Flugmálaáætlun 1994--1997

118. fundur
Fimmtudaginn 24. mars 1994, kl. 15:14:16 (5653)


[15:14]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég tók eftir því áreiðanlega rétt að hv. þm. hafði orð á því að hann og þingmenn Austurlands hefðu átt mjög gott samstarf einmitt við flugmálayfirvöld um gerð þessarar áætlunar. Þess vegna kom mér það á óvart að hann skyldi í næsta orði kvarta yfir því og taka undir ásakanir og aðfinnslur að samstarfið milli þingsins og samgönguyfirvalda hefði ekki verið nógu gott. Ég sagði einmitt hv. þm. Stefáni Guðmundssyni að það hefði ekki verið farið dult með þessar áætlanir, síður en svo. En það má auðvitað vera í orðaleik um það ef menn vilja. Ég sagði líka vegna ummæla hv. 1. þm. Norðurl. e. --- sem er kominn aftur í salinn og skal endurtaka --- að eftir að flugmálaáætlun var tekin upp með lögunum 1987 hygg ég að vinnubrögðin hafi verið með sama hætti og nú. Það var einungis áður þegar fé var veitt frá ári til árs í fjárlögum með sama hætti og til hafnamála og tekjustofnar voru ekki sérgreindir sem þau vinnubrögð áttu við sem hv. þm. vék að.
    Í sambandi við Þórshafnarflugvöll vil ég líka segja að ég athugaði það ekki að ráðherra má ekki tala nema tvisvar þó hann sé framsögumaður við þáltill. Ég ætlaði að svara því. Það liggur ekki fyrir hversu mikið það kostar, eða ég hef ekki þær tölur, að leggja bundið slitlag á Þórshafnarflugvöll en mér er jafnframt sagt að sagan sé ekki öll sögð með því því bundið slitlag kalli á önnur og dýrari snjómoksturstæki og meiri viðbúnað að öðru leyti. Hér er því um frekari og meiri kostnað að ræða en áður.
    Þessi flugmálaáætlun ber það með sér að fjármunir eru af skornum skammti. Hún er gætin því það er ekki gert ráð fyrir hækkun flugvallargjaldsins á næstu árum. Ef það verður almennur efnahagsbati í þjóðfélaginu þá mun að sjálfsögðu gefast svigrúm til þess að ráðast í frekari og meiri verkefni en áætlunin gerir ráð fyrir.