Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 23:29:39 (5536)


[23:29]
     Jón Helgason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil ítreka það að ég styð þessar aðgerðir til stuðnings atvinnulífi á Vestfjörðum og það er ekki til að draga úr því sem ég er að bera fram þessar spurningar. En ég vil vekja athygli hæstv. fjmrh. á því að það er aðeins liðið á þriðja mánuð af þessu ári þannig að þó fjórir mánuðir bætist við þá er árið ekki nema rétt rúmlega hálfnað þegar úttekt gæti verið lokið annars staðar með sama hraða. Reyndar ætti hún að geta tekið styttri tíma þar sem það hlýtur að vera hægara að styðjast við þá vinnu sem búið er að leggja í við úttektina á Vestfjörðum og hagnýta sér hana við vinnubrögð annars staðar. En ég vonast til að þessi setning þarna í samþykkt ríkisstjórnarinnar sé ekki til þess eins að vekja tálvonir hjá öðrum heldur standi raunverulegur vilji þar á bak við.