Flugmálaáætlun 1994--1997

118. fundur
Fimmtudaginn 24. mars 1994, kl. 14:27:02 (5641)


[14:27]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Um Sveinseyrarflugvöll er það að segja að þar hafa rannsóknir farið fram. Það er ekkert sem er því til fyrirstöðu að þar verði lagður flugvöllur. Að svo komnu máli virðist sú leið opin og annað er ekki af því máli að frétta.
    Ég sé ástæðu til þess, hæstv. forseti, fyrst að víkja nokkuð máli mínu að því sem hv. þm. Stefán Guðmundsson, hv. 4. þm. Norðurl. v. sagði hér áðan. Það er auðvitað álitamál hvernig maður á að horfa á það hvort eitthvert kjördæmi sitji eftir í sambandi við framlög til flugvallagerðar. Ef við berum saman flugvellina á Norðurlandi, fyrir vestan og austan Tröllaskaga, þá eru tveir áætlunarflugvellir þar fyrir vestan, en sjö þar fyrir austan. ( StG: En í Norðurl. e.?) Og ef maður tekur Akureyri út úr dæminu og ber saman Sauðárkrók og Húsavík þá er gert ráð fyrir því að verja jafnmiklu fé á þessu áætlunartímabili til Sauðárkróks og Húsavíkur, en sá er munurinn á að hugmyndin er að leggja bundið slitlag á völlinn á Húsavík á þessu ári en ekki fyrr en á því næsta á Sauðárkróki. Fyrir því eru þau rök að mikil aurbleyta hefur verið á vellinum á Húsavík sem gerir það óhjákvæmilegt að bregðast við og flýtir fyrir þeirri framkvæmd, sem er raunar sama ástæðan og er fyrir því að það verður lagt bundið slitlag á Siglufjarðarflugvöll nú á þessu ári og sú framkvæmd tekin fram fyrir.
    Og nú skulum við bera saman, Húsavík og Sauðárkrókur, upp á krónu sama fjárhæð. Síðan skulum við bera saman fimm áætlunarflugvelli í Norðurl. e., Grímsey, Þórshöfn, Mývatn, Kópasker og Raufarhöfn og hins vegar einn áætlunarflugvöll í Norðurl. v. sem er Siglufjörður. Á öllu áætlunartímabilinu á að verja 43 millj. kr. til Siglufjarðar, 11 millj. kr. til Grímseyjar, 23 millj. til Þórshafnar, 16 millj. kr. til Mývatns, ekki krónu til Kópaskers og ekki krónu til Raufarhafnar. Á þessa fimm flugvelli samtals 50 millj. kr. Ef við berum saman Siglufjörð á þessu ári þá á að verja þangað 33 millj. kr., en samtals 15 millj. á fimm flugvelli í Norðurl. e. Ef við berum saman mannfjölda í Norðurl. e. og mannfjölda í Norðurl. v., þá kemur það líka út úr dæminu að það eru eitthvað fleiri íbúar austan Tröllaskaga heldur en vestan. Þannig að við getum ekki sagt og það eru engin rök fyrir því að með þessu frv. sé sérstaklega verið að níðast á Norðlendingum vestri og heldur ekki rök fyrir því að verið sé að níðast á Norðlendingum eystri.
    Ástæðan fyrir því --- og ég tók eftir því í máli sumra þingmanna að það var rætt ýmist um að það yrði unnt að veita fjármagn á næstu árum á færri staði eða fjármagnið hefði ekki farið nógu víða á síðustu árum. Fyrir því eru þær eðlilegu ástæður að það var tekin ákvörðun um það, sennilega árið 1987, að byggja alþjóðlegan flugvöll á Egilsstöðum sem kostar um einn milljarð kr. Þessir fjármunir hafa allir verið teknir af flugmálaáætlun og það hefur auðvitað valdið því að við höfum getað ráðstafað minna fé til annarra staða. Það er augljóst þar sem heildarfjármagnið er innan við 400 millj. kr. Með sama hætti hefur verið tekin ákvörðun og var óhjákvæmilegt að við reistum hér flugstjórnarmiðstöð fyrir Norður-Atlantshafsflugið ef við ætluðum að halda því hér á landi. Og það var tekin ákvörðun um það, sem má kannski deila um, en sú ákvörðun var tekin að minni tillögu, að flugmálaáætlun skyldi fjármagna hlut okkar Íslendinga, sem auðvitað hefur líka tekið fjármuni frá öðru verkefni. Það setur líka svip sinn á flugmálaáætlun og er skýringin á því hversu, ég vil segja, ýmsir flugvellir úti um landsbyggðina eru illa komnir. Að síðustu vil ég halda því fram að framkvæmdir samkvæmt flugmálaáætlun á síðasta áratug hafi verið margar hverjar hæpnar og ekki nægilega vel grundaðar, eins og við sjáum á því að við höfum verið að leggja niður áætlunarflugvelli með miklum og glæsilegum mannvirkjum þar sem átti að vera fyrirsjáanlegt að ekki yrði um áætlunarflug til framtíðar að ræða. Afleiðingin af þessu er svo sú að við erum skemmra komin með ýmsa flugvelli á fjarlægustu stöðunum en við hefðum kosið.
