Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

118. fundur
Fimmtudaginn 24. mars 1994, kl. 15:34:30 (5660)

[15:34]
     Flm. (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þetta frv. lætur ekki mikið yfir sér. Það er í tveimur greinum og alls eru þetta efnislega um þrjár línur þannig að hér er ekki í orðum talið stórt mál á ferðinni en mikilvægt þó og það lýtur að réttindu karlmanna í þjónustu ríkisins til fæðingarorlofs. En eins og málum er háttað í dag þá er sá hópur í þjóðfélaginu sem ekki hefur nokkurn rétt til greiðslna í fæðingarorlofi og njóta þar af leiðandi ekki réttar á við karlmenn sem eru á almennum vinnumarkaði. Ég vil gera hér lítillega grein fyrir hvernig á þessu stendur.
    Ástæðan fyrir því að ég flyt þetta mál hérna eða forsaga þess er sú að þann 10. sept. 1993 samþykkti kærunefnd jafnréttismála á fundi sínu niðurstöðu í tveimur málum sem henni bárust og vörðuðu rétt karla í þjónustu ríkisins til launa í fæðingarorlofi. Í báðum þessum málum hafði fjmrn. synjað körlum um slíka greiðslu með þeim rökum að einungis konur ættu þennan rétt. Synjun fjmrn. byggðist á því að um rétt ríkisstarfsmanna til greiðslna í fæðingarorlofi fer samkvæmt reglugerð nr. 410/1989, um barnsburðarleyfi starfsmanna ríkisins. Reglugerðin er sett samkvæmt heimild í 17. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Ákveðið skal með reglugerð hvernig fari um launagreiðslur til starfsmanna í veikindaforföllum svo og til kvenna í fjarvistum vegna barnsburðar.``
    Á grundvelli þessa kynbundna lagaákvæðis telur starfsmannaskrifstofa fjmrn. að karlar í starfi hjá ríkinu eigi ekki rétt á launuðu fæðingarorlofi af því að þarna stendur að það skuli ákveða hvernig farið skuli með launagreiðslur til kvenna í fjarvistum vegna barnsburðar. Það var þess vegna sem þeim var synjað fæðingarorlofs hjá starfsmannaskrifstofu fjmrn. Báðir þessir aðilar sem þarna er um að ræða fóru með sitt mál til Tryggingastofnunar ríkisins og leituðu eftir rétti sínum þar og óskuðu eftir því að fá greitt fæðingarorlof frá Tryggingastofnun ríkisins þar sem þeir hefðu ekki þennan rétt hjá sínum atvinnurekanda sem er ríkið. Í báðum þessum málum synjaði hins vegar Tryggingastofnun ríkisins beiðni þeirra um greiðslu fæðingardagpeninga með þeim rökum að karlmaður eigi því aðeins þann rétt að kona hans hafi notið fæðingardagpeninga. Með öðrum orðum, réttur feðra sé afleiddur af rétti mæðra og hafi móðir ekki tekið fæðingarorlof hjá Tryggingastofnun ríkisins eigi faðirinn þar af leiðandi engan rétt. En báðar eiginkonur þessara manna eru opinberir starfsmenn og tóku fæðingarorlof samkvæmt þeim reglum sem gilda um fæðingarorlof opinberra starfsmanna.
    Þessi túlkun Tryggingastofnunar orkar reyndar mjög tvímælis og er vafasamt að mínu viti að hún standist lög um fæðingarorlof sem og lög um almannatryggingar. Í lögum um fæðingarorlof segir klárlega, með leyfi forseta, í 2. gr.:
    ,,Foreldrar, sem gegna launuðum störfum og eiga lögheimili á Íslandi, eiga rétt á fjögurra mánaða fæðingarorlofi samkvæmt lögum þessum. Frá 1. jan. 1989 skal fæðingarorlof vera fimm mánuðir og frá 1. jan. 1990 sex mánuðir.`` Þ.e. það er skilyrðislaust sagt ,,foreldrar sem gegna launuðum störfum``.
    Síðan er sagt í þessum lögum síðar: ,,Um greiðslur í fæðingarorlofi fer samkvæmt ákvæðum laga

