Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 21:58:17 (5503)


[21:58]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :

    Virðulegur forseti. Mér finnst hv. 3. þm. Suðurl. gera of mikið úr þeim vanda sem hefur myndast vegna þess að menn hafa verið að úthluta veiðiheimildum sem hafa ekki náðst. Það er að vísu ákveðinn hluti en ekki nema mjög lítill hluti af þeirri jöfnun sem við erum að tala hér um. Það sem ég var að tala um var að þorskveiðiheimildum hefði verið úthlutað þannig að meira hefði komið af viðbótunum, sem ákveðið var að veita í þorski, til þeirra sem urðu fyrir mestri skerðingu og síðan Hagræðingarsjóðshluturinn til viðbótar. Þannig hefði verið auðvelt að jafna þessu út. Það hefði síðan lent alla vega niður og það hlýtur hv. þm. að vita. Það kom alla vega niður á flotanum hvað veiddist mikið af ýsunni. Það fer ekkert endilega eftir því hvað menn hafa orðið fyrir miklum skerðingum í þorski eða fengið viðbætur í öðrum tegundum hvað þeir hafa náð af þeirri ýsu sem þeim hefur verið úthlutað. Það þýðir því ekki að setja nein samasemmerki þarna á milli eins og mér virðist hv. þm. gera. Það er engin spurning um að það var hægt að gera þetta með þessum hætti. Það sem stóð í vegi fyrir því að þetta yrði gert var það sem ég var að lýsa hér áðan, því miður. Við erum að missa yfirráðin yfir auðlindinni. Við fáum ekki stjórnvöld í landinu til þess að stjórna fiskveiðum með hagkvæmni heildarinnar í huga. Það verður að horfa á ígildi eignarréttar útgerðaraðilanna á auðlindinni. Þannig hugsa menn orðið í dag, því miður.