Rannsóknir á heimilisofbeldi

122. fundur
Þriðjudaginn 29. mars 1994, kl. 17:35:13 (5751)


[17:35]
     Valgerður Gunnarsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég tel tillögu þá sem hér er lögð fram vera mjög gagnlega og fagna því að hún er fram komin. Það virðist því miður vera nöturleg staðreynd að ofbeldi hafi aukist í þjóðfélaginu. Það getur vel verið að það sé bara orðið sýnilegra núna heldur en það hefur áður verið. Ofbeldi hefur að sjálfsögðu alltaf verið til eins og hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir minntist hér á, en það er orðið sýnilegra og umræðan er orðin meiri. Það er einnig hugsanlegt að það sé að aukast en aukið ofbeldi er mjög alvarlegt mál vegna þess að það hefur eyðileggjandi áhrif á samfélagið allt. Það skemmir út frá sér og hefur margfeldisáhrif til eyðileggingar langt út fyrir verknaðinn sjálfan. Þetta á ekki hvað síst við um heimilisofbeldi þar sem börn eru annaðhvort fórnarlömb og/eða áhorfendur. Ofbeldi er því þjóðfélagsmein, hættulegt fyrir lýðræðið og fyrir jafnvægið í þjóðfélaginu fyrir utan þá persónulegu harmleiki og þær mannlegu þjáningar sem það veldur.
    Ég tel mjög mikilvægt að við fáum haldgóðar og vel unnar upplýsingar um ástæður og umfang ofbeldis gegn konum á Íslandi og gegn körlum líka að sjálfsögðu. Þó að það hafi verið gerðar rannsóknir erlendis, þá er ekki hægt að heimfæra erlendar rannsóknir beint upp á Íslendinga þannig að fullt gagn sé að því að hér gætu vel verið aðstæður sem eru frábrugðnar því sem er í öðrum löndum og sem þyrfti að athuga nánar. Þess vegna er mjög mikilvægt að þessar kannanir séu gerðar hér þannig að við vitum hvað er um að ræða hér heima hjá okkur. Og til þess að hægt sé að gera raunverulegar tillögur um úrbætur sem verða að einhverju gagni, þá verðum við að hafa haldgóðar upplýsingar.