Tollalög og vörugjald

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 19:27:00 (5474)


[19:27]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi vil ég að það komi skýrt fram að það er ekki rétt sem hv. þm. giskaði á að ekkert hefði verið farið að hugsa um þetta mál í upphafi þessa árs. Strax í fyrrasumar og sérstaklega í fyrrahaust fóru mjög ítarlegar viðræður fram á milli ráðuneytanna um málið og þótt þetta frv. láti lítið yfir sér þá er það svo að þetta mál er ekkert einfalt. Og það er ekkert einfalt m.a. vegna þess að aðföngin eru almennar vörur, sem eru notaðar hvar sem er, og samkeppnin við innflutning er ekki fullkomin. Ýmsar vörur sem framleiddar eru í gróðurhúsum hér á landi eru ekki í samkeppni allt árið við innflutning. Það verðum við að hafa í huga. Þannig að málið er ekki einfalt. Þetta mál gekk heldur hægar en við vildum en við teljum okkur hafa nú fundið lausn.
    Í öðru lagi vil ég taka það fram að það eru ekki jöfnunargjöld sem yrðu lögð á samkeppnisvörur heldur jöfnunartollar. Og til að hægt sé að leggja á jöfnunartolla þarf að sanna tjón sem viðkomandi aðili hefur orðið fyrir. Það sem ég sagði áðan í minni andsvarsræðu var að í dag hefði ríkisstjórnin fjallað um bæði lagabreytingar og reglugerðardrög sem varða það mál og geta styrkt stöðu ráðuneytanna en til þess að hægt sé að grípa til slíkra aðgerða verður innlendur aðili, sem í hlut á, að gefa sig fram og geta sýnt fram á að hann hafi borið fjárhagslegt tap af slíkum samkeppnisaðferðum sem byggja á niðurgreiðslum annarra ríkja til útflutnings.