Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 21:28:46 (5494)


[21:28]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Það er mjög mikilvægt í þessari umræðu að þeir hv. þm. sem hér hafa dregið í efa að það hafi verið tekið á hinum almennu rekstrarskilyrðum í sjávarútveginum geri sér fulla grein fyrir því að ummæli af því tagi eru á misskilningi byggð. Þvert á móti höfum við náð meiri árangri en um langan tíma í að styrkja sjávarútveginn einmitt með slíkum aðgerðum og þær eru að skila árangri og samkeppnisstaðan er betri en í annan tíma. Sjávarútvegsfyrirtæki leita víða fanga. Bæði höfum við sótt í auknum mæli út fyrir okkar lögsögu. Fyrirtæki hafa leitað eftir kaupum á hráefni, stjórnvöld munu reyna að greiða fyrir því eins og kostur er ef áhugi er á því, sem ég reikna með að sé fyrir hendi. Kaup á aflaheimildum erlendis frá liggja nú ekki alveg á lausu en stjórnvöld eru að sjálfsögðu reiðubúin að greiða fyrir því fyrir sitt leyti. Að hinu leytinu þá held ég að sjávarútvegurinn sjálfur hljóti auðvitað að standa undir kaupum á aflaheimildum ef til þeirra kemur. En ég legg svo á það ríka áherslu eins og kom fram í máli hv. 4. þm. Norðurl. v., að það skiptir auðvitað máli að festa sé í fiskveiðistjórnunarkerfinu og vil ítreka að um það er samkomulag að halda áfram í grundvallaratriðum með það fiskveiðistjórnunarkerfi sem verið hefur við lýði og skapað hefur skilyrði fyrir sjávarútveginn að stórbæta afkomu sína og auka framleiðni í atvinnugreininni. Það eru engin áform uppi um annað og alveg út í bláinn að halda því fram að einhver óvissa sé í því efni þó að menn greini á um einstök framkvæmdaratriði eða hvar brýnast er að leiðrétta eða laga þau lög sem í gildi eru.