Flugmálaáætlun 1994--1997

118. fundur
Fimmtudaginn 24. mars 1994, kl. 14:49:17 (5645)



[14:49]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :

    Hæstv. forseti. Það er nú gott að sjá og heyra að það liggur vel á hv. þm. Það er fyrst um Sveinseyrarflugvöll að segja að flugmálastjóri hefur skýrt mér frá því að ekki er við því að búast að niðurstaða rannsókna geti legið fyrir fyrr en í lok þessa árs í fyrsta lagi, kannski í byrjun næsta árs. Ég veit að flugmálastjóri mun veita hv. þm. þær upplýsingar um þessi efni sem hann óskar eftir.
    Um hið síðara atriði er það rétt að ég man ekki eftir því að á þingnefndarfundi hafi verið óskað eftir að gögn sem ganga frá Flugmálastjórn til ráðherra séu gerð opinber með þessum hætti á fundi. Flugmálastjórn er auðvitað ráðgefandi stofnun fyrir samgrh. Á hinn bóginn býst ég við því að þeir þingmenn sem þar eiga sæti skýri samþingmönnum sínum frá því sem þar hefur gerst. ( StG: Kannast hæstv. ráðherrann ekki við vinnu að gerð vegáætlunar?) Ég hef nú verið skammaður fyrir það að ég sé mikill einræðisherra í sambandi við vegamálin og sagt að ég brjóti þar lög. Það má vel vera að samstarf samgrn. og samgn. eftir þingsköpin hafi ekki þroskast sem skyldi, hafi ekki verið mótað. Ég skal taka það mál upp við formann nefndarinnar hvort ástæða sé til að samgrn. efni til fundar með samgn. um það hvernig vinnubrögðum skuli háttað.