Sjónvarps- og útvarpssendingar frá Alþingi

122. fundur
Þriðjudaginn 29. mars 1994, kl. 18:28:31 (5762)


[18:28]
     Páll Pétursson (andsvar) :
    Frú forseti. Vera kann að lausnin á þessu máli sé sú að breyta fundartíma í Alþingi og hafa þingfundina árdegis, nefndarfundi, þingflokksfundi og ríkisstjórnarfundi síðdegis. Það mundi væntanlega vera kostnaðarminna að koma sjónvarpi til landsmanna frá Alþingi með þessum hætti. Ég vil benda flm. og þeim sem koma til með að fjalla um þessa tillögu á þessa lausn. Ég fyrir mitt leyti væri tilbúinn að berjast fyrir því í mínum flokki að breyta fundartímanum þannig að hinir opinberu þingfundir færu fram á morgnana ef það hefði það í för með sér að sjónvarpað yrði um land allt frá þessari stofnun.