Veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

122. fundur
Þriðjudaginn 29. mars 1994, kl. 19:29:43 (5778)


[19:29]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég tel að hér sé á ferðinni merkileg tillaga og hún eigi í fortíðinni kannski uppsprettu í því að við Breiðafjörð hafa menn gengið framar og fyrr fram í því að friða svæðið fyrir fyrir alls kyns veiðarfærum. Þetta hefur á undanförnum árum skilað sér í því að í Breiðafirði hefur verið meiri veiði, það hefur verið meiri fiskigengd í Breiðafirði heldur en annars staðar í kringum landið á undanförnum árum. Það hefur mjög oft verið komið að máli við mig vegna togveiðanna í því hólfi sem um er að ræða í þessari tillögu. Sjómenn og útgerðarmenn sem gera út frá þessu svæði hafa talað um að það nánast tæki fyrir veiðar þegar togskipin fengju að fara inn á svæðið. Nú hef ég út af fyrir sig ekkert á móti togveiðarfærum. Ég tel að þau eigi að nýta eins og önnur tæki til þess að veiða fisk við Ísland en ég tel að við eigum að færa okkur meira og meira inn á það að reyna að þróa veiðitækni okkar með það fyrir augum að gera hana eins hagkvæma og mögulegt er og líka með það fyrir augum að hlífa lífríkinu eins og við mögulega getum.
    Ég held að þær röksemdir sem sjómenn og útgerðarmenn hafa bent á í sambandi við t.d. þetta svæði eigi mjög víða við þannig að full ástæða sé til að taka tillit til þess sem hér er verið að segja og leggja til. Við höfum tölurnar um það hvað hefur veiðst og ég tel að það sé svo lítil veiði á þessu svæði og þess vegna sé ekki ástæða til þess að leggja áherslu á að ná þessum fiski með þeim veiðarfærum sem talað er um í tillögunni að útiloka. Ég tel að allur sá fiskur sem má taka og á að taka á þessu svæði muni nást með hinum veiðarfærunum sem verða áfram leyfð á þessu svæði.
    Vegna þess að sérstaklega stendur á í þinginu núna, menn þurfa að koma að málum og vilja koma þeim til nefndar og það styttist óðum tími þingsins til þingstarfanna, þá vil ég ekki hafa þessi orð fleiri þó ég gjarnan vildi það en vonast til að þetta mál hljóti skjóta og góða afgreiðslu í nefnd og komist til endanlegrar meðferðar í Alþingi.