nr. 67/1971, um almannatryggingar, með síðari breytingum.`` Lögin um fæðingarorlof kveða sem sagt á um réttinn til töku fæðingarorlofs en síðan er vísað í lög um almannatryggingar til þess að finna réttinn um greiðslur í fæðingarorlofi. Í lögum um almannatryggingar segir um fæðingarstyrk að ákvæði greinar þessarar taka ekki til félagsmanna í samtökum opinberra starfsmanna, bankamanna eða annarra stéttarfélaga er njóta óskertra launa í fæðingarorlofi samkvæmt kjarasamningum þann tíma sem óskert laun eru greidd. Þ.e. þeir sem njóta óskertra launa í fæðingarorlofi eiga ekki að njóta fæðingarstyrks samkvæmt lögum um almannatryggingar. Feður í opinberri þjónustu njóta hins vegar ekki óskertra launa í fæðingarorlofi og ættu þar af leiðandi ekki að vera útilokaðir frá fæðingarstyrk samkvæmt almannatryggingalögum.
    Um fæðingarorlof segir síðan í þessum sömu lögum: ,,Foreldrar í fæðingarorlofi, sem lögheimili eiga á Íslandi, eiga rétt á greiðslu fæðingardagpeninga samkvæmt grein þessari,`` þetta er reyndar 26. gr. laganna eins og hún var áður en lögunum var breytt núna á þessu þingi, ,,enda leggi þeir niður launuð störf þann tíma. Þeir sem eiga rétt samkvæmt kjarasamningum til óskertra launa í fæðingarorlofi eiga þó ekki rétt á greiðslu fæðingardagpeninga samkvæmt ákvæði þessu.``
    Með öðrum orðum, þeir sem eiga rétt til óskertra launa og feður í þjónustu ríkisins eiga ekki þennan rétt þannig að samkvæmt því ættu þeir að falla undir almannatryggingalögin þar sem réttur þeirra er ekki tryggður neins staðar annars staðar.
    Nú segir líka í þessum lögum um almannatryggingar um fæðingardagpeninga:
    ,,Nú hefur móðir fengið fæðingardagpeninga í a.m.k. einn mánuð eftir fæðingu og á þá faðir rétt á greiðslu fæðingardagpeninga í stað móður ef hún óskar þess, enda leggi hann niður launavinnu á meðan. Foreldrar geta og skipt með sér fæðingarorlofi, t.d. verið bæði í orlofi á sama tíma að fullu eða að hluta, þó þannig að greiðslur til þeirra sameiginlega nemi ekki meira en fjögurra mánaða fæðingardagpeningum.``
    Það er væntanlega þessi grein sem Tryggingastofnun hengir sig á þegar hún segir að réttur föður sé afleiddur af rétti móður, þ.e. að móðir getur framselt hluta af sínum rétti til föður og hafi móðir ekki tekið fæðingarorlof hjá Tryggingastofnuninni, þá líta þeir svo á að faðirinn eigi engan rétt og þar af leiðandi lendir þessi hópur, karlmenn í þjónustu hins opinbera, á milli laga og reglugerða og á engan rétt. Þar segir því í álitsgerð kærunefndar jafnréttismála að með þessari framkvæmd standi stór hluti feðra án nokkurs réttar til greiðslna taki þeir fæðingarorlof og séu þannig beittir misrétti sem engin efnisleg rök virðast fyrir.
    Þetta var tilvitnun í álit kærunefndar jafnréttismála. Vísar nefndin í því sambandi til þess að á árinu 1987 hafi Alþingi samþykkt fyrstu almennu lögin um fæðingarorlof sem hafi átt að tryggja öllum foreldrum rétt til leyfis frá launuðum störfum vegna fæðingar barns. Þá hafi Alþingi jafnframt samþykkt breytingar á lögum um almannatryggingar sem höfðu það að markmiði að bæta í einhverju það tekjutap sem foreldri sem leggur niður vinnu verður fyrir vegna töku fæðingarorlofs og það var það sem ég var að vitna til hér áðan. Í áliti kærunefndar segir svo:
    ,,Af ræðum alþingismanna um fyrrgreind lagafrumvörp frá 1987 verður ekki ráðið að vilji þeirra hafi staðið til þess að feðrum væri mismunað með þeim hætti sem gert hefur verið. Þvert á móti mætti ætla að þeir hafi talið að feður í opinberri þjónustu hefðu sama rétt og mæður í opinberri þjónustu og því talið óþarft að taka sérstaklega á réttindum þeirra. Þessi skilningur kemur beinlínis fram --- og er ómótmælt --- hjá einum þingmanni.``
    Niðurstaða kærunefndar jafnréttismála var því sú að túlkun starfsmannaskrifstofu fjmrn. sé ,,hvorki í samræmi við 4. gr. laga nr. 28/1991, tilgang þeirra laga né skilning og fyrirætlan löggjafans þegar sett voru lög nr. 57/1987 og lög nr. 59/1987``, þ.e. lögin um fæðingarorlof og greiðslur í fæðingarorlofi. Og síðan segir:
    ,,Með vísan til 20. gr. laga nr. 28/1991 er þeim tilmælum því beint til fjmrn. að það hlutist til um að gerðar verði þær ráðstafanir sem þarf til þess að viðurkenndur verði og tryggður réttur feðra í þjónustu ríkisins til launa í fæðingarorlofi.``
    Í framhaldi af þessu lagði flm. þessa frv. fram fsp. til fjmrh. á þskj. 48 á þessu þingi þar sem spurt var með hvaða hætti hann hygðist bregðast við þessum tilmælum. Ráðherra lýsti því sem sinni skoðun að eðlilegt og nauðsynlegt væri að endurskoða ákvæði 17. gr. laganna um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, en virtist hafa lítinn vilja til að taka sérstaklega á málinu. Vísaði ráðherra málinu inn í framtíðina og sagði, ég vitna hér beint í orð ráðherrans, ,,að það þyrfti að ganga til heildstæðrar umfjöllunar um lögin.`` Að mati flm. eru þetta óviðunandi svör þegar hægt er að ráða bót á þessu misrétti með einföldum hætti og þess vegna er þetta frv. nú fram komið.
    Virðulegur forseti. Ég hef þá lokið að mæla fyrir þessu frv. og legg til að því verði vísað til 2. umr. og til skoðunar í hv. efh.- og viðskn. því að líklega þarf þetta mál að fara þangað þar sem sú nefnd hefur farið með kjaramál opinberra starfsmanna þó að fæðingarorlof að öðru leyti heyri kannski betur undir heilbr.- og trn. En vegna þess að þetta er breyting á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, þá er eðlilegt að frv. fari til efh.- og viðskn.