfiðleika sem hér hefur verið rætt um í dag. Hæstv. fjmrh. sagði fyrr í dag að þingmenn skoðuðu í eigin barm þegar þeir sæju frv. eins og þetta sem hér er til umræðu og þá átti hann eflaust við að þingmenn skoðuðu sitt eigið kjördæmi. Það gerði ég að sjálfsögðu eins og trúlega allir þingmenn.
    Það vill svoleiðis til að í Vesturlandskjördæmi hafa sveitarfélög verið að sameinast. Ef ég tek sveitarfélag sem er mjög líkt því mynstri sem er á Vestfjörðum þá sameinuðust í haust fjögur sveitarfélög á Snæfellsnesi, þ.e. Breiðavíkurhreppur, Staðarsveit, Neshreppur utan Ennis og Ólafsvík og Byggðastofnun var falið að gera úttekt á atvinnutækifærum í þessu nýja sveitarfélagi. Það var í nóvember á sama tíma og þessi athugun fór af stað á Vestfjörðum. Þessari athugun er því miður ekki alveg lokið en það sem er nú þegar komið út úr henni sýnir að þetta er mjög svipað ástand. Þarna lifa menn að mestu á þorskveiðum og landbúnaði. Báðar þessar atvinnugreinar eiga í mjög miklum erfiðleikum og nú horfir svo við að þorskkvótinn er að verða búinn. Þannig að ég sem þingmaður Vestlendinga hlýt að líta svo á að þær aðgerðir sem verða ákveðnar í Vestfjarðakjördæmi gangi líka yfir Vesturlandskjördæmi og er ég þá sérstaklega að tala um þetta sameinaða sveitarfélag sem er einmitt það mynstur sem er um rætt í frv.
    En mig langar að ræða áfram svolítið um sameiningu fyrirtækja sem ég tel að sé illa útfært í þessu frv. og maður spyr sig hvort raunveruleikinn sé virkilega sá að það þurfi að koma menn að frá ráðuneytum í Reykjavík og Byggðastofnun til að segja stjórnendum fyrirtækja að það sé hagkvæmt að sameinast. Er verið að segja okkur með þessu að stjórnendur fyrirtækja á Vestfjörðum hafi ekki púlsinn á því sem þeir eru með í kringum sig?
    Fjmrh. sagði fyrr í dag í ræðu sinni að ríkisstjórninni hefði tekist að koma á prýðilegum rekstrargrundvelli varðandi ýmis fyrirtæki með almennum aðgerðum. Hann talaði sérstaklega um vaxtalækkun í því sambandi. Ég held að hann hljóti að hafa mismælt sig því við vitum öll hvert vaxtastigið er hér í landinu og það er ekkert eitt sem gerir fyrirtækjum jafnerfitt fyrir og það vaxtastig sem er hér í landinu. Hann taldi mjög fjálglega áðan ýmsar almennar aðgerðir sem hafi komið fyrirtækjum vel, en hann gleymdi líka að telja upp það sem hefði komið í staðinn í hækkunum. Tökum orkuna. Orkan hækkaði með virðisaukaskattinum, orkuverð hefur hækkað á þessum stöðum úti á landi og það er mikið misræmi í orkuverði úti á landi miðað við Reykjavíkursvæðið. ( Gripið fram í: Ekki til fyrirtækjanna.) Ef hann lýtur á orkureikninga núna á milli ára þá getur hann séð þessar hækkanir, hæstv. ráðherra. Hafnagjöldin hafa hækkað, tryggingagjöldin hafa hækkað og ef þetta er allt lagt saman með háum vöxtum . . .  ( StG: Eftirlits- og skoðunargjöld.) Hv. þm. Stefán Guðmundsson minnir mig hér á einn póstinn enn, eftirlits- og skoðunargjöld, þó það sé ekki stór póstur þá bætist hann við. Ef allt þetta væri lagt saman, auk vaxtastigsins sem hefur verið á tímanum, þá held ég að almenn skilyrði séu mjög slæm. Hæstv. ráðherra sagði líka að almennar aðgerðir mundu koma fyrirtækjum í sjávarútvegi til góða og þá talaði hann sérstaklega um Þróunarsjóðinn. En ef maður skoðar frv. um Þróunarsjóðinn þá eru þetta svo litlir peningar, hæstv. fjmrh., það eru svo litlir peningar þarna að þetta mun koma mjög fáum til góða, því miður. En það sem okkur vantar er stefna í sjávarútvegsmálum, eftir henni höfum við beðið allt þetta kjörtímabil og á því stendur.
