Tollalög og vörugjald

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 19:22:55 (5472)


[19:22]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil fyrst segja það vegna þessarar löngu viku sem hv. þm. minntist á að ástæðan fyrir því að málið hefur dregist er að það þarf að finna endurgreiðslunni farveg og mér sýnist að það verði að gera ráð fyrir því að Rannsóknastofnun landbúnaðarins aðstoði við það hvernig fara skuli að við endurgreiðsluna. Það er hreint ekkert einfalt mál. Það er hins vegar bót í máli að lögunum er ætlað að taka gildi með þeim hætti að tollar og vörugjöld sem greidd hafa verið á þessu ári frá áramótum munu verða endurgreidd.
    Ég get ekkert sagt um samkeppnisstöðuna gagnvart innflutningi. Þó er það þannig að aðeins hluti af framleiðslu íslenskra garðyrkjubænda er í samkeppni við innflutning. Það er mjög erfitt að reikna þetta út. Mér er þó ljóst að orkan er hér tiltölulega dýr og auðvitað getur íslensk orka, þótt ódýr sé miðað við margt annað, ekki keppt við sólarljós suðlægari þjóða. Ég get þess vegna ekki svarað fyrirspurninni. Það má vera að þessi úttekt sé til í landbrn. og þá getur hv. nefnd kallað eftir henni.
    Loks vil ég einungis segja það að ef um niðurgreiðslur er að ræða þá á að vera hægt að beita jöfnunartollum en einmitt í dag fjallaði ríkisstjórnin um reglugerð um jöfnunartolla sem mætti grípa til ef um er að ræða opinbera styrki eða niðurgreiðslur af hálfu ríkis og annarra opinberra aðila.