Héraðsskógar

116. fundur
Miðvikudaginn 23. mars 1994, kl. 14:10:08 (5572)


[14:10]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Samkvæmt gildandi lögum um Héraðsskóga, nr. 32 21. mars 1991, er ákvæði um að landbrh. skuli láta fara fram endurskoðun á lögum þessum og leggja fram frv. til laga um Héraðsskóga fyrir Alþingi haustið 1992. Frumvarp það sem hér liggur fyrir er flutt til að uppfylla þá skyldu, þó seint sé, en því veldur að ekki varð samkomulag um efni frv. á sínum tíma í ríkisstjórn. Það er ástæðan fyrir þeim drætti sem orðið hefur á framlagningu frv.
    Við endurskoðun laganna á vegum landbúnaðarráðuneytisins er aðeins lögð til breyting á einni grein laganna, þ.e. 4. gr. þeirra sem kveður á um greiðslu ríkissjóðs á 97% samþykkts kostnaðar við skógrækt á jörðum í ábúð og 75% samþykkts kostnaðar á eyðijörðum. Benda má á að aðeins er liðinn skammur tími frá gildistöku laganna og því hefur takmörkuð reynsla fengist af framkvæmd þeirra. Þó hefur komið í ljós að eyðijarðir verða á sinn hátt út undan nær eingöngu vegna þess að landeigendur hafa ekki fjárhagslegt bolmagn til að ráðast í framkvæmdir á jörðum sínum. Á samfelldum skógræktarsvæðum margra jarða getur það leitt til verulegs skaða ef einstakar jarðir falla út og eyður verða í skógunum. Því er talin brýn nauðsyn á að tryggja framgang verksins, einnig á eyðijörðum. Oft er um að ræða jarðir sem eru þær ákjósanlegustu til skógræktar í viðkomandi sveit.
    Umhverfissjónarmið mæla með samfelldum skógi þar sem hann skapar heildstæðari og náttúrulegri mynd en skógarreitir á bújörðum með eyðum inn á milli. Samfelldur skógur stuðlar auk þess að betri nýtingu á landi sem annars er ónýtt. Þar að auki minnka jaðaráhrif verulega en í jöðrum skóga mót opnu landi eru skemmdir af völdum snjóa og vinda mjög miklar.
    Þá má benda á að skv. 6. gr. gildandi laga er bændum, sem eru þátttakendur í verkefninu, tryggður forgangur til atvinnu sem gengur framar landeigendum eyðijarða. Vinna við skógrækt á eyðijörðum væri því til þess fallin að auka atvinnu í þessum sveitum.
    Umsögn liggur fyrir frá fjmrn. og þar kemur fram að þessi lagabreyting muni ekki hafa kostnaðarauka í för með sér fyrir ríkissjóð. Ég legg til, hæstv. forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og landbn.