    Það eru margar spurningar sem ég vildi leggja fyrir hæstv. fjmrh. En mig langar samt áður en ég geri það að ræða svolítið við hæstv. sjútvrh., ef hann er ekki farinn. ( KHG: Þetta er byggðamál sagði hann.) Virðulegi forseti, er sjútvrh. hér á svæðinu?
    ( Forseti: (StB) : Forseti mun láta kanna það hvort hæstv. sjútvrh. getur komið í salinn.)
    ( Gripið fram í: Hann er farinn úr húsinu.) Hér koma upplýsingar um að hæstv. sjútvrh. sé farinn úr húsinu. Það er nú slæmt vegna þess að hann vitnaði hér í andsvari áðan við hv. 2. þm. Austurl. í plagg sem hann sagði að væri almenn heildarúttekt á sjávarútvegi á öllu landinu og það væri frá Þjóðhagsstofnun og í hólfum allra þingmanna. Ef hv. þm. eru ekki þegar búnir að kíkja á þetta plagg frá Þjóðhagsstofnun þá er þetta heildarplagg tvær síður. Það segir auðvitað ekki alla söguna en það sem segir alla söguna er það sem stendur í þessu bréfi frá Þjóðhagsstofnun og ég vil fá að lesa það, með leyfi hæstv. forseta:
    Bréfið er svohljóðandi: ,,Til Þorsteins Pálssonar sjútvrh., frá Þjóðhagsstofnun.
    Efni: Lauslegar áætlanir um hag sjávarútvegs eftir landshlutum.
    Hér með fylgja samkvæmt umtali lauslegar áætlanir um hag sjávarútvegs eftir landshlutum.
    Það liggur í hlutarins eðli að líta ber á útreikninga af þessu tagi sem vísbendingar en ekki nákvæmar niðurstöður. Því meira sem úrtaki er skipt niður þeim mun óvissari verða niðurstöðurnar.
    Samkvæmt þessum útreikningum er hagur sjávarútvegs mjög mismunandi eftir landshlutum. Eigið fé fyrirtækja (eiginfjárhlutfall) er minnst á Suðurlandi og Vesturlandi en mest á Norðurlandi eystra. Afkoman er hins vegar lökust á Vesturlandi og Vestfjörðum en best á Norðurlandi vestra.``
    Þetta er nú þessi heildarendurskoðun á sjávarútvegsfyrirtækjum. Ef við tökum svo þessar niðurstöður um eigið fé fyrirtækjanna, hvernig það hefur breyst á milli ára, þá er eigið fé sjávarútvegsfyrirtækja í Reykjavík árið 1992 20,2% en er aftur á móti orðið 16,4% árið 1994. Á Vesturlandi var það 13,6% árið 1992 og er 8,2% árið 1994. Á Vestfjörðum var eigið fé fyrirtækja 18,1% en er komið niður í 12% árið 1994. Á Norðurlandi vestra 16,4% er 17,7% 1994. --- Þarna hafa þeir bætt við sig. --- Norðurland eystra er með eigið fé í sjávarútvegsfyrirtækjum árið 1992 21,8% en er komið niður í 21,2% 1994. Austurland 19,1% er í 20,8% 1994. Suðurland 11,8% en er komið niður í 4,6% árið 1994.
    Þetta eru niðurstöðurnar en auðvitað eru þetta ekki neinar heildarniðurstöður, þetta er gróf samlagning og ágætt að hafa til hliðsjónar. En þó maður líti jákvætt á frv. sem hér liggur fyrir þá er margt við það að athuga sem verður gert á milli umræðna. En mig langar að spyrja hæstv. fjmrh.: Hvernig hyggst hann láta vinna úttektir, sem þegar er búið að lofa, á öðrum byggðarlögum? Hvernig á að afla lagaheimilda varðandi þær tillögur sem út úr þeim rannsóknum koma? Mig langar að spyrja: Verða þær lagaheimildir þá lagðar fram jafnhliða því að frv. sem hér liggur fyrir verður afgreitt sem lög?
    Mig langar einnig að spyrja að því, ef sveitarfélög á Vestfjörðum sem sameinast eiga að fá 200 millj. kr. til að sameinast gildir þetta þá ekki um önnur sveitarfélög sem sameinast eftir að þessi ákvörðun er tekin?