Safnahúsið

120. fundur
Mánudaginn 28. mars 1994, kl. 15:17:46 (5663)


[15:17]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Eins og kunnugt er standa vonir til þess að starfsemi geti formlega hafist í Þjóðarbókhlöðu hinn 1. des. nk. Miðað er við að um sama leyti verði að mestu lokið flutningi á ritum og öðrum gögnum Landsbókasafnsins úr Safnahúsinu við Hverfisgötu. Einhver hluti húsnæðisins verður þó enn um hríð notaður í þágu Þjóðskjalasafnsins. Ákvörðun um hvernig hagað verði framtíðarnýtingu Safnahússins hefur ekki verið tekin. Æskilegt er að sjálfsögðu að sú ákvörðun liggi fyrir innan tíðar og áður en brottflutningi Landsbókasafnsins lýkur.
    Eins og mönnum er kunnugt hafa ýmsar hugmyndir verið á lofti um hvaða starfsemi skuli ætlað rúm í Safnahúsinu þegar aðstæður breytast eins og nú hillir undir. Vorið 1987 skipaði þáv. menntmrh. þriggja manna nefnd til þess að gera tillögur til menntmrn. um nýtingu Safnahússins við Hverfisgötu þegar Landsbókasafn og Þjóðskjalasafn hafa verið flutt þaðan í önnur húsakynni, eins og segir í skipunarbréfi. Tekið var fram að einkum væri til þess ætlast að nefndin athugaði hvort nýta mætti húsið í þágu íslenskra fræða að fornu og nýju og bókmennta. Einn nefndarmanna lést áður en starfi nefndarinnar yrði lokið, en formaður sendi menntmrh. vorið 1989 greinargerð um nefndarstörfin og þær hugmyndir sem ræddar hefðu verið án þess að um eiginlegt nefndarálit væri að ræða.
    Umræðan hafði í aðalatriðum snúist um að Safnahúsið yrði gert að þjóðmenningarhúsi eins og það var orðað, þar sem komið væri fyrir sýningum á því besta sem þjóðin ætti í listmunum og minjum, þar á meðal merkum bókum og skjölum. Þá var þeirri hugmynd hreyft að jafnframt yrði í húsinu aðsetur fyrir skrifstofu forseta Íslands. Þá er og kunnugt að um skeið var til athugunar hvort til greina kæmi að gera Safnahúsið að aðsetri Hæstaréttar en frá því ráði var horfið.
    Loks ber að geta þess að forsvarsmenn Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi hafa kynnt þá hugmynd að Safnahúsið yrði nýtt fyrir Árnastofnun og yrði þar með varðveislu- og sýningarstaður hinna fornu handrita. Jafnframt yrði húsið tengt Þjóðarbókhlöðu með þeim hætti að þar yrðu geymd öryggis- og varaeintök sameinaðs Landsbókasafns og Háskólabókasafns. Fleiri hugmyndir mætti nefna þótt það verði ekki gert hér, en ég ítreka að ákvörðun hefur ekki verið tekin en verður vonandi áður en flutningi lýkur.