Framleiðsla og sala á búvörum

122. fundur
Þriðjudaginn 29. mars 1994, kl. 14:21:41 (5714)


[14:21]
     Frsm. 3. minni hluta landbn. (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að fara í deilur við hv. þm. um orð Markúsar Sigurbjörnssonar á þessum fundi en það þykist ég muna rétt hvaða orð hann hafði um seinni hluta nefndarálits hv. þm. og félaga.
    Varðandi svo að það sem hafi komið fram frá 2. umr. hafi orðið fyrst og fremst til þess að styrkja hv. þm. í trúnni, þá verð ég bara að segja að mikil er trú þingmannsins. Og það er vægast sagt sérstakt að það álit þingmannsins er byggt að verulegu leyti á greinargerð þriggja lögmanna sem eru sömu lögmennirnir og sömdu nefndarálitið. Það væri nú fróðlegt að fletta upp í nýsamþykktum stjórnskipunarlögum og athuga hvað þar segir um svona hluti. Ég held hins vegar, hv. þm. að það standi ekkert varðandi þetta atriði því að við þá vinnu hafi menn einfaldlega ekki haft hugmyndaflug til að láta sér detta í hug að þessi staða gæti komið upp á Alþingi Íslendinga.