Flugmálaáætlun 1994--1997

118. fundur
Fimmtudaginn 24. mars 1994, kl. 14:51:10 (5646)


[14:51]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra taldi aðeins vera um fjöruna að ræða sem lendingarstað á Hornströndum. Það er ekki alveg rétt hjá hæstv. ráðherra. Að vísu er í Fljótavík lent í sandfjöru en í Reykjafirði við Geirólfsgnúp hefur verið lagður flugvöllur og hann er ekki í fjöru, hann er uppi á landi. Það hafa landeigendur gert og sá flugvöllur er mikið notaður af ferðamönnum og talsvert mikið notaður fyrir leiguflug einnig yfir sumarið. Ég held að það þurfi að skoða lendingarmál á Hornströndum, sérstaklega með tilliti til öryggissjónarmiða. Það er jú vaxandi ferðamannaumferð um þetta svæði.
    Ég skil það ósköp vel þó að ráðherrann sé mikill kraftaverkamaður, hann átti m.a. þátt í því að sprengja göt í gegnum fjöll þar sem mér er sagt að Kári hafi tekið vel á móti honum með miklum gusti, þá skil ég það að hann eigi líklega dálítið eftir enn þá með það að semja við Ægi konung.