    Það má velta því fyrir sér hvort það sé eðlilegt, eins og hér var spurt áðan, að gera hvort tveggja að leggja bundið slitlag á þessu ári á Bíldudal og á næsta ári á Patreksfirði. Þetta eru ekki átakanlega fjárfrekar framkvæmdir. Bundið slitlag kostar alls 30 millj. kr. á Bíldudal og 50 millj. kr. á Patreksfirði. Það er spurt hvort ekki sé hægt að leysa þetta með einum flugvelli í staðinn þar sem þessir flugvellir eiga að nýtast byggðunum báðir saman. Það er því miður ekki hægt að koma við þverbraut hvorki á Bíldudal né á Patreksfirði eftir þeim upplýsingum sem ég hef. Á hinn bóginn skulum við minnast þess að þarna er um nokkurt fjölmenni að ræða. Við erum að tala um 1.700 manns eða 1.800 manns eða eitthvað svoleiðis, eins og ég man það. Rétt ríflega 1.000 manns á Patreksfirði, er það ekki? Ætli það sé ekki rétt inna við 1.000 manns í öðrum byggðum á þessum slóðum svo og á suðurfjörðunum? Þannig að við erum að tala um rétt um 2.000 manns. Fólk sem ekki nýtur vegasamgangna yfir vetrarmánuðina af því að Barðaströndin er lokuð og það verður að fara með Baldri. Og það er af þeim sökum sem við höfum lagt áherslu á að reyna að láta þessa flugvelli báðum megin vinna saman þó svo að þeir séu --- hvað eigum við að segja --- öfugu megin við byggðina ef við horfum til Patreksfjarðar annars vegar og Bíldudals hins vegar. Ég held þess vegna að þetta sé skynsamlegur kostur.
    Hitt er misskilningur og má kannski leiða hann af þeim orðum sem ég sagði áðan, að það sé ofarlega í mínum huga að leggja niður flugvöllinn í Önundarfirði, Holtsflugvöll. Það er nú ekki beint þannig, það er hinsegin, að þegar göngin koma þá er búist við því að áætlunarflugið færist yfir á Ísafjörð og til Þingeyrar og það verði fullnægjandi og af þeim sökum muni Holtsflugvöllur ekki nýtast. Þetta er raunar líka skoðun Íslandsflugsmanna og allra sem að þessu máli koma.
    Það hefur farið svo fyrir ýmsum áætlunarflugvöllum að þeir hafa breyst í svokallaða lendingarstaði. Ólafsfjörður er gott dæmi um það í mínu kjördæmi og ekkert við því að segja, samgöngur breytast og þó minna tilefni sé til en jarðgöng, sem raunar á við um þessa staði báða og alla, Súgandafjörð, Önunarfjörð og Ólafsfjörð. Súgandafjarðarflugvöllurinn --- mig hafði nú lengi dreymt um það að fá að lenda á þeim flugvelli og athuga hvernig væri að láta hjartað hoppa í brjóstinu á sér af hræðslu. Það kom nú aldrei til þess. En mér þykir flugvöllurinn allsvakalegur þar sem hann er upp í fjallshlíðinni og ég held að það hljóti að vera feiknalega mikil neyðartilvik ef menn kjósa heldur að fara um þann flugvöll heldur en í gegnum þau göng sem til allra hamingju er hægt að komast í gegnum núna. Þannig að það er nú mín skoðun á því og ég held að menn muni reyna frekar við göngin eins og nú er komið heldur en flugvöllinn. Um þetta hefur ekki verið neinn ágreiningur svo mér sé kunnugt á milli sveitarstjórnar Suðureyrar og Flugmálastjórnar og þekki ég ekki neinar óskir í því sambandi.
