Bann dragnótaveiða í Faxaflóa

122. fundur
Þriðjudaginn 29. mars 1994, kl. 19:44:22 (5781)

[19:44]
     Flm. (Ingibjörg Pálmadóttir) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 646 er till. til þál. um bann við dragnótaveiðum í Faxaflóa. Flm. auk mín eru hv. þm. Sturla Böðvarsson, Jóhann Ársælsson, Gísli S. Einarsson og Guðjón Guðmundsson. Tillagan er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela sjávarútvegsráðherra að banna á árunum 1995--2000 allar dragnótaveiðar í Faxaflóa og láta á þeim tíma fara fram ítarlegar rannsóknir á lífríki flóans, m.a. með tilliti til þess hver séu áhrif dragnótaveiða á viðkomu bolfisksstofna í Faxaflóa.``
    Í greinargerð segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Lengi hefur verið deilt um það, bæði á Alþingi og annars staðar, hvort dragnótaveiðar í Faxaflóa séu skaðlegar viðkomu bolfisksstofna á þessu svæði. Vitað er að á Faxaflóasvæðinu eru mikilvægar uppeldisstöðvar fyrir ýsu. Seint verður skorið með afgerandi hætti úr þessum deilum, en þó má fullyrða að á réttmæti þessara veiða leiki verulegur vafi, og þann vafa ber að skýra náttúrunni í hag.
    Faxaflóa var fyrst lokað 1952 fyrir veiðum með dragnót, en þá var svo komið að meira en 90% af þeirri ýsu sem veiddist í Faxaflóa var þriggja ára eða yngri, þ.e. hver fiskur var um eða undir 300 gr. Áhrif lokunarinnar 1952 sögðu fljótlega til sín með ótvíræðum hætti með því að hlutfall eldri fisks í ýsuaflanum stórjókst og ýsustofninn tók vel við sér. Á árinu 1960 voru dragnótaveiðar aftur heimilaðar á Faxaflóa. Veiðarnar fóru að vísu hægt af stað en á árinu 1962 náðu þær hámarki, en þá var heildaraflamagn í flóanum 10.539 tonn. Eftir þetta hríðfellur afli dragnótabátanna og fer allt niður í 684 tonn á árinu 1968.

Ýsustofninn, sem eins og áður sagði tók vel við sér við friðunina 1952, hrundi í kjölfar þess að dragnótaveiðarnar hófust aftur. Til skýringa má nefna það að á haustvertíðinni á Akranesi 1962 var meðalýsuafli í róðri 3,7 tonn, en minnkaði svo ár frá ári meðan dragnótaveiðar voru leyfðar og var svo komið að á haustvertíð 1970 var meðalýsuafli í hverjum róðri aðeins um 700 kg. Árið 1971 sáu menn í hvert óefni var komið og voru dragnótaveiðar þá aftur bannaðar í Faxaflóa og fór ýsuafli aftur stigvaxandi upp úr því. Þannig var meðalýsuafli í róðri frá Akranesi kominn upp í rúmlega tvö tonn árið 1980.
    Þegar veiðar með dragnót í Faxaflóa voru heimilaðar á nýjan leik að tillögu Alþingis árið 1979, í tilraunaskyni, fengu tveir bátar leyfi til veiðanna. Banninu var síðan formlega aflétt með breytingu á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands árið 1981. Bátunum hefur síðan farið fjölgandi ár frá ári, og nú er svo komið að á síðasta ári höfðu alls 15 bátar leyfi til dragnótaveiða í Faxaflóa. Þessi tala er allt of há. Bátarnir eru of margir til þess að um tilraunaveiðar geti verið að ræða. Flutningsmenn eru þeirrar skoðunar að rétt sé að nýta kolastofninn, en þessi fjöldi báta veldur því að afkoma þeirra flestra er léleg, of margir bátar eru að bítast um of lítinn afla, auk þess sem ítarlega verður að rannsaka hugsanleg skaðleg áhrif þessara veiða á viðkomu annarra fiskstofna á svæðinu.
    Rökin fyrir því að veiðar með dragnót í Faxaflóa séu bannaðar eru því af ýmsum toga, en þau styðjast þó einkum við þá reynslu sem fjölmargir sjómenn við Faxaflóa hafa öðlast í starfi sínu um áratuga skeið. Sjómenn, sem stunda veiðar á smábátum á þessu svæði, hafa í gegnum árin talið sig sjá greinilega fylgni milli fiskigengdar í flóanum og þess hvort dragnótaveiðar hafa verið leyfðar eða ekki. Rök þeirra manna verða ekki virt að vettugi. Það er einnig ákaflega mikilvægt að ekki eru til nægilegar samanburðarrannsóknir á veiðum fyrir og eftir banntímabil til þess að af þeim megi ráða með nokkurri vissu hvort verið sé að skemma uppvaxtarskilyrði bolfisksins. Við þessari spurningu verður að fást afgerandi svar. Að öðrum kosti er mikill ábyrgðarhluti að láta dragnótaveiðarnar halda áfram. Eins og fram kemur hér að ofan er lagt til að veiðarnar verði bannaðar í fimm ár og að á þeim tíma verði lífríki flóans ítarlega rannsakað. Þannig verði til dæmis sérstaklega hugað að ýsugengd og uppvaxtarskilyrðum ýsu í flóanum og áhrifum dragnótaveiða þar á. Komi þá í ljós með óyggjandi hætti að dragnótaveiðarnar séu skaðlausar að þessu leyti er ekkert því til fyrirstöðu að leyfa þær á nýjan leik. Aðalatriðið er að á því leikur vafi hvort veiðarnar séu skaðlegar viðkomu bolfisksstofna í Faxaflóa. Þeim vafa verður að eyða. Fiskveiðiþjóð, sem vill vera þekkt fyrir að reka ábyrga stefnu að því er varðar nýtingu auðlinda hafsins, hefur ekki efni á öðru.``
    Að lokinni umræðu um þetta mál legg ég til að þessu máli verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.