Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 20:01:42 (5482)


[20:01]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Þar sem hv. þm. verður ekki hér í kvöld skal ég reyna að segja örfá orð um þær fyrirspurnir sem hann beindi til mín.
    Í fyrsta lagi vegna samkeppnisstöðu þessara fyrirtækja, þá hygg ég að það sé óþarfi að hafa áhyggjur af því. Auðvitað geta áhrif orðið einhver en þessar aðgerðir miða fyrst og fremst að því að halda lífi í ákveðnum fyrirtækjum og brúa bil þar til aftur lifnar yfir atvinnulífinu á nýjan leik vegna væntanlegrar þorskgengdar sem verður einhvern tíma á næstu árum.
    Í öðru lagi um skilgreininguna, þá er það rétt sem hv. þm. ýjaði að að áherslan lá meira á þorskígildisaflaheimildum heldur en ráðstöfun á afla á svæðinu. Það er rétt hjá honum. En til viðbótar kemur að sjálfsögðu afkoman sem er verri í sjávarútvegsfyrirtækjum á Vestfjörðum heldur en annars staðar og hefur versnað mun meira heldur en í öðrum kjördæmum eins og hæstv. sjútvrh. gat um áðan.
    Önnur atriði sem starfshópurinn notaði voru einhæfara atvinnulíf, hlutfall af ársverkum er miklu hærra á Vestfjörðum, íbúum hefur fækkað meira en annars staðar, um er að ræða landfræðilega einangrun og fjárhagsstaða þéttbýlissveitarfélaga er mjög slæm.
    Vegna atvinnuleysis á Akureyri m.a. vil ég segja það að hér er ekki um að ræða aðgerð til að bregðast við núverandi atvinnuleysi á Vestfjörðum heldur er verið að bregðast við því að það getur farið svo að byggðin hrynji. Og ef það gerist, þá verður atvinnuleysi ekki 10 eða 20% heldur kannski 50--60%.
    Ég vil að lokum geta þess, eins og hv. þm. veit, að ríkið hefur auðvitað styrkt fyrirtæki á Akureyri. Ég nefni Slippstöðina Odda. Ég veit að ríkið hefur komið nálægt Foldu þó að það sé ekki í stórum stíl og í þriðja lagi veit ég ekki betur en hæstv. landbrh. hafi horft til skinnaiðnaðarins þegar blés mest á móti.