    Ég var spurður þess hvaða munur væri á þjónustuvöllum og lendingarstöðum. Á bls. 15 eru flugvellir flokkaðir eins og hv. þm. er kunnugt. Þegar talað er um þjónustuvelli og lendingarstaði þá er munurinn eingöngu sá að þjónustuvellirnir eru oft og kannski oftast fyrrverandi áætlunarflugvellir og þar er haldið uppi meiri þjónustu og þar er meiri viðbúnaður heldur en á lendingarstöðunum. Þar er meira um leiguflug og atvinnuflug. Þetta er munurinn. Það er ekki um það að ræða að endurskoða lög í því sambandi og ég hygg að Flugmálastjórn eftir efnum og ástæðum og eftir því sem fjárveitingar leyfa reyni að veita eins góða þjónustu og hægt er að þessu leyti. Það væri auðvitað mjög æskilegt ef sveitarfélögin kæmu sterkari inn í eftirlit og rekstur slíkra flugvalla en verið hefur, en samkvæmt sveitarstjórnarlögum og lögum um tekjustofna sveitarfélaga er á hinn bóginn ekki um neina sérstaka tekjustofna að ræða í því skyni. Og þó umræður um þetta séu í gangi á milli Flugmálastjórnar og einstakra sveitarfélaga hafa þær ekki komist á formlegan grundvöll.
    Mér skilst að á Hornströndum sé aðallega lent í fjörunni og það sé annar og máttugri maður heldur en flugmálastjóri sem sjái um að jafna og slétta þá flugvelli sem þar eru. Sá heitir Ægir og ég á erfitt með að ná samkomulagi við hann um samvinnu á þessu sviði. ( Gripið fram í: Er hann ekki í Sjálfstfl.?)
    Ég var spurður um Norðfjörð. Það hafa komið fram ábendingar um það frá Norðfirði hvort hægt sé að klæða endana bundnu slitlagi. Mér skilst að hér sé um framkvæmdir að tefla sem kosta kannski 2 millj. kr. og það sé allt í góðum gangi milli Flugmálastjórnar og bæjarstjórnar Norðfjarðar. Ástæðan fyrir því að ekki var gert ráð fyrir að leggja bundið slitlag á flugvöllinn á Þórshöfn er einfaldlega sú að fjármunir eru ekki fyrir hendi. Það væri gaman að geta gert það í sínu eigin kjördæmi en það er nú þannig metið að aðrar framkvæmdir séu brýnni.
    Að síðustu út af því hvort ástæða sé til að styrkja undirstöðu þeirra flugvalla þar sem nú á að leggja bundið slitlag meira en ella hafði verið fyrirhugað eða hvort rétt sé að undirbúa gerð nýrra mikilla flugvalla með millilandaflug fyrir augum vil ég aðeins segja það, og þá er verið að tala um fiskflutninga, að Egilsstaðaflugvöllur kostar eitthvað um milljarð. Þotur geta einnig lent á Akureyri, Reykjavík og Keflavík og það verður að vera feiknaleg arðsemi af fiskflutningum ef þeir eiga að borga milljarð í stofnkostnaði. Ég held því að það yrði offjárfesting af heldur verra taginu ef við færum út í slíka hluti að byggja millilandaflugvöll með þeim rökum. Það er rétt sem hv. 4. þm. Norðurl. v., Stefán Guðmundsson, sagði um þau efni að það verður að líta á samgöngumálin í heild sinni.
    Það er auðvitað alveg rétt sem hefur verið sagt um þessa flugmálaáætlun, hún er njörvuð niður eins og tölurnar gefa tilefni til og skýra. Á hinn bóginn koma þingflokkarnir allir að gerð flugmálaáætlunar nema Framsfl. í flugráði. Það er því ekki rétt að þetta mál eigi þess vegna að vera ókunnugt þingmönnum.
    Ég verð líka að segja að allra síst getur Framsfl. farið að halla á mig fyrir það þó hann hafi samið svo á síðasta kjörtímabili að hann í fyrsta skipti í sögunni eigi engan fulltrúa í flugráði og ekki heldur varafulltrúa. Allra síst við mig að sakast um þau efni. En þingmenn eiga fulltrúa í flugráði. Þar á sæti formaður fjárln. m.a. Auðvitað hlýtur áætlun af þessu tagi að vera unnin á ábyrgð samgrh. sem ber ábyrgð á stefnunni og hlýtur að leggja hana fyrir þingið hverju